Hoppa yfir valmynd
11. mars 2022 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspósturinn 11. mars 2022

Heil og sæl.

Það hefur sannarlega verið nóg um að vera á vettvangi utanríkisþjónustunnar upp á síðkastið. Í gær var lögð fram á Alþingi skýrsla Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. Starfsfólk ráðuneytisins hefur unnið hörðum höndum að skýrslunni að undanförnu. Hún kemur út fyrr í ár, var lögð fram í breyttu formi og miðast nú við almanaksárið 2021. Umræðan á Alþingi var mjög góð, efnismikil og á köflum ansi lífleg en svo virtist vera sem þingheimur tæki umræðunni um utanríkismál fagnandi og er það vel.

Innrás Rússa í Úkraínu er auðvitað mál málanna. Utanríkisráðuneytið hefur fundið fyrir miklum velvilja í samfélaginu vegna ástandsins í Úkraínu og því var útbúið sérstakt vefsvæði á vefnum island.is þar sem finna má upplýsingar um hvernig einstaklingar geta veittt stuðning til Úkraínu þannig hann nýtist sem best. Þá er jafnan allt sem viðkemur viðbrögðum íslenskra stjórnvalda vegna innrásarinnar og afleiðinga hennar að finna á sérstöku svæði á Stjórnarráðsvefnum. 

Utanríkisráðuneytið og sendiskrifstofur Íslands víða um heim flögguðu fána Úkraínu í síðustu viku til að sýna úkraínsku þjóðinni samstöðu á erfiðum tímum. Færslu ráðuneytisins á Facebook má sjá hér:

Á þessum hálfa mánuði sem fjallað er um í þessum föstudagspósti hefur þetta helst átt sér stað hvað varðar Úkraínu.

27. febrúar ákváðu íslensk stjórnvöld að loka íslenskri lofthelgi fyrir umferð rússneskra loftfara og afnema einfaldari meðferð vegabréfsáritana fyrir rússneska stjórnarerindreka, viðskiptafólk, þingmenn, diplómata og tengda aðila til að sýna samstöðu með Úkraínu.

28. febrúar var greint frá því að fraktflugvél á vegum íslenskra stjórnvalda hefði flutt búnað til notkunar í Úkraínu en flogið var frá Slóveníu í samvinnu við þarlend yfirvöld til áfangastaðar nálægt landamærum Úkraínu.

Sama dag árettaði utanríkisráðherra stuðning við Úkraínu í ávarpi í mannréttindaráðinu.

„Stríðsrekstur Rússa er ekki aðeins stríð gegn Úkraínu heldur einnig gegn grunngildum lýðræðis, réttarríkisins og mannréttinda um heim allan. Við verðum að berjast fyrir því að þessi gildi séu alls staðar virt,” sagði Þórdís Kolbrún í ávarpi sínu.

1. mars fundaði sendiherra Úkraínu gagnvart Íslandi með Þórdísi Kolbrúnu. Á fundinum greindi úkraínski sendiherrann frá stöðunni í heimalandi sínu og ræddi viðbrögð alþjóðasamfélagsins við innrás Rússlands. Utanríkisráðherra lýsti yfir miklum áhyggjum af hag úkraínskra borgara og einlægri samúð í þeirra garð.

Sama dag lýstu utanríkisráðherrar Norðurlanda og Eystrasaltsríkja yfir samstöðu og stuðningi við Úkraínu á fundi sínum.

3. mars var hernaði Rússlands mótmælt á vettvangi Norðurskautsráðsins. Öll aðildarríkin fyrir utan Rússland sendu frá sér yfirlýsingu þar sem tilefnislaus innrás Rússlands í Úkraínu var fordæmd. Þar kom fram að í ljósi grófra brota Rússlands á alþjóðalögum myndu fulltrúar ríkjanna ekki ferðast til Rússlands á fundi Norðurskautsráðsins en Rússland fer nú með formennsku í ráðinu. Þá yrði gert tímabundið hlé á þátttöku í öllum fundum ráðsins og undirstofnana þess.

Sama dag fordæmdu norrænu samstarfsráðherrarnir harðlega tilhæfulausa og óverjandi innrás Rússlands í Úkraínu sem stríðir gegn þjóðarrétti og stöðvuðu tafarlaust allt samstarf við Rússland og Belarús.

4. mars var Rússlandi meinuð þátttaka í starfsemi Eystrasaltsráðsins.

Þann sama dag var stuðningur íslenskra stjórnvalda við úkraínsku þjóðina ítrekaður og innrás Rússlands harðlega fordæmd í myndbandsávarpi utanríkisráðherra í mannréttindaráði Sameinuðu Þjóðanna.

4. mars var viðburðaríkur en þá funduðu utanríkisráðherrar Atlantshafsbandalagsins einnig um Úkraínu.

Þá var jafnframt greint frá 300 milljóna króna framlagi íslenskra stjórnvalda til mannúðaraðstoðar í Úkraínu.

8. mars komu utanríkisráðherrar Norðurlandanna saman á fjarfundi til að ræða stöðu mála vegna innrásar Rússa. Ítrekuðu ráðherrarnir algjöra samstöðu með úkraínsku þjóðinni og lýstu áhyggjum af vaxandi neyð vegna hernaðar Rússa.

9. mars var hlé gert á samstarfi við Rússa á vettvangi Barentsráðsins og Norðlægu víddarinnar þar til annað verður ákveðið. Innrás Rússa var jafnframt harðlega fordæmd.

Fleira hefur verið á döfinni í ráðuneytinu.

25. febrúar sótti Þórdís Kolbrún fund útflutnings- og markaðsráðs. Ástandið í Úkraínu og mikilvægi friðar og alþjóðalaga voru helstu umfjöllunarefni í ávarpi utanríkisráðherra.

1. mars var svo greint frá útskrift 27 sérfræðinga frá þróunarríkjum úr Sjávarútvegsskóla GRÓ. Þar með hafa ríflega 1.500 hundruð sérfræðingar frá þróunarríkjum útskrifast frá skólum GRÓ - Þekkingarmiðstöðvar þróunarsamvinnu.

3. mars var sagt frá ráðningu Þóris Guðmundssonar fréttamanns í starf upplýsingafulltrúa á vegum utanríkisráðuneytisins, hjá fjölþjóðaliði Atlantshafsbandalagsins í Rukla í Litáen.

Forsætisráðherrar Kanada, Lettlands og Spánar ásamt aðalframkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins heimsóttu fjölþjóðlegt lið Atlantshafsbandalagsins í Lettlandi 8. mars.

Aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi voru ræddar á málstofu sem utanríkisráðuneytið stóð fyrir á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars.

Þá funduðu kvenkyns utanríkisráðherrar um stöðu kvenna í Afganistan á fjarfundi sem haldinn var að frumkvæði Marise Payne, utanríkis- og kvennamálaráðherra Ástralíu

„Ég er þakklát fyrir að fá að hlusta á þær segja frá reynslu sinni. Þær hafa sýnt mikið hugrekki á erfiðum tímum og eru að takast á við áskoranir á degi hverjum sem erfitt er að ímynda sér. Það er mikilvægt að alþjóðasamfélagið leggi sitt af mörkum til að sporna við því að konum sé refsað fyrir að taka virkan þátt í samfélaginu, verja réttindi sín eða tjá skoðanir sínar,“ sagði Þórdís Kolbrún.

9. mars tók Þórdís Kolbrún á móti fulltrúum Átaks - félags fólks með þroskahömlun, Tabú - feminískri fötlunarhreyfingu, Landssamtökum Þroskahjálpar og Öryrkjabandalags Íslands í utanríkisráðuneytinu. Þar fékk ráðherra afhenta áskorun um að íslensk stjórnvöld grípi tafarlaust til aðgerða til að tryggja öryggi fatlaðra borgara í stríðinu í Úkraínu.

Á þriðjudag heimsótti svo Þórdís Kolbrún öryggissvæðið á Keflavíkurflugvelli og kynnti sér starfsemina þar. Hún hitti fulltrúa portúgalska flughersins sem annast hefur loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins undanfarnar vikur, liðsmenn bandaríska sjóhersins sem sinna hér kafbátaeftirliti og starfsmenn Landhelgisgæslunnar sem hafa með höndum varnartengd rekstrarverkefni í umboði utanríkisráðuneytisins.a

Áður en við víkjum að sendiskrifstofum okkar ber að nefna að Sigríður Snævarr afhenti nýverið trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Ástralíu með aðsetur á Íslandi. Afhending var söguleg því hún var með rafrænum hætti! Við fjöllum nánar um málið hér á Stjórnarráðsvefnum við fyrsta tækifæri og víkjum þá betur að því í föstudagspóstinum. En þá að sendiskrifstofum okkar:

Í París tók Unnur Orradóttir Ramette, sendiherra, á móti einstakri gjöf frá Françoise Voillery. Um er að ræða fallega litla styttu eftir myndhöggvarann Ásmund Sveinsson sem Voillery fékk í brúðkaupsgjöf þegar hún og Claude Voillery gengu í hjónaband á Íslandi árið 1948. Tengdafaðir Françoise Voillery var Henri Voillery, konsúll og síðar sendiherra Frakklands á Íslandi (1947-1959). Frú Voillery hafði fyrir nokkru einnig gefið sendiráðinu málverk eftir listmálarann Eggert Guðmundsson, sem henni og eiginmanni hennar hafði áskotnast við sama tækifæri.

Þá hefur Alexandra Le Breton tekið við stöðu kjörræðismanns Íslands í Caen.

Unnur Orradóttir tók einnig þátt í hringborðsumræðum sem fram fóru í sendiráði Bretlands í París í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna.

María Erla Marelsdóttir sendiherra Íslands í Berlín svaraði spurningum um kynjajafnréttindi.

Sturla Sigurjónsson sendiherra Íslands í London afhenti George Vella, forseta Möltu, trúnaðarbréf sem sendiherra Íslands þar í landi á dögunum.

Elín Flygenring sendiherra Íslands í Helsinki heimsótti finnska bæinn Kaskinen nýverið í tengslum við opnun verksmiðju fyrirtækisins HPP Solutions sem er jafnframt dótturfyrirtæki íslenska verkfræðifyrirtækisins Héðins.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra heimsótti sendiráð Íslands í Brussel í síðustu viku.

Aðalræðismenn Norðurlanda, Litáens og Póllands í New York, stilltu sér upp á dögunum með aðalræðismanni Úkraínu þar í borg og sýndu samstöðu með Úkraínu.

Í Nýju Delí voru læknisfræði og heilbrigði á Íslandi viðfangsefni málstofu á vegum sendiráðs Íslands í Nýju-Delí í samvinnu við Indversk-íslenska viðskiptaráðið. 

Í Osló bauð Ingibjörg Davíðsdóttir sendiherrum Norðurlanda í Osló til hádegisverðar með Ola Borten Moe ráðherra rannsókna og æðri menntunar. 

Þá tók hún þátt í vikunni í fundi kvenkyns sendiherra í Osló með Ine Eriksen Søreide fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs og núverandi formanns utanríkis- og varnarmálanefndar Stórþingsins. Þar landi var svo menningardagskráin MØT Reykjavik formlega opnuð í Bærum kulturhus af sendiherra Ingibjörgu Davíðsdóttur og Kai Gustafsen menningarstjóra að viðstöddum ræðismönnum Íslands í Noregi og góðum vinum sendiráðsins. Ræðismönnunum var svo boðið til samráðsfundar í sendiráðinu. Auk þess kynnti sendiráðið í samvinnu við Visit Iceland Ísland sem áfangastað á ferðaráðstefnunni TravelMatch í Osló.

Í Japan minntist Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra jarðskjálftans stóra í Japan fyrir ellefu árum síðan (the Great East Japan Earthquake).

 

Þá átti Þórir Ibsen sendiherra í Kína fund ásamt norskum kollega sínum með Wu Hongbo, fulltrúa Kína um málefni Evrópu, um ýmis tvíhliða mál.

Þórir fundaði sömuleiðis með fulltrúa kínverska stjórnvalda um málefni norðurslóða á dögunum.
Þar í landi er svo allt á fullu vegna vetrarólympíumóts fatlaðra.

Fleira var það ekki í bili.

Bestu kveðjur frá upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum