Hoppa yfir valmynd
04. febrúar 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 4. febrúar 2022

Heil og sæl.

Við heilsum ykkur héðan af Rauðarárstígnum og færum ykkur það helsta úr starfi utanríkisþjónustunnar undanfarnar tvær vikur.

Spennan við landamæri Úkraínu og Rússlands heldur áfram að vera efst á baugi á vettvangi alþjóðastjórnmálanna. Þannig tók Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra til að mynda þátt í fjarfundi varnamálaráðherra Norðurlandanna sem fram fór í gær á vettvangi norræna varnarsamstarfsins (NORDEFCO). Staða mála í og við Úkraínu var meginefni fundarins en einnig var rætt um stöðu mála í Malí.

„Norræna varnarsamstarfið hefur reynst mikilvægur vettvangur að stilla saman strengi um málefni Úkraínu með norrænum vinaþjóðum. Ríkjunum ber saman um að staðan í og við Úkraínu sé enn mjög alvarleg. Ég legg áherslu á að samráð og samstaða líkt þenkjandi ríkja ráði för, og að viðbrögð okkar einkennist af stillingu,“ sagði utanríkisráðherra.

Í gær ræddi Þórdís Kolbrún einnig við kollega sinn í Eistlandi, Evu-Maríu Liimets, í síma. Meginefni fundarins voru öryggismál í Evrópu en góð samskipti ríkjanna og samstarf á sviði mannréttinda og norðurslóðamála voru einnig til umræðu.

„Sem smáríki treysta bæði Ísland og Eistland á að alþjóðalög séu virt og sérstaklega friðhelgi alþjóðlegra landamæra til lands og sjávar,“ sagði Þórdís Kolbrún meðal annars.

Þá var þess einnig minnst að þann 30. janúar síðastliðinn voru hundrað ár frá því Ísland og Eistland hófu stjórnmálasamband.

Sendiherra Noregs á Íslandi, Aud Lise Norheim, kom í kurteisisheimsókn til ráðherra í vikunni. Þær Þórdís Kolbrún ræddu meðal annars samskipti Íslands og Noregs, samstarf ríkjanna innan EES og stöðu öryggismála í Evrópu.

Þá að starfi sendiskrifstofa okkar.

Þriðja allsherjarúttekt á stöðu mannréttindamála á Íslandi fór fram á vettvangi mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna í Genf í síðustu viku. Úttektin byggir á jafningjarýni ríkja sem felst í því að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna fara yfir stöðu mannréttindamála hvers aðildarríkis og koma með ábendingar um það sem betur mætti fara. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra fór fyrir íslensku sendinefndinni sem tók þátt í fundinum í gegnum fjarfundabúnað.

Þá tók fastanefnd Íslands í Genf þátt í jafningjarýni annarra ríkja og kom meðal annars með ábendingar um stöðu mannréttindamála í Haítí, Suður Súdan, Moldóvu, Tímor-Leste, Úganda, Litháen, Zimbabwe, Venesúela, Sýrlandi og Tógó.

Í síðustu viku undirritaði Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra Íslands í París, undir stofnsáttmála nýrrar alþjóðastofnunar um leiðsögu á sviði siglinga. Skrifaði hún undir samninginn fyrir hönd samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og Vegagerðarinnar, sem fara með vita- og hafnamál.

Árni Þór Sigurðsson sendiherra Íslands í Moskvu afhenti þann 26. síðastliðinn frú Maiu Sandu forseta Moldóvu trúnaðarbréf sitt. Athöfnin fór fram í forsetahöllinni í Kísínev.

 

Fastafulltrúi Íslands í Strassborg hitti nýkjörinn forseta þings Evrópuráðsins, Tiny Kox, í síðustu viku til að ræða komandi formennsku Íslands, en hann mun vera forseti þingsins þegar Ísland tekur við stjórn Evrópuráðsins síðar á árinu.

 

Fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York, Jörundur Valtýsson, tók þátt í undirbúningi fyrir hafráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin verður í Lissabon í sumar.

Í Kaupmannahöfn tók sendiráð Íslands þátt í verkefninu #AmbassadorforaDay á vegum breska sendiráðsins í Kaupmannahöfn. Ungar stúlkur úr hópi 14-17 ára umsækjanda voru valdar til að fylgjast með störfum sendiherra og sendiráðsins og var hin 15 ára Marie Holt Hermansen valin sem fulltrúi Íslands.

 

Íslensk menning hefur verið áberandi í starfsemi sendiráðanna okkar undanfarnar vikur. Í síðustu viku hófst norræna menningarátakið Nordic Bridges í Kanada og hefur sendiráð Íslands þar í landi tekið fullan þátt í undirbúningnum.

Þá var fyrsti viðburðurinn í menningardagskránni MØT Reykjavík haldinn í Bærum Kulturhus í Noregi. Þar kynnti íslenski kokkurinn Atli Már Yngvason frá veitingastaðnum Katlaoslo íslenskan þorramat fyrir gestum. Salurinn er prýddur verkum eftir Erró og var sýningin fyrst opnuð af sendiherra Íslands Ingibjörgu Davíðsdóttur, sendiherra Íslands í Noregi, í janúar fyrir rúmu ári síðan.

Sendiherra Íslands í Berlín, María Erla Marelsdóttir, var í síðustu viku viðstödd frumsýningu á dansverkinu „Orpheus + Eurydike“ í Hamborg, sem er hluti af norrænu sviðslistahátíðinni NORDWIND. Verkið er að mestu sett upp og útfært af Íslendingum og má meðal annars nefna að Erna Ómarsdóttur er leikstjóri og danshöfundur, Gabríela Friðriksdóttir, sviðsmyndar- og búningahönnuður, Bjarni Jónsson textahöfundur og tónlist í höndum Valdimars Jónssonar og Skúla Sverrissonar. Á þriðjudaginn fóru svo fram jazztónleikar með Önnu Grétu Sigurðardóttur og hljómsveit í Felleshus, menningarmiðstöð norrænu sendiráðanna í Berlín. Voru tónleikarnir hluti af tónleikaferðalagi hennar í Þýskalandi til að kynna nýju plötuna „Nightjar in the Northern Sky“, og voru þeir haldnir í samstarfi við þýska útgáfufyrirtækið ACT Music.

Sendiherra Íslands í Stokkhólmi, Hannes Heimisson, heimsótti Gautaborg á dögunum og tók þátt í umræðum um Sturlungasögu, sem kom nýverið út í sænskri þýðingu.

Á Facebook-síðu utanríkisþjónustunnar sögðum við frá starfsemi sendiráðs Íslands í Kína á kínverska samfélagsmiðlinum Weibo. Færslur sendiráðsins hafa vakið verulega athygli en þess má geta að færslur þeirra voru skoðaðar rúmlega sex milljón sinnum árið 2021.

 

Þá sótti Þórir Ibsen, sendiherra Íslands í Peking, opnunarhátíð vetrarólympíuleikanna sem voru settir þar í borg í dag. 

Í Heimsljósi var meðal annars sagt frá verkefni sem miðar að því að bæta aðgengi íbúa Namahyingo héraðs í Úganda að neysluvatni. Um er að ræða nýtt samstarfshérað Íslendinga í Úganda og eru úrbætur á sviði vatnsmála ofarlega á blaði hjá héraðsstjórninni.

Þá var einnig greint frá frekari stuðning við skólamáltíðir í Malaví, en að sögn Ingu Dóru Pétursdóttur forstöðumanns sendiráðs Íslands í Lilongwe var Ísland fyrsta þjóðin til að styðja við heimaræktaðar skólamáltíðir í Malaví árið 2012. „Það reyndist svo vel að WFP hyggst innleiða þá aðferð í nánast öllum samstarfslöndum sínum,“ segir Inga Dóra.

Við bendum að lokum á fréttaannál sendiskrifstofa fyrir árið 2021 en þrátt fyrir heimsfaraldur var árið afar viðburðaríkt hjá sendiskrifstofunum okkar.

Í næstu viku mun ráðherra taka þátt í norrænum þróunarmálaráðherrafundi og fundi um fjölmiðlafrelsi undir merkjum Media Freedom Coalition.

Fleira var það ekki að þessu sinni.

Góða helgi!

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum