Hoppa yfir valmynd
11. júní 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 11. júní 2021

Heil og sæl.

Eftir annasamar vikur þar sem ráðherrafund Norðurskautsráðsins og fríverslunarsamning við Bretland bar hæst var vikan sem nú er er ljúka aðeins rólegri.

Við hefjum leik áfundi útflutnings- og markaðsráðs þar sem nýgerður fríverslunarsamningur við Bretland var efstur á baugi í ræðu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra. Af því tilefni hlóð ráðherra í Facebook-færslu um þetta áherslumál í ráðherratíð sinni:


Á miðvikudaginn tók Guðlaugur Þór þátt í fjarfundi Norðurhópsins þar sem hernaðaruppbygging Rússlands var til umfjöllunar ásamt skilvirkum herflutningum á friðartímum, málefnum Belarús, öryggi 5G-fjarskiptakerfa og grænum vörnum. Á fundinum var ákveðið að festa í sessi áherslu Norðurhópsins á loftslagsbreytingar og sjálfbærni hvað varnarmál áhrærir.

Á dögunum flutti Guðlaugur Þór einnig ávarp í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna á sérstökum fundi gegn spillingu en yfirlýst markmið fundarins var að skapa vettvang fyrir alþjóðasamfélagið til að ræða sameiginlegar áskoranir við að koma í veg fyrir og vinna gegn spillingu, og greina úrlausnir þeirra áskoranna.

„Birtingarmynd spillingar er stöðugt að breytast og með nýrri tækni aukast tækifæri til slíkra brota þvert á landamæri. Fjölþjóðasamstarf skiptir því enn meira máli nú en áður. Engin þjóð getur tekist á við þessa ógn á eigin spýtur, við verðum öll að vinna saman og mun Ísland áfram taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi gegn spillingu,“ sagði Guðlaugur Þór.

Á mánudag var greint frá 30 milljóna króna framlagi utanríkisráðuneytisins til að bregðast við ákalli Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) vegna mannskæðra átaka í Tigray-héraði í Eþíópíu. 

Áður en við höldum út í heim er vert að minnast á sendiráðahlaupið sem fór fram í fyrsta sinn í gærmorgun. Um er að ræða tíu kílómetra hlaup á milli átján erlendra sendiskrifstofa í Reykjavík. Starfsfólks utanríkisráðuneytisins og erlendra sendiskrifstofa spretti úr spori og skemmti sér vel eins og meðfylgjandi myndir sína.



Á vef Heimsljóss í dag kemur fram að Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefði samþykkt að leggja til að António Guterres skuli kosinn aðalframkvæmdastjóri samtakanna öðru sinni. Samkvæmt frétt upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna er það formlega allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna sem kýs til embættisins að fengnum ráðleggingum Öryggisráðsins. Guterres er einn í kjöri.

Þessu tengt þá sagði sendiskrifstofa okkar í New York frá því í vikunni að Abdulla Shahid, utanríkisráðherra Maldíveyja, hefði verið kjörinn forseti 76. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna. Hann tekur við embætti 14. september og mun þá handleika fundarhamarinn góða sem Ísland veitti Sameinuðu þjóðunum upphaflega að gjöf árið 1952 og á sér margbrotna sögu sem lesa má nánar um hér.

Í Moskvu tók Árni Þór Sigurðsson sendiherra þátt í St. Petersburg International Economic Forum og fjallaði um nýafstaðinn ráðherrafund Norðurskautsráðsins í Reykjavík og formennsku Íslands í ráðinu 2019-2021. Rússar hafa nú tekið við formennskunni og því verulegur áhugi þar á málefninu.

Í Berlín hefur ströngum útgöngu- og samkomutakmörkunum nú verið aflétt að hluta til og listagallerí hafa meðal annars verið opnuð á ný. María Erla Marelsdóttir sendiherra notaði það kærkomna tækifæri og heimsótti í vikunni nokkra íslenska listamenn sem starfa í borginni. Hún skoðaði sýningu Borghildar Indrida hjá Motor Ship Heimatland, og heimsótti Maríu Dahlberg í vinnustofuna hjá Künstlerhaus Bethanien, en María er þar staðarlistamaður. Hún heimsótti loks Huldu Rós Guðnadóttur, sem hefur haldið fjölda sýninga á Íslandi, í Þýskalandi og víðar og er að vinna að spennandi verkefnum sem hún kynnti fyrir sendiherra.

 
María Erla hvatti svo íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu, sem lék vináttulandsleik gegn Póllandi sl. miðvikudag, til dáða með kjarnyrtum skilaboðum á pólsku. Leikurinn fór 2:2 sem teljast afar góð úrslit fyrir Ísland!

Í Osló bauð Jarl Frijs-Madsen sendiherra Danmerkur norrænum sendiherrum og Jonas Gahr Støre, formanni Verkamannaflokksins (AP),  til hádegisverðar á mánudag.

Í Stokkhólmi var vel tekið á móti séra Ágústi Einarssyni, presti Íslendinga í Svíþjóð, þegar hann leit við í sendiráðinu í vikunni. Ágúst þekkir vel til málefna Íslendinga á Norðurlöndum eftir að hafa þjónað í söfnuðum Íslendinga í tæpa tvo áratugi. 

Á dagskrá ráðherra í næstu viku er m.a. leiðtogafundur Atlantshafsbandalagsins og flytur hann einnig opnunarávarp á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands sem fram fer í Norræna húsinu 16. júní.

Við segjum þetta gott í bili.

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum