Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 25. febrúar 2022

Heil og sæl.

Um leið og hillti undir lok sóttvarnatakmarkana á Íslandi braust út stríð í Evrópu, eins ótrúlegt og það kann að hljóma. „Stríð í Evrópu“  var einmitt fyrirsögn á forsíðu Morgunblaðsins í dag, 25. febrúar árið 2022, með heilsíðumynd af vígbúnum úkraínskum hermönnum sem hyggjast reyna að stöðva árás rússneska hersins á Úkraínu. Klukkan 04:50 aðafaranótt fimmtudags fyrirskipaði Pútín Rússlandsforseti innrás rússneska hersins í Úkraínu. Allir spyrja sig hvað taki við eða hver sé „endaleikur“ Pútíns. Fátt er um svör en orð Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra í Morgunblaðinu í gær fanga svarið við þeirri spurningu ágætlega á þessum tímapunkti.

„Ég er sorgmædd að fylgjast með þessu og þetta eru svo alvarlegir atburðir að ég þori ekki að segja til um hvað muni gerast til viðbótar við það sem þegar hefur gerst,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Íslensk stjórnvöld fordæmdu harðlega víðtækar árásir rússneskra stjórnvalda á Úkraínu í gær og lýstu harmi yfir þeirri eyðileggingu og þjáningu sem slík innrás óhjákvæmilega veldur. 

„Stríðsrekstur Rússa í Úkraínu er raunveruleg ógn við öryggi í Evrópu. Við stöndum staðfastlega með okkar bandalagsríkjum og nánustu samstarfsríkjum og tökum fullan þátt í víðtækum þvingunaraðgerðum sem verða útfærðar í dag og á morgun. Ísland hefur lýst algjörum stuðningi við Úkraínu og fordæmir innrás gegn löghelgi landamæra þeirra. Við tökum heilshugar undir kröfu um að Pútín Rússlandsforseti dragi herlið sitt tafarlaust frá Úkraínu,“ var haft eftir utanríkisráðherra á vef Stjórnarráðsins í gær. 

Í dag var svo tilkynnt um brottrekstur Rússlands úr Evrópuráðinu.

Utanríkisráðuneytið hefur verið lýst upp fánalitum Úkraínu.

Í Kastljósi í gærkvöldi sagði Þórdís Kolbrún að refsiaðgerðir Evrópusambandsins, sem íslensk stjórnvöld styðja, verði mjög þungar og viðamiklar.

„Hvort þær dugi til verður að koma í ljós en þær snúa bæði að hinu opinbera og einkageiranum í Rússlandi og ákveðnum aðilum. Þetta eru aðgerðir af þeirri stærðargráðu sem við höfum ekki séð áður gagnvart Rússlandi og allt annað og meira heldur en árið 2014,“ sagði Þórdís Kolbrún í Kastljósi.

Þjóðaröryggisráð kom saman til fundar í gær og þá flutti forsætisráðherra skýrslu á Alþingi um stöðu mála í Úkraínu. Á þinginu kom fram þverpólitísk samstaða um aðgerðir og þátttöku íslenskra stjórnvalda.

Hernaður Rússlands gegn Úkraínu var umfjöllunarefni funda sem fram fóru í gær á vettvangi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) og norræna varnarsamstarfsins NORDEFCO. Þar lagði Þórdís Kolbrún áherslu á að árásirnar væru brot á alþjóðalögum um leið og hún áréttaði samstöðu með úkraínsku þjóðinni.

Þá boðaði Atlantshafsbandalagið til aukafundar í dag vegna stöðunnar sem utanríkisráðherra sat ásamt forsætisráðherra.

Í ræðu Þórdísar Kolbrúnar utanríkisráðherra á fundi útflutnings og markaðsráðs í dag var svo ástandið í Úkraínu og mikilvægi friðar og alþjóðalaga helstu umfjöllunarefnin. „Áherslur Íslands í utanríkismálum, þar með taldir viðskiptahagsmunir, hvíla á þeirri grundvallarstoð að regluverk alþjóðalaga sé virt. Þeir samningar sem við gerum til að leggja grunn að utanríkisviðskiptum hvíla á regluverki alþjóðalaga. Það sama er að segja um eitt fjöreggið okkar, efnahagslögsögu Íslands,“ sagði hún meðal annars.

Vegna mikilla anna upplýsingadeildar eru þrjár vikur liðnar frá síðasta föstudagspósti en hér að neðan verður tæpt á því helsta í starfsemi ráðuneytisins.

Og enn ber að sama brunni. 22. febrúar ræddu varnarmálaráðherrar Sameiginlegu viðbragðsveitarinnar (Joint Expeditionary Force, JEF) stöðuna vegna Úkraínu, 17. febrúar var ástandið „í og við Úkraínu efst á baugi varnarmálaráðherrafundar“ Atlantshafsbandalagsins, og þá var óvissa í öryggismálum í Evrópu aðalumræðuefnið á fundi Þórdísar Kolbrúnar og Jens Stoltenbergs framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins sem fram fór í Brussel 15. febrúar.

7. febrúar kom fram í frétt á vef stjórnarráðsins að utanríkisráðuneytið hygðist verja 250 milljónum króna til að styðja við starfsemi Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna (UNICEF) til að hraða dreifingu og aðgengi að COVID-19 bóluefnum í þróunarríkjum. Í fyrri hluta febrúarmánaðar greindum við frá fundi Þórdísar Kolbrúnar með  David Beasley framkvæmdastjóra Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna (WFP). Þann 17. febrúar fóru svo fram fundir utanríkisráðherra í Brussel með fulltrúum framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB) þar sem samstarf á vettvangi EES, viðskiptamál og pólitískt samráð um alþjóðamál voru meðal umræðuefna.

Þá að starfsemi sendiskrifstofa sem hafa allar á sínum miðlum ítrekað afstöðu stjórnvalda gagnvart stríðsrekstri Rússlands.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra heimsótti sendiskrifstofu okkar í Brussel á dögunum.

Það gerði einnig þingmannanefnd EFTA og EES í fyrri hluta mánaðar. 

Þá flutti Kristján Andri Stefánsson sendiherra vinnuhópi ráðs ESB um EFTA skýrslu um EES-samstarfið og ræddi við fulltrúa fastanefnda aðildarríkjanna um samskipti Íslands og ESB.

Fimmtudaginn 10. febrúar var opnuð í Felleshus, menningarmiðstöð norrænu sendiráðanna í Berlín sýningin Hliðstæðar víddir eða Parallel Dimensions undir sýningarstjórn Ásdísar Spanó.

Sendiráð Íslands í Helsinki vakti athygli á dögunum á nýju merki í tengslum við 75 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Finnlands.

Þar kvaddi starfsfólk sendiráðsins einnig Auðun Atlason sendiherra sem tekur við starfi alþjóðafulltrúa forsætisráðuneytisins. Elín Flygenring tekur tímabundið við starfi sendiherra í Helsinki áður en Harald Aspelund tekur við í ágúst næstkomandi.

Í Úganda heldur starf sendiráðsins áfram við að efla aðstæður til menntunar í Namayingo-héraði.

Sturla Sigurjónsson var á Írlandi á dögunum þar sem hann afhenti Michael D. Higgins, forseta Írlands, trúnaðarbréf sem sendiherra Íslands.

Árni Þór Sigurðsson sendiherra í Rússlandi og Ilona Vasilieva viðskiptafulltrúi sendiráðsins heimsóttu nýlega The Russia Renewable Energy Development Association (RREDA) og funduðu með Alexei Zhikharev (Алексей Жихарев) framkvæmdastjóra og samstarfsfólki hans um samstarfsverkefni Íslands og Rússlands á sviði endurnýjanlegra orkugjafa, einkum jarðvarma.

Aðalræðismenn Norðurlandanna í New York, þar á meðal Nikulás Hannigan, funduðu á dögunum með kollega sínum frá Úkraínu til að ræða stöðu mála ásamt aðalræðismönnum Póllands og Litáen.

Sendiráð Íslands í Nýju Delí og fyrirtækið GEG Power hélt kynningu um jarðvarmatækni sem fram fór þar í borg.

Guðni Bragason sendiherra Íslands á Indlandi heimsótti einnig National Aquatic Resources Research and Development Agency (NARA) in Colombo á Sri Lanka.

Hlynur Guðjónsson, sendiherra Íslands í Kanada, fór til Winnipeg á dögunum og sótti listasafn þar í borg. Heimsóknin var liður í upptakti að menningarhátíðinni Nordic Bridges.

Sendiherrar Norðurlanda í Ósló áttu hádegisverðarfund með Anniken Huitfeldt utanríkisráðherra Noregs á dögunum í boði sendiherra Danmerkur.

Þar í landi hefur takmörkunum vegna COVID-19 verið aflétt og því fagnaði okkar fólk í sendiráðinu.

Í Svíþjóð, Luleå, var Hannes Heimisson sendiherra fulltrúi Íslands á fundi Sameiginlegu viðbragðssveitarinnar (Joint Expeditionary Force, JEF).

Í Tókýó tók svo Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra forskot á sæluna og bragðaði á bollum.

Þá kynnti hann sér einnig útflutning á ferskum fiski frá Íslandi sem er nú í boði í Japan.

Meira var það ekki bili.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.


 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum