Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Markmið og efndir - grein birt í dagblaðinu Degi

25. nóvember 1997

Grein utanríkisráðherra Halldórs Ásgrímssonar
MARKMIÐ OG EFNDIR
Birt í dagblaðinu Degi

Aðalfundur miðstjórnar Framsóknarflokksins var haldinn í Kópavogi um síðustu helgi.
Á fundinum var þátttaka flokksins í ríkisstjórn rædd og árangur af starfi stjórnarinnar
veginn og metinn.

Þátttaka Framsóknarflokksins í ríkisstjórn byggist á stjórnarsáttmála, sem inniheldur
flest af áherslumálum Framsóknarflokksins úr síðustu kosningum. Nú er farið að síga á
seinni hluta kjörtímabilsins og því viðeigandi að meta það starf sem unnið hefur verið
og horfa um leið til framtíðar.

Kosningamarkmið Framsóknarflokksins

Skýr og afdráttarlaus markmið voru einkenni á málflutningi framsóknarmanna í síðustu
kosningum. Sumum andstæðingum flokksins þótti djarft að ganga svo hreint til verks
og hétu því að rifja upp fyrir flokknum baráttumálin ef dráttur yrði á efndunum. Lítið
hefur heyrst frá andstæðingunum og þær gagnrýnisraddir sem heyrðust frá
stjórnarandstöðunni vegna kosningamarkmiða framsóknarmanna fyrir kosningar eru
orðnar að hvísli. Framsóknarmenn þurfa enga aðstoð við að rifja upp þá sýn sem þeir
lögðu fram fyrir síðustu kosningar. Framsóknarflokkurinn vildi:

Stefna að því að draga úr atvinnuleysi og fjölga störfum til muna - 12.000 ný
störf fyrir aldamót.
Berjast fyrir endurreisn heimilanna m.a. með breytingum á húsnæðislánakerfinu.
Stuðla að jöfnun lífskjara, til að mynda með skattalækkunum.
Efla menntun og skólastarf, þar sem jöfn tækifæri til menntunar væru
grundvallaratriði.
Auka hagvöxt og jafnvægi í ríkisfjármálum.

Þessi markvissi málflutningur ávann sér góðan hljómgrunn og traust kjósenda. Eftir
kosningar, þegar staðið var upp frá gerð stjórnarsáttmálans hafði flokknum tekist að
koma öllum megináherslum sínum inn í þann samning.

Samkvæmt stjórnarsáttmálanum er nú unnið að öllum helstu áherslumálum
framsóknarmanna og því er ljóst að áhrif Framsóknarflokksins eru mikil í
stjórnarsamstarfinu. Það hefur gengið án teljandi árekstra við samstarfs-flokkinn - sem
að sínu leyti undirstrikar að ólíkir stjórnmálaflokkar geta starfað ágætlega saman
meðan í heiðri eru hafðar ákveðnar leikreglur, sanngirni, málamiðlanir og heilindi.

Framfaraskeið í efnahagsmálum

Það er ekki lengur um það deilt að hér á landi er mikið framfaraskeið í efnahags- og
atvinnulífi. Bölsýnustu andstæðingar stjórnarinnar sem héldu því fram að hún myndi
færa kyrrstöðu og doða yfir íslenskt þjóðfélag eru nú uppteknir við að leita að lífsmarki
í eigin ranni. Til að krókna ekki á víðavangi hjúfra þeir sig nú hver að öðrum.

Í stjórnarsáttmálanum lagði ríkisstjórnin áherslu á að skapa þyrfti skilyrði fyrir bættri
afkomu heimilanna í landinu og treysta undirstöðu velferðar. Til að ná árangri setti hún
sér skýr og afdráttarlaus markmið í ríkisfjármálum og efnahagsmálum, markmið sem nú
eru smám saman að nást.

Efnahagur Íslendinga fer batnandi, kaupmáttur eykst, atvinnuleysi minnkar, störfum
fjölgar, stöðugleiki ríkir og tekist hefur að koma böndum á halla ríkissjóðs.

Í þessu sambandi er rétt að líta yfir helstu þjóðhagsstærðir. Eftir að hafa búið við lítinn
hagvöxt nokkur undanfarin ár og jafnvel neikvæðan, hefur nú orðið mikil breyting.
Hagvöxtur var 5,2% í fyrra og stefnir í að verða 4,6% í ár. Til samanburðar má nefna
að í iðnríkjunum var hann að meðaltali 2,7% í fyrra og gert er ráð fyrir að hann verði
um 3% í ár. Þessa hagstæðu breytingu má einkum þakka aukinni erlendri fjárfestingu á
sviði stóriðju og festu í stjórn efnahagsmála, sem eykur tiltrú manna á íslensku
efnahagslífi. Þessi festa er afar mikilvæg því hin hraða og jákvæða þróun íslensks
efnahagslífs getur stefnt stöðugleikanum í hættu og valdið aukinni verðbólgu.

Kaupmáttur eykst

Ástand á vinnumarkaði er gjörbreytt. Umsvif hafa stóraukist. Atvinnulausum hefur
fækkað að sama skapi og reikna má með að störfum hafi fjölgað um 7.000 það sem af
er kjörtímabilinu. Nýjustu spár gera ráð fyrir að störfum fjölgi um rúmlega 13.000 til
aldamóta.

Störfum hefur ekki aðeins fjölgað heldur hafa ráðstöfunartekjur einnig hækkað og
kaupmáttur aukist að sama skapi. Aukin framleiðni fyrirtækja og lækkun skatta
einstaklinga hefur leitt til umtalsverðrar kaupmáttaraukningar, sem var u.þ.b. 3,5% í
fyrra. Í ár er gert ráð fyrir að hún verði um 4,5% og 5% á næsta ári. Þessi
kaupmáttaraukning er mun meiri en þekkist í nágrannaríkjum okkar. Raunar er gert
ráð fyrir því að kaupmáttaraukning á Íslandi frá 1995 til aldamóta verði allt að 25%.
Allir sem vilja, hljóta að sjá í hendi sér hvílík umskipti það hljóta að vera fyrir íslensk
heimili.

Áframhaldandi stöðugleiki

Á seinni hluta kjörtímabilsins mun ríkisstjórnin áfram keppa að því marki sem hún setti
sér í upphafi. Tvenn verkefni verður þó sífellt að hafa í huga. Annars vegar verður að
tryggja stöðu efnahagslífsins með því að vera á varðbergi gegn þenslu, því að verði
verðbólgunni sleppt lausri mun það ógna afkomuöryggi fjölskyldna í landinu. Hins
vegar verður að bregðast við auknum viðskiptahalla við útlönd. Hallalaus ríkisrekstur
er að sjálfsögðu liður í þeirri baráttu en fleira þarf að koma til, svo sem aukinn
sparnaður almennings. Hugmyndir um skattaafslátt vegna lífeyrissparnaðar eru nú
orðnar að veruleika í tengslum við tímamótafrumvarp ríkisstjórnarinnar um lífeyrisjóði.

Með því að treysta og tryggja þann fjárhagslega grundvöll, sem þjóðfélagskerfi okkar
hvílir á, vilja framsóknarmenn leggja áherslu á að Ísland verði áfram velferðarríki sem
tryggir þegnum sínum góða menntun og heilsugæslu og umfram allt öryggi í andstreymi.
Ef ekki hefði verið tekið í taumana hefði velferðarkerfið orðið gjaldþrota og enginn
ræktar rósagarð þar sem jarðvegurinn er fokinn burt.

Bætt afkoma nú gefur tækifæri til að auka enn frekar framlög til mennta- og
heilbrigðismála eins og ráð er fyrir gert í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Það þýðir
hins vegar ekki að slakað verði á kröfum um hagkvæmni í rekstri eða nauðsynlegt
aðhald. Á þeim trausta grunni sem nú er verið að leggja, er unnt að tryggja að
Íslendingar búi um langa framtíð við betra velferðar- og samhjálparkerfi, en þekkist hjá
flestum öðrum þjóðum.

Næstu skref

Framsóknarmenn hafa nú þegar hafið vinnu við stefnumótun um framfarir í íslensku
samfélagi á leið í nýja öld. Við ætlum okkur að hafa þá stefnumótun djarfa og ákveðna
þannig að landsmenn þurfi ekki nú, frekar en áður, að velkjast í vafa um skoðun okkar
eða stefnumál í mikilvægum málaflokkum. Árangur okkar í ríkisstjórnarsamstarfinu og
stefnumótun næsta flokksþings, sem haldið verður að ári liðnu, munum við leggja í dóm
þjóðarinnar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira