Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Skýrsla um störf Norrænu ráðherranefndarinnar árið 1995

29. febrúar 1996

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda
Skýrsla um störf Norrænu ráðherranefndarinnar 1995

Sem samstarfsráðherra í ríkisstjórninni legg ég fram fyrir Alþingi skýrslu um störf Norrænu ráðherranefndarinnar árið 1995.

Það sem öðru fremur einkenndi norrænt samstarf á liðnu ári var framkvæmd þeirra breytinga á formi og innihaldi starfsins sem Norðurlandaráð og ráðherranefndin sameinuðust um í skýrslunni "Nýir tímar í norrænu samstarfi". Skýrslan liggur hér frammi í íslenskri þýðingu. Af Íslands hálfu sátum við Sighvatur Björgvinsson, þáverandi samstarfsráðherra í nefnd þeirri sem samdi hana.

Eitt höfuðmarkmið skýrslunnar var að beina samstarfinu að þremur meginstoðum, samvinnu innan Norðurlanda, samvinnu Norðurlanda um Evrópumál og samvinnu Norðurlanda við grannsvæði þeirra. Norðurlandaráð hefur í kjölfarið komið á nýrri og gjörbreyttri nefndaskipan sem endurspeglar þessa þrískiptingu. Sama gildir um verkefnaval og breyttar áherslur í störfum ráðherranefndarinnar.

Í samræmi við skýrsluna var og ráðist í endurmat á starfsemi þeirra tæplega 50 samnorrænu stofnana sem velflestar eru kostaðar af norrænu fjárlögunum með tilliti til svokallaðs norræns notagildis og niðurstöður þess lagðar fyrir þing Norðurlandaráðs í Kuopio. Nefndin sem framkvæmdi endurmatið komst að þeirri niðurstöðu að 21 stofnun hefði mikið norrænt notagildi, 19 lítið norrænt notagildi og 7 miðlungs.

Samstarfsráðherrarnir töldu þetta mat góðan grundvöll fyrir ákvarðanatöku og fólu framkvæmdastjóra Skrifstofu ráðherranefndarinnar, Pär Stenbäck að leggja fram tillögu um framkvæmdina. Tillaga hans byggði á endurmatinu sjálfu, umsögnum frá fagráðherranefndunum, stjórnum stofnananna og Norðurlandaráði.

Tillögur Pärs Stenbäck liggja nú fyrir og komu til umræðu á fundi samstarfsráðherranna 13. febrúar sl. Þeir töldu þær almennt séð skynsamlegar en fjölluðu ekki um þær í einstökum atriðum. Ég hef síðan kynnt þær í Íslandsdeild Norðurlandaráðs og ríkisstjórninni. Ráðgert er að samstarfsráðherrar taki afstöðu til tillagnanna á fundi 4. mars n.k. og að ákvörðun þeirra
verði síðan send Norðurlandaráði til umsagnar og endanleg afstaða verði tekin í apríl. Samkvæmt tillögum aðalritarans verða 13 stofnanir lagðar niður, þrjár nýjar stofnaðar sem taka við hluta verkefna þeirra stofnana sem lagðar verða niður og rekstri þriggja breytt
gagngert.


Ljóst er að þessi úttekt hefur verið afar gagnleg því margt hefur komið fram í rekstri stofnananna sem betur má fara og eins hafa áherslur samstarfsins breyst upp á síðkastið og því sjálfsagt að skapa fjárhagsrými til að auka starfið á forgangssviðunum. Ég vil þó taka fram
að á þessari stundu er ekki unnt að meta hver sparnaðurinn verður á norrænum fjárlögum ársins 1997, en hann gæti numið tæpum 3 millj. d.k. Hins vegar er ljóst að umtalsverður sparnaður verður síðar gangi þessar tillögur eftir.


Á árinu 1995 var ákveðið að flytja skrifstofu forsætisnefndar Norðurlandaráðs í sama húsnæði og Skrifstofa ráðherranefndar er í og fer flutningurinn fram síðari hluta árs 1996. Það er von okkar að það leiði til betri nýtingar starfskraftanna og aukins upplýsingaflæðis milli
Norðurlandaráðs og ráðherranefndarinnar.


Að frumkvæði forsætisráðherra Íslands var í október 1994 hafin athugun á því á hvern veg norrænu löndin gætu aukið samstarf og verkaskiptingu milli ýmissa stofnana og stjórnvalda á Norðurlöndum sem fást við svipuð verkefni. Ilkka Suominen fyrrv. forseta Norðurlandaráðs var falið verkið, sem unnið var með aðstoð ráðgjafahóps. Samkvæmt skýrslu þeirri sem Ilkka
Suominen skilaði í febrúar 1995 eru víða möguleikar á aukinni verkaskiptingu milli landanna sem ekki hafði unnist tími til að kanna frekar. Því var ákveðið að halda þessu verki áfram og Haukur Ingibergsson deildarstjóri hjá Hagsýslu ríkisins situr af hálfu Íslands í þeirri nefnd sem nú er að störfum. Bent hefur verið á ýmsa athyglisverða möguleika til aukins samstarfs og verkaskiptingar, m.a. á sviði vöruöryggis, matvælaeftirlits, umhverfisvöktunar og um notkun Norræna umhverfismerkisins.


Þessar tillögur eru til athugunar hjá nefndinni. Af hálfu Íslands hefur og v erið bent á kosti aukins norræns samstarfs á sviði lyfjaeftirlits, kvikmyndaeftirlits og um krabbameinsrannsóknir, án þess að samstaða hafi náðst um að fylgja þeim tillögum eftir. Þetta
starf hefur ekki gengið eins vel og skyldi, því innan embættiskerfisins í löndunum virðist vera tilhneiging til að standa á skammsýnan hátt vörð um starfsemina og vinna þannig gegn aukinni verakaskiptingu.


Mikilvægi norræns samstarfs fyrir Íslendinga verður ekki dregið í efa og gildir það bæði um samstarf landanna um innri mál, en ekki síður um evrópsk samstarfsmál. Evrópamál eru nú fastur liður á fundum ráðherranefndanna og fundum forsætis- og utanríkisráðherra.

Komið hefur verið á föstu samráði sendifulltrúa Norðurlanda í Brussel í því skyni að finna hvaða pólitísk stefnumál Evrópusambandsins eru þess eðlis að þau beri að ræða á norrænum vettvangi. Þetta samráð komst fyrst á síðari hluta ársins 1995 og full reynsla er því ekki komin á það enn. Án þess að ég vilji kasta rýrð á þetta samstarf sem án nokkurs vafa er gagnlegt er ég ekki sannfærður um að það geti komið í stað norrænnar upplýsingarskrifstofu í Brussel. En eins og menn kannski muna var stofnun slíkrar skrifstofu meðal þeirra mála sem ég lagði áherslu á, á meðan ég sat sem þingmaður í Norðurlandaráði.

Norðurlandaráð hefur boðað til ráðstefnu um Evrópumál 4.-5. mars n.k. og er það liður í því að færa Evrópumál inn á hinn norræna vettvang. Ráðstefnan verður áreiðanlega gagnlegur vettvangur pólitískra umræðna og undirbúnings fyrir ríkjaráðstefnu ESB.

Norrænt samstarf á alþjóðavettvangi er okkur afar mikilvægt, ekki síst vegna þess hve fáliðuð utanríkisþjónustan okkar er. Utanríkisráðherrar Norðurlanda samþykktu á árinu 1995, að ósk norrænu forsætisráðherranna, skýrslu um norrænt samstarf í alþjóðastofnununum. Þar er lagður grunnur að áframhaldandi samvinnu Norðurlanda á alþjóðavettvangi þrátt fyrir aðild
þriggja þeirra að ESB. En sameiginlegur málflutningur landanna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur samt dregist saman. Þetta er áhyggjuefni en sá pólitíski vilji sem bæði forsætis- og utanríkisráðherrar landanna hafa sýnt til að viðhalda samstarfinu innan Sameinuðu
þjóðanna bendir til að unnt verði að koma þessum málum á ný í góðan farveg.


Ákveðið hefur verið að auka vægi þess norræna samstarfs sem varðar Norðurskautssvæðið. Samstarfsáætlun um málefni Norðurskautssvæðisins var lögð fyrir Norðurlandaráðsþing á liðnu hausti og samþykkt á síðasta fundi samstarfsráðherranna. Það skiptir miklu fyrir okkur Íslendinga og aðrar þjóðir sem byggja norðlæg svæði að hagsmunamál þessara svæða
gleymist ekki í norrænu samstarfi. Ég legg á það áherslu að Norðurlönd verði stefnumótandi í Norðurskautsráðinu sem til stendur að stofna á þessu ári og að samstarfsáætlunin nýtist í því skyni. Þetta samstarf er ekki síður mikilvægt fyrir okkur en norræna grannsvæðasamstarfið við Eystrasaltsríkin og Norðvestur-Rússland, þó annars konar hagsmunir liggi þar að baki.


Fjárveitingar til grannsvæðasamstarfsins á norrænu fjárlögunum jukust úr 14 milj. DKK árið 1994 í 51 millj DKK árið 1995. Upplýsingaskrifstofa var oppnuð í St. Pétursborg á árinu og er það fjórða norræna upplýsingaskrifstofan en fyrir voru skrifstofur í Tallin, Riga og Vilnius. Sérstök áhersla er lögð á veitingu náms- og starfsstyrkja til að stuðla að þróun lýðræðis og
aukinni sérfræðiþekkingu á sem flestum sviðum. Norræna vegabréfasambandið hefur verið í gildi síðan 1995. Það tryggir mönnum fría för
innan Norðurlanda án vegabréfaskyldu. Eins og menn vita standa nú yfir viðræður um aðild Danmerkur, Finnlands og Svíþjóðar að Schengen og samtímis eru í gangi viðræður um tengsl Íslands og Noregs við Schengen-samkomulagið sem meðal annars eiga að leiða til þess að norræna vegabréfasvæðið haldist.


Mín skoðun er sú, að norræna vegabréfasvæðið hafi svo víðtækt, táknrænt og praktískt gildi að því verði ekki hafnað nema fyrir því liggi þung rök. Þrátt fyrir það að ákveðinn kostnaður fylgi því að gera flugstöð Leifs Eiríkssonar þannig úr garði að skilyrði
Schengen-samkomulagsins verði uppfyllt þá má ekki gleyma því að jafnframt yrði væntanlega um stækkun flugstöðvarinnar að ræða, stækkun sem við þyrftum að ráðast í hvort eð er á næstu árum og sem er til þess fallin að auka samkeppnishæfni flugstöðvarinnar.


Um síðustu áramót gekk í gildi breyting á Helsingforssamningnum sem felur það í sér að Norðurlönd skuldbinda sig til að láta Norðurlandabúa njóta sama réttar og heimamenn við setningu laga og annarra reglna á öllum þeim sviðum sem samningurinn nær til.

Þrátt fyrir þær undantekningar frá þessari skildu sem samkvæmt samningnum eru heimilaðar er hér stigið mikilvægt skref í þá átt að jafna rétt norrænna borgara. Það er nú verið kynna samninginn í þingunum og í stjórnsýslu landanna og leita leiða til að veita fólki sem telur að
brotið sé á sér aðstoð og leiðbeiningu á norrænum vettvangi.


Áður en ég lýk máli mínu ætla ég að víkja nokkrum orðum að norrænu fjárlögunum. Þau voru 718.925 millj. d.kr. fyrir árið 1995, sem var 8% hækkun frá árinu áður. Hvað varðar norrænu fjárlögin fyrir árið 1996, varð reyndin hins vegar sú að þau lækkuðu um ca. 4%
vegna eindreginnar kröfu frá Svíum um aukinn sparnað og hagræðingu í norrænu samstarfi. Ég tel þó að tekist hafi að ná viðunandi niðurstöðu á flestum sviðum.


Fyrir næsta fundi samstarfsráðherranna liggur að taka ákvörðun um heildarupphæð norrænu fjárlaganna fyrir árið 1997. Kostnaðarskiptingin milli landanna er reiknuð sem hlutfall af þjóðarframleiðslu og því veldur versnandi fjárhagur Svía miðað við hin löndin því að þeirra framlag þeirra lækkar umtalsvert á næsta ári. Þrátt fyrir það telja þeir sér ekki fært annað en
að draga enn frekar úr framlögunum til norrræns samstarfs og vísa til þess að samdráttur ríki á öllum sviðum og norrænt samstarf verði þar ekki undan skilið. Stefna hinna landanna er hins vegar að veita sama fjármagni til samstarfsins og árið áður. Að líkindum verður farið bil
beggja í þessu máli, enda verður ekkert landanna neytt till hærri framlaga en það vill reiða fram. Þannig eru skilyrði þessa samstarfs, við göngum til þess sem sjálfstæð ríki og þannig viljum við hafa það.


Með þessum orðum lýk ég máli mínu og vísa að öðru leyti til skýrslunnar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira