Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Ávarp ráðherra á 48. þingi Norðurlandaráðs

12. nóvember 1996


Ávarp Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra
á þingi Norðurlandaráðs,
Kaupmannahöfn

Herra forseti.
Yfirveguð og markviss ákvarðanataka, í kjölfar ítarlegrar umræðu á sameiginlegum vettvangi ráðherra, þingmanna og embættismanna í Norðurlandaráði hefur einkennt innbyrðis samstarf Norðurlanda á undanförnum áratugum. Í þeim anda hefur samstarf Norðurlanda á raunsæjan hátt lagað sig að nýjum og breyttum aðstæðum í kjölfar efnahagslegra og stjórnmálalegra umskipta er orðið hafa í okkar heimshluta á örfáum árum. Skýrasta dæmið er auðvitað vægi utanríkismálaumræðu á okkar sameiginlega vettvangi. Norðurlandasamstarfið hefur nú verið gætt nýju lífi er endurspeglast í grósku þess og bjartsýni til að takast á við krefjandi úrlausnarefni morgundagsins.

Á undanförnum mánuðum hefur styrkur Norðurlandasamstarfsins komið greinilegar í ljós. Auknar alþjóðlegar skuldbindingar Norðurlanda og vaxandi alþjóðlegt samstarf hafa skýrt sérstöðu Norðurlanda á alþjóðavettvangi og fært þau nær hvort öðru. Kjarni norræns samstarfs fest í raun í margvíslegum persónulegum samskiptum einstaklinga úr ýmsum þáttum norrænna þjóðfélaga og það hefur sýnt sig að breytingar á ytri skuldbindingum einstakra Norðurlanda hafa takmörkuð áhrif á slík rótgróin samskipti.

En Norðurlandasamstarfið felst ekki aðeins í aðlögun að breyttum aðstæðum vegna aðildar Svíþjóðar og Finnlands að Evrópusambandinu. Samskiptin við grannríki okkar í Rússlandi og á Eystrasaltssvæðinu eru af eðlilegum ástæðum nú mjög í öndvegi. Kjarni þess samstarfs endurspeglast í auknu vægi svæðisbundins samstarfs á vettvangi Eystrasaltsráðsins, Barentsráðsins og nú nýverið Norðurheimskautsráðsins. Hefðbundið samstarf Norðurlanda endurspeglar einnig þá staðreynd að nýtt öryggiskerfi Evrópu er í mótun og fyrirséð er ákvarðanataka ríkjaráðstefnunnar um framtíðartilhögun Evrópusambandsins. Reglulegir samráðsfundir ráðherra Norðurlanda með starfsbræðrum frá Eistlandi, Lettlandi og Lithaugalandi eru árangursríkir og hafa treyst enn tengsl við vinaþjóðir okkar sunnan Eystrasalts.

Gerbreyttar forsendur öryggis- og varnarmála í Evrópu og yfirstandandi mótun nýs öryggiskerfis hafa endurspeglast á undanförnum mánuðum í auknu og nánara samstarfi Norðurlanda á þessu sviði. Með aðild Svíþjóðar og Finnlands að Evrópusambandinu eiga öll Norðurlöndin nú aukin samskipti á vettvangi Vestur-Evrópusambandsins, sem aðildarríki, aukaaðildarríki eða áheyrnaraðild. Svíþjóð og Finnland taka einnig aukinn þátt í friðarsamstarfi Atlantshafsbandalagsins. Þessi þróun hefur nú skapað forsendur fyrir því að taka öryggis-og varnarmál til umræðu á vettvangi Norðurlandaráðs. Norðurlönd hafa veigamiklu hlutverki að gegna við mótun nýs öryggiskerfis í Evrópu og farsælasti vettvangur Norðurlanda fyrir innbyrðis stefnumótun og skoðanaskipti um öryggis- og varnarmál er í Norðurlandaráði.

Óvissa um efnahags- og stjórnmálaþróun í Rússlandi er vissulega nokkuð áhyggjuefni. Norðurlönd eiga mikilla hagsmuna að gæta í samskiptum við Rússland. Þar er ekki aðeins um að ræða efnahagslega- og öryggishagsmuni, heldur ekki síður á vettvangi umhverfismála og vegna ástands kjarnorkuvera. Nú er sögulegt tækifæri til að treysta nánar svæðisbundið samstarf við Rússland. Verulegur árangur hefur þegar náðst á skömmum tíma í svæðisbundnu samstarfi á vettvangi Eystrasaltsráðsins og Barentsráðsins og er starfið í þessum samtökum nú að verða fastmótaðra. Aðeins er liðið eitt og hálft ár frá því Ísland gerðist aðili að Eystrasaltsráðinu og hefur aðildin vakið athygli Íslendinga á margvíslegum samstarfsmöguleikum á svæðinu. Ég legg áherslu á öfluga þátttöku Íslands í Eystrasaltsráðinu í framtíðinni.

Mikilvægur þáttur í því að viðhalda stöðugleika og styrkja lýðræðisþróun í Evrópu felst í því að tryggja virðingu fyrir almennum mannréttindum og grundvallarþáttum réttarríkisins. Á því sviði hefur Evrópuráðið mikilvægu hlutverki að gegna. Í formennskutíð Danmerkur fékk Rússland fyrr á þessu ári formlega aðild að Evrópuráðinu og var þar stigið stórt skref í þá átt að efla lýðræðisþróun í stærsta og fjölmennasta ríki Evrópu.

Ég vil nota tækifærið og þakka Dönum fyrir skelegga og farsæla formennsku í Evrópuráðinu undanfarið ár.

Mikilvægt skref var stigið þann 19. september síðastliðinn þegar Norðurlöndin, ásamt Bandaríkjunum, Kanada og Rússlandi undirrituðu sáttmála um stofnun Norðurheimskautsráðsins. Meginviðfangsefni ráðsins eru á sviði umhverfisverndar og sjálfbærrar þróunar, en ljóst er að samstarf ríkjanna mun jafnframt stuðla að því að auka stöðugleika á svæðinu. Mikið er í húfi að vel takist til og Norðurheimskautsráðið verði heildarrammi samstarfs þjóða á norðurslóðum. Í því sambandi er mikilvægt að tengja samstarf norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurheimskautsráðsins traustum böndum í framtíðinni. Með tíð og tíma er æskilegt að ráðið hljóti varanlegt aðsetur í einhverju aðildarríkjanna og hafa íslensk stjórnvöld lýst sig reiðubúin til að hýsa skrifstofur þess.

Í formennskutíð sinni hjá EFTA leggja Íslendingar nú mikla áherslu á að efla frekar stjórnmálalegt og faglegt samráð aðildarríkja evrópska efnahagssvæðisins og ríkja Evrópusambandsins. Af málefnum Evrópusambandsins ber nú hæst ríkjaráðstefnuna, þar sem veigamiklar ákvarðanir verða teknar um framtíðarskipulag sambandsins. Niðurstöður ríkjaráðstefnunnar munu hafa bein áhrif á samstarfsríki í evrópska efnahagssvæðinu. Samráðsfundir um ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins eru haldnir með EFTA-ríkjunum með reglulegu millibili. Þar hafa fengist greinargóðar upplýsingar og jafnframt hefur EFTA-ríkjunum gefist tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum að. Ísland og Noregur hafa einnig í auknum mæli gerst aðilar að málflutningi og yfirlýsingum Evrópusambandsins á alþjóðavettvangi. Ennfremur er áleitin spurning hvort ekki ætti að efla sérstaklega skoðanaskipti um málefni Evrópusambandsins og auka innbyrðis samráð Norðurlanda um þau málefni hér á vettvangi Norðurlandaráðs.

Norðurlöndin urðu áheyrnaraðilar að Schengensamkomulaginu frá og með 1. maí síðastliðnum, og staðfestu þar í raun útvíkkun á norræna vegabréfasamkomulaginu. Evrópusambandsríkin, Danmörk, Svíþjóð og Finnland verða fullgild aðildarríki samkomulagsins og yfirstandandi eru samningaviðræður Íslands og Noregs um hvernig samstarfinu við Schengenríkin verður háttað. Þær samningaviðræður eru í góðum farvegi.

Varnarsamstarf vestrænna þjóða á grundvelli Atlantshafsbandalagsins og þátttaka Bandaríkjanna í vörnum Evrópu hefur tryggt stöðugleika í álfunni frá lokum síðari heimsstyrjaldar. Atlantshafsbandalagið mun, sem fyrr, gegna lykilhlutverki í evrópskum öryggismálum. Ákvörðun um markvissa fjölgun aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins verður líklega tekin á leiðtogafundi bandalagsins á næsta ári. Mikilvægt er að fjölgun aðildarríkja verði ekki til þess að draga nýjar markalínur í Evrópu og einnig má fjölgun aðildarríkja ekki bitna á varnargetu bandalagsins né upprunalegu hlutverki þess. Samstarf bandalagsins við ríki utan þess á vettvangi Norður-Atlantshafssamvinnuráðsins og friðarsamstarfsins verður áfram mikilvægt fyrir aðlögun nýrra aðildarríkja og til að efla sem kostur er tengsl bandalagsins við Rússland og Úkraínu. Innan Atlantshafsbandalagsins ríkir einhugur um að brýnt sé að koma til móts við Rússland með ákveðnum hætti, til dæmis með gerð sérstaks sáttmála milli bandalagsins og Rússlands, er myndi efla tengsl og skapa aukna festu í samskiptum þessara aðila. Jafnframt þarf að árétta rétt allra ríkja, þar með talið Eystrasaltsríkjanna þriggja, til að velja sér eigin leiðir í öryggis-og varnarmálum.

Á næsta ári verður haldin söguleg æfing í friðarsamstarfi Atlantshafsbandalagsins á Íslandi. Æfingin verður fyrsta sinnar tegundar þar sem höfuðáhersla er lögð á almannavarnir og æfð viðbrögð við voveiflegum náttúruhamförum á Íslandi. Íslendingar leggja mikla áherslu á undirbúning og framkvæmd þessarar æfingar og sem víðtækasta þátttöku aðildarríkja friðarsamstarfsins. Reynsla undanfarinna vikna í kjölfar eldgoss í Vatnajökli sýnir að náttúruöflin eru sem fyrr til alls líkleg á Íslandi og endurspeglar það enn frekar mikilvægi æfingar af þessu tagi. Nú hafa fimmtán þátttökuríki friðarsamstarfsins staðfest þátttöku í almannavarnaræfingunni.

Lyktir kalda stríðsins og jákvæð þróun öryggismála í okkar heimshluta hafa leitt til þess að þjóðir heims ættu nú betur að geta sameinast um að binda enda á svæðisbundin átök, aðstoða við enduruppbyggingu á stríðshrjáðum svæðum og eyða tortryggni. Í Evrópu hafa aðgerðir í Bosníu-Hersegóvínu undanfarna mánuði staðfest að þetta er hægt. Enn ríkir þó ekki samkomulag um nýtt öryggiskerfi í Evrópu, en umræða um slíkt fer einkum fram á vettvangi Öryggis-og samvinnustofnunar Evrópu. Starfsemi ÖSE hefur mjög eflst á undanförnum tveimur árum og gegnir stofnunin mikilvægu hlutverki við að fást við margþættar afleiðingar kalda stríðsins. Á leiðtogafundi ÖSE í næsta mánuði taka Danir við mikilvægu og krefjandi formennskuhlutverki.

Ég vil að lokum vekja athygli á því að glæsilegt kjör Svíþjóðar til Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir skömmu skapar nýja möguleika fyrir Norðurlönd til að hafa aukin og markvissari áhrif á það endurbótastarf er nú fer fram innan stofnunarinnar. Um leið felur kjörið í sér áskorun til Norðurlanda um að efla enn frekar náið samstarf ríkjanna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og undirstofnana hennar. Norðurlönd fagna um þessar mundir fimmtíu ára afmæli Sameinuðu þjóðanna og árétta af því tilefni áherslur sínar um að efla samtökin með ráðum og dáð í framtíðinni. Aðild Íslands að Sameinuðu þjóðunum í október 1946 markaði sérstök tímamót í sögu íslensku þjóðarinnar því að með aðildinni var sjálfstæði Íslands og fullveldi endanlega staðfest í verki.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira