Hoppa yfir valmynd
19. nóvember 2021 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 19. nóvember 2021

Heil og sæl.

Vikan sem nú er að líða hefur verið afar viðburðarík.

Á miðvikudag var Ísland kjörið í framkvæmdastjórn Mennta-, vísinda og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) með yfirgnæfandi stuðningi á aðalráðstefnu stofnunarinnar í París. Ísland hlaut flest atkvæði í kosningunni, eða 168 en 178 ríki greiddu atkvæði.

Óhætt er að segja að það séu frábærar fréttir, líkt og Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra, sagði á Facebook-síðu sinni:

Í dag fagnar svo Ísland 75 ára aðildarafmæli að Sameinuðu þjóðunum og hefur utanríkisráðuneytið heldur betur flaggað því á sínum miðlum.

Í tilefni dagsins ritaði ráðherra grein í Fréttablaðið:

„Í ræðu sem Thor Thors sendiherra flutti við tilefnið sagði hann hugsjónina að baki Sameinuðu þjóðunum endurspegla vel gildismat Íslendinga. Þátttakan í starfi Sameinuðu þjóðanna hefur allar götur síðan verið hornsteinn í utanríkisstefnu okkar. Ísland hefur á þessum 75 árum verið öflugur málsvari sjálfsákvörðunarréttar, virðingar fyrir alþjóðalögum, mannréttinda, jafnréttis, bættra lífsgæða og sjálfbærrar auðlindanýtingar,“ ritaði ráðherra í grein sinni.

Ræðu Thors voru enn fremur gerð skil á vef ráðuneytisins. Svo birtum við einnig þetta skemmtilega myndskeið í tilefni dagsins.

Við bendum að auki á Instagram Story hjá utanríkisráðuneytinu í dag þar sem okkar fólk í fastanefnd Íslands gagnvart Sameinuðu þjóðunum fer yfir hlutina og ræðir m.a. við Thor Thors yngri.

En það var fleira á dagskrá í vikunni.

Í gær hélt Guðlaugur Þór opnunarávarp á ársfundi tengslanets norrænna kvenna í friðarumleitunum og sáttamiðlun (Nordic Women Mediators Network) en fundurinn fór fram hér á landi dagana 17.-19. nóvember.

Fyrr í vikunni skrifuðu svo Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, og Ib Petersen, aðstoðarframkvæmdastjóri Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA),  undir rammasamning um stuðning Íslands við UNFPA.

Á mánudag hittust þróunarsamvinnuráðherrar Norðurlanda á fjarfundi til að ræða stöðuna í Eþíópíu. Ráðherrarnir lögðu áherslu á mikilvægi þess að mannúðaraðstoð næði til bágstaddra og að pólitískra lausna væri leitað. María Mjöll Jónsdóttir, skrifstofustjóri alþjóða- og þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, tók þátt í fundinum fyrir hönd Íslands.

Þá birtum við í dag færslu um útskrift úr Jarðhitaskóla GRÓ þar sem 25 nemendur af 14 þjóðernum útskrifuðust.

En þá að sendiskrifstofunum.

Í Malaví vakti það athygli er sendiráð Íslands þar í landi afhenti 570 reiðhjól til allra heilbrigðisfulltrúa í Mangochi-héraði. Sagt var frá þessu í Heimsljósi og þá birtist einnig frétt um málið í Fréttablaðinu í dag.

Inga Dóra Pétursdóttir, forstöðumaður sendiráðsins í Malaví, sést hér prófa einn fákanna í mikili stemningu:

Nemendur í íslensku við háskólann í Helsinki heimsóttu Auðunn Atlason sendiherra í bústað hans þar í borg. Þar fóru einnig fram umræður um íslenskar bókmenntir í vikunni þar sem þýðingar Tapio Koivukari á verkum Jóns Kalmans Stefánssonar rithöfundar og Sigurðar Pálssonar skálds voru til umræðu.

Á Indlandi voru endurnýjanlegir orkugjafar og nýting þeirra megin umræðuefnið í heimsókn Guðna Bragasonar sendiherra til Uttarakhand-fylkis, sem liggur við rætur Himalayafjalla, 11. – 13. nóvember 2021. Sendiherra átti fund með Pushkar Sing Dhami forsætisráðherra Uttarakhand-fylkis 12. nóvember í höfuðborginni Dehradun. Viðstaddir voru einnig menntamála- og ferðamálaráðherra fylkisins, en af hálfu sendiráðsins Sigþór Hilmisson staðgengill sendiherra og Rahul Chongtham viðskiptafulltrúi.

Í París hefur okkar fólku vitanlega haft í nógu að snúast vegna framboðs Íslands til framkvæmdastjórnar Unesco og hamingjuóskunum hefur rignt inn.

Í Osló sótti Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherra upplýsingafund norskra ráðamanna fyrir erlenda sendiherra þar í borg nýverið. Utanríkisráðherrann Anniken Huitfeldt og þróunarmálaráðherrann Anne Beathe Tvinnereim, sem jafnframt er samstarfsráðherra Norðurlanda, fóru yfir helstu áherslur nýrrar ríkisstjórnar Noregs í utanríkis- og þróunarmálum.

Þá fékk hún einnig það skemmtilega verkefni í hendurnar að sækja heim Norðmanninn Jacob Bull-Berg og veita viðtöku dýrmætri gjöf sem hann óskaði að gefa íslensku þjóðinni tilbaka. Hann hafði í fórum sínum forkunnarfagra rúmfjöl sem langamma hans fékk að gjöf í lok 19. aldar. Afar skemmtilegt! Nánar um það hér:

Í Stokkhólmi tóku sendiherrar Norðurlanda þar í borg þátt í fundi þingmannanefndar sænska þjóðþingsins um Norðurlandaráð og norræna samvinnu í vikunni. Þar gerðu sendiherrarnir grein fyrir helstu áherslum í norrænni samvinnu og framtíðaráskorunum. 

Í Færeyjum var degi íslenskrar tungu gerð rækileg skil á Facebook-síðu aðalræðisskrifstofu okkar. Fjölmargar sendiskrifstofur héldu sömuleiðis upp á daginn á sínum miðlum. Í Japan var til að mynda haldin rafræn málstofa í tilefni dagsins.

Þá komu nemendur í íslensku í heimsókn í sendiráð Íslands í Peking og héldu kynningu.

 

Fastanefnd okkar í New York hafði einnig í nógu að snúast fyrr í vikunni en þar var t.d. á dagskrá sérstakur fyrirspyrnartími Norðurlandanna á Twitter um loftslagsbreytingar. 

Í Kanada vekur svo Hlynur Guðjónsson sendiherra á kynningu fyrir íslensk fyrirtæki á Kanadamarkaði.

Nú, ef einhver á svo eftir að sjá kynningarátak Íslandsstofu á „Icelandverse“ þá deilum við því hér:

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum