Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Ræða flutt á stofnfundi íslensk-þýska verslunarráðsins

12. október 1995

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra
Stofnfundur Íslensk-þýska verslunarráðsins
Reykjavík

Góðir fundarmenn.

Mér er það sérstök ánægja að vera viðstaddur stofnun Íslensk-þýska verslunarráðsins hér í
dag. Í mínum huga er stofnun ráðsins og markmið þess mjög í anda þeirra áherslna sem
stjórnarflokkarnir urðu ásáttir um fyrr á þessu ári og finna má í stefnuyfirlýsingu
ríkisstjórnarinnar.


Eitt af meginmarkmiðum ríkisstjórnar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks er að vinna að
auknum útflutningi landsmanna og laða erlenda fjárfestingu til Íslands. Leiðin að því markmiði
felst meðal annars í að efla markaðssókn íslenskra fyrirtækja, kynna íslenska vöru og
þjónustu á erlendum mörkuðum og hvetja til samstarfs íslenskra og erlendra fyrirtækja.


Í tilefni stofnunar Íslensk-þýska verslunarráðsins er ekki úr vegi að minnast í örfáum orðum á
nokkur atriði úr viðskiptasögu þjóðanna. Allt frá landnámstíð hafa Íslendingar verið háðir
viðskiptum við útlönd. Saga þjóðarinnar sýnir að efnahagur hennar og afkoma mótast að
stærstum hluta af því hvernig utanríkisverslun hefur verið hagað á hverjum tíma. Þjóðverjar
gátu fyrr á öldum gott orðspor á Íslandi. Undir lok 15. aldar voru blómleg viðskipti milli
þjóðanna er Þjóðverjar sigldu hingað með næstum 30 skip á ári full af varningi eftir að hafa
fengið leyfi Danakonungs til siglinga árið 1475. Um miðja 16. öld var svo komið að hinir
voldugu Hansakaupmenn sátu nánast einir að Íslandsversluninni. Segir sagan að þeir hafi ávallt
gætt þess að haga versluninni þannig að landsmenn mættu vel við una. Stofnfundur
Þýsk-íslenska verslunarráðsins í Þýskalandi mun einmitt fara fram í hinni fornu borg
Hansakaupmanna, Hamborg, síðar í þessum mánuði.


Segja má að mikið vatn hafi runnið til sjávar síðan Íslendingar sendu Jóhann Þ. Jósefsson,
þáverandi alþingismann, á vegum ríkisstjórnarinnar til Þýskalands 1931 til að greiða fyrir
viðskiptum með ísfisk. Viðskipti landanna féllu eins og von var niður á stríðsárunum og það
var ekki fyrr en í lok árs 1949 að Íslendingar sömdu á ný beint við Þjóðverja um viðskipti.


Nú er Þýskaland þriðja mikilvægasta útflutningsviðskiptaland Íslands og annað í röð
innflutningsviðskiptalanda.


Ágætu fundarmenn.

Við verðum að hafa hugfast að þegar við leitum nýrra sóknarfæra í viðskiptum og verslun þá
líta fyrirtæki oft til landa og heimshluta sem hafa ekki verið könnuð áður. Það er nauðsynlegt
að leita viðskiptatengsla í fjarlægum löndum þar sem vaxtabroddur er mikill, en hinu má ekki
gleyma að oft eru ný sóknarfæri á áður þekktum mörkuðum. Þrátt fyrir að Þýskaland sé nú
þegar eitt stærsta viðskiptaland okkar er víst að þau viðskipti má enn efla og styrkja. Stofnun
Íslensk-þýska verslunarráðsins í dag er mikilvægt skref í þá átt.


Jafnframt er vert að benda á að mikill og óplægður er sá akur sem opnast hefur fyrirtækjum
og fjárfestum í Mið- og Austur Evrópu. Ekki er þó alltaf hlaupið að því að hefja þar viðskipti,
þótt nægur sé áhugi og vilji. Þýsk fyrirtæki hafa mikla reynslu af viðskiptum við rík Mið- og
Austur Evrópu, sérstaklega Pólland, Tékkland og Ungverjaland. Íslensk fyrirtæki ættu að
huga að því að með tímanum gæti samstarf íslenskra og þýskra fyrirtækja opnað íslenskum
fyrirtækjum dyr til austurs.


Eins og ég minntist á í upphafi er eitt af markmiðum ríkisstjórnarinnar að styðja allar tilraunir til
að laða til landsins erlendar fjárfestingar. Fyrir skömmu tók til starfa fjárfestingarskrifstofa á
vegum iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins og Útflutningsráðs Íslands, með aðsetur hjá
Útflutningsráði. Stuttu eftir stofnun skrifstofunnar fór fulltrúi hennar ásamt fulltrúa
viðskiptaskrifstofu utanríkisráðuneytisins á fund þýskra aðila í Bonn og Dusseldorf til að fá
upplýsingar og læra af reynslu Þjóðverja við að laða erlenda fjárfesta til landsins. Eins og
jafnan þegar Íslendingar leita í smiðju Þjóðverja eru þeir boðnir og búnir að veita alla aðstoð.


Sendiráð Íslands í Bonn vinnur nú ásamt verslunarráðinu í Dusseldorf að kynningu á Íslandi og
möguleikum fyrir þýsk fyrirtæki til fjárfestinga á Íslandi og samstarfi við íslensk fyrirtæki. Þessi
kynning verður gagnkvæm. Kynningin fer væntanlega fram næsta vor og verður þá félögum í
verslunarráðum um allt Þýskaland boðin þátttaka. Þar mun nýtast sú reynsla sem menn hafa
þá aflað með samskiptum við þýsk fyrirtæki í gegnum Íslensk-þýska verslunarráðið. Þá tel ég
ónefnd þau tækifæri sem opnast gætu íslenskum fyrirtækjum við gagnaöflun, t.a.m. hjá
heildarsamtökum þýskra verslunarráða og smærri samtökum sem hafa yfir að ráða öflugum
gagnabönkum um þýsk fyrirtæki og viðskipti þeirra, heima og erlendis.


Ekki hafa komið upp alvarleg vandkvæði í viðskiptum, eða öðrum samskiptum, við
Þýskaland svo árum skiptir. Það er ekki síst vegna þess að tvíhliða samskipti ríkjanna eru
sterk. Til að viðhalda og styrkja þau er meðal annars nauðsynlegt að áfram gefist tækifæri til
að ræða við Þjóðverja um ýmis mál er samskipti ríkjanna snertir á tvíhliða fundum, (og þar á
ég við í Brussel). Í maí síðast liðnum var í þessu skyni haldinn fundur svonefndrar
íslensk-þýskrar viðskiptanefndar. Hún hefur í nokkur ár hist með reglubundnum hætti, til
skiptis í Reykjavík og Bonn, og rætt mál er snúa að samskiptum ríkjanna. Ég vil taka
sérstaklega fram að íslensk stjórnvöld meta mikils það samstarf sem skapast hefur á vettvangi
íslensk-þýsku viðskiptanefndarinnar og leggja áherslu á áframhald þess.


Ágætu fundarmenn.

Sá vinarhugur sem íslendingar mæta hvarvetna í Þýskalandi er einstakur. Viðbrögð þýskra
fyrirtækja við erindi Verslunarráðs Íslands og sendiráðs Íslands í Bonn um stofnun ráðsins
voru á sínum tíma mjög jákvæð.


Margir hafa lagt hönd á plóginn við undirbúning stofnunar verslunarráðsins. ég vil nefna þar til
sögunnar Verslunarráð Íslands, sendiráð Þýskalands í Reykjavík og sérstaklega starf dr.
Schatzschneiders sendiherra, sem stutt hefur stofnun ráðsins af mikilli elju. Starfsfólk
sendiráðs Íslands í Bonn og viðskiptafulltrúi Íslands í Berlín komu hér einnig við sögu, auk
fjölda annarra. Ég vil einnig sérstaklega nefna ómetanlegan stuðning þýskra Íslandsvina á borð
við Max Adenauer, ræðismann Íslands í Köln, en hann mun verða heiðursforseti ráðsins.


Að lokum vil ég segja að ég bind miklar vonir við Íslensk-þýska verslunarráðið og óska
viðstöddum til hamingju með þennan merka áfanga í samskiptum íslenskra og þýskra
fyrirtækja.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira