Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

EMU og efnahagslíf á Íslandi - grein birt í dagblaðinu Degi

9. desember 1997

Grein utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar
EMU og efnahagslíf á Íslandi
Birt í dagblaðinu Degi

EMU verður hagfellt fyrir Ísland ef það treystir stöðu efnahagsmála í ríkjum ESB. Það felur hins vegar í sér auknar kröfur til hagstjórnar hér á landi og svo kann að fara, þegar fram í sækir, að það verði skynsamlegt að tengjast gjaldmiðlasamstarfinu með einhverjum hætti. Þangað til er brýnt að búa í haginn heima fyrir með það fyrir augum að breytingarnar sem munu fylgja evróinu á alþjóðavettvangi nýtist innlendu efnahags- og atvinnulífi sem best.
Nú styttist óðum í að Efnahags- og myntbandalag Evrópu (EMU) verði að veruleika. Fyrir mitt næsta ár verður tekin ákvörðun um þátttökuríkin í EMU og í ársbyrjun 1999 verður sameiginlegum gjaldmiðli, evróinu, hleypt af stokkunum. Gjaldmiðlar þátttökuríkjanna verða þó áfram í gildi, en í efnahagslegu tilliti verða þeir þó einn og sami gjaldmiðillinn. Ekki seinna en í byrjun árs 2002 hefst útgáfa á evróinu - seðlum og mynt - og í kjölfarið hverfa gjaldmiðlar þátttökuríkjanna úr umferð.
Enginn vafi er á því að stofnun EMU er einn mikilvægasti atburður á sviði alþjóðafjármála- og gengismála á seinni hluta þessarar aldar. Efnahagsleg áhrif gjaldmiðlasamrunans verða mikil, bæði innan ESB og utan þess – og þeim mun meiri sem tengslin við þátttökuríkin eru meiri. Fyrir vikið er augljóst að áhrifin hér á landi verða veruleg.

Forsaga EMU
Að baki stofnun EMU liggja bæði efnahagslegar og pólitískar ástæður. Eftir því sem samskipti aðildarríkja ESB á sjöunda áratugnum urðu meiri og markaðsbandalaginu óx fiskur um hrygg urðu ríkin háðari hvert öðru og næmari fyrir efnahagsstefnu hvers annars. Af þessum sökum juku ríkin samstarf sín á milli á sviði efnahagsmála. Þetta samstarf jókst jafnt og þétt og í Maastricht-sáttmálanum frá 1991 var síðan lagður grunnur að EMU. Sameiginleg peningastefna, einn sjálfstæður seðlabanki, sameiginleg mynt og dýpra samstarf á sviði efnahagsmála er talið geta örvað hagvöxt í Evrópu og stuðlað að betri lífskjörum. Að auki er gjaldmiðlasamstarfið þáttur í því að efla pólitískan samruna í Evrópu og mótafl við ráðandi stöðu dollarans í heimsbúskapnum.

EMU-skilyrðin
Sett eru ströng efnahagsleg skilyrði fyrir þátttöku einstakra ríkja í EMU. Þessi skilyrði eru að halli á rekstri ríkis og sveitarfélaga skuli vera minni en 3% af landsframleiðslu og skuldir hins opinbera séu innan við 60% af landsframleiðslu. Enn fremur að langtímavextir séu ekki hærri en tveimur prósentustigum yfir vöxtum þeirra þriggja ríkja þar sem verðbólga er lægst, verðbólga sé ekki hærri en einu og hálfu prósentustigi yfir verðbólgu þeirra þriggja ríkja þar sem verðbólga er lægst og að landið hafi tekið þátt í gengissamstarfi ESB-ríkja (ERM) undanfarin tvö ár. Rétt er þó að taka það fram að nokkur sveigja felst í skilyrðunum um opinber fjármál.

Hvaða ríki verða þátttakendur frá upphafi?
Fyrir mitt næsta ár verður greint frá því hvaða gjaldmiðlar verða með frá upphafi og um leið verður viðmiðunargengi þeirra gagnvart evró tilkynnt. Undanfarin misseri hafa verið ýmsar blikur á lofti um hvort EMU verði að veruleika eins og að hefur verið stefnt í byrjun árs 1999, enda hafa mörg ríki átt í stökustu vandræðum með umrædd skilyrði, m.a. Þjóðverjar og Frakkar. Að auki hafa þjóðirnar deilt um áhrif stjórnmálamanna á stefnumótun í efnahagsmálum innan EMU. Nú hafa þær í aðalatriðum náð samkomulagi og mun Seðlabanki Evrópu móta einn stefnuna í peningamálum en fjármálaráðherrar EMU-ríkja hafa með sér samráð um aðra þætti efnahagsstefnunnar. Þótt enn sé deilt um nokkur atriði, einkum milli þeirra sem verða þátttakendur frá upphafi og þeirra sem verða það ekki, er fátt sem bendir til að á slíkum atriðum muni stranda.
Samkvæmt nýlegri könnun meðal evrópskra sérfræðinga í peningamálum telja þeir 90% líkur á að EMU taki gildi á tilsettum tíma, 1. janúar 1999. Þeir telja einnig að fleiri ríki en áður eigi möguleika á því að verða stofnríki EMU. Flestir spá því að Frakkland, Þýskaland, Benelux-löndin, Írland, Austurríki, Spánn, Ítalía, Portúgal og Finnland verði með frá upphafi. Svíþjóð mun að öllum líkindum ekki uppfylla þátttökuskilyrði EMU strax í upphafi, en talið er líklegt að af þátttöku Svíþjóðar geti orðið fljótlega eftir gildistöku EMU. Grikkland er hins vegar talið eiga lengra í land.

Staða Bretlands og Danmerkur
Bretland og Danmörk eru einu ríkin innan ESB sem hafa samningsbundinn rétt til þess að standa utan EMU. Hin ríki sambandsins eru bundin af samningum um þátttöku að uppfylltum skilyrðum og geta því ekki ákveðið upp á sitt einsdæmi hvort þau verði með eða ekki.
Í Bretlandi hefur umræða um kosti og galla þátttöku í EMU farið vaxandi eftir að líkur tóku að aukast á því að EMU tæki gildi á réttum tíma. Gordon Brown, fjármálaráðherra Bretlands, hefur gefið þá yfirlýsingu að ríkisstjórn Tony Blairs stefni að aðild að EMU eftir kosningar í Bretlandi, sem líklega fara fram árið 2002, að því tilskildu að myntbandalagið reynist vel. Yfirlýsingu Browns hefur verið vel tekið af fulltrúum atvinnulífsins í Bretlandi enda telja þeir að kjósi Bretland að standa utan EMU þurfi breskt atvinnulíf að greiða hærri vexti en innan EMU. Jafnframt er talið að erlendar fjárfestingar verði minni og að Bretland missi pólitísk áhrif við stefnumótun í efnahagsmálum innan ESB.
Gordon Brown hefur lagt ríka áherslu á vandaða faglega og pólitíska umræðu um EMU, m.a. með því að gefa út niðurstöður "fimm punkta prófs" á efnahagslegum áhrifum þess fyrir Bretland. Þótt niðurstöðurnar hafi ekki verið afgerandi kemur áhugi hans á þátttöku greinilega fram þegar rétt skilyrði hafa verið sköpuð.
Merki um jákvæða afstöðu bresku ríkisstjórnarinnar til EMU hafa valdið því að bresk fyrirtæki hafa hraðað undirbúningi sínum fyrir myntbandalag. Líta sumir á það sem raunverulegan möguleika að Bretland taki upp evróið ekki löngu eftir 1999, þrátt fyrir framangreindar yfirlýsingar Browns fjármálaráðherra um að af aðild Bretlands að EMU verði ekki fyrr en eftir næstu kosningar í Bretlandi.
Að öllu samanlögðu verður að telja líklegt að öll ríki ESB verði með í stofnun EMU frá byrjun fyrir utan Bretland, Danmörku, Grikkland og Svíþjóð. Jafnframt er sennilegt að þessi ríki muni fljótlega eftir aldamótin gerast aðilar að EMU - hugsanlega á mismunandi tíma - og fyrir vikið verði öll aðildarríki ESB með sameiginlegan gjaldmiðil á fyrstu árum næstu aldar.

Áhrif EMU á íslenskt efnahagslíf
Það liggur í hlutarins eðli að áhrif EMU á íslenskt efnahagslíf verða bæði veruleg og fjölþætt. Þetta stafar meðal annars af því hversu þungt utanríkisviðskipti Íslands við ESB ríkin vega. Um tveir þriðju hlutar þeirra eru við ríki á framtíðarsvæði EMU, þar af tæplega 30% við þau ríki sem líklega taka þátt frá byrjun. Áhrifin má líklega greina í þrjá meginþætti.

1. Ef EMU treystir stöðu efnahagsmála í ríkjum ESB, eykur framleiðni og hagsæld, hefur það jákvæð áhrif á íslenskan þjóðarbúskap þar sem eftirspurn eykst á mikilvægasta útflutningsmarkaði landsmanna. Við þetta bætist að ætla má að slík þróun innan ESB stuðli að aukinni framleiðni innlends atvinnulífs vegna náinna tengsla við umrædda markaði og EES-samningsins. Þar vegur þó á móti að eðli máls samkvæmt mun samkeppnisstaða fyrirtækja innan EMU batna meira en samkeppnisstaða utan þess.

2. Viðskiptakostnaður í íslenskum utanríkis- og gjaldeyrisviðskiptum minnkar. Auðveldari verðsamanburður og minni gengisáhætta fela í sér hagstæð áhrif á atvinnu- og viðskiptalíf landsmanna.

3. EMU felur í sér áþekka verðbólgu og vexti í öllum þátttökuríkjunum, a.m.k. mun þróunin leita í þá átt, og fyrir vikið mun efnahagslegur stöðugleiki aukast. Veikari ríkin á efnahagssviðinu munu sækja styrk til þeirra sem hafa haft betri stjórn á efnahagsmálum sínum. Þetta þýðir lækkun evróvaxta - og aðrir sem hafa aðgang að fjármagnsmörkuðum EMU njóta að sjálfsögðu einnig góðs af. Á hinn bóginn kann vaxtamunurinn milli EMU ríkja og annarra ríkja að aukast.

Hvernig tengist Ísland EMU?
Af þessu má sjá að áhrifin á íslenskt efnahagslíf eru margþætt, um sumt til hins betra og annað til hins verra. Að öllu athuguðu má þó ætla að jákvæðu áhrifin verði sterkari en þau neikvæðu, ef gengið er út frá því að vel takist til um EMU og skynsamlega verði staðið að stjórn efnahagsmála hér á landi á næstu árum. Hitt er svo annað mál að ef til vill má ná meiri árangri í efnahagsmálum á Íslandi þegar fram í sækir með því að tengjast með einhverjum hætti gjaldmiðlasamstarfinu. Þetta verða menn auðvitað að meta í fyllingu tímans.
Í þessu ljósi er skýrt að miklu máli skiptir að Íslendingar fylgist vel með þróun EMU á næstunni og velti fyrir sér fordómalaust öllum hliðum málsins. Ríkisstjórnin skipaði nýlega sérstaka nefnd í þessu skyni. Jafnframt er brýnt að búa í haginn fyrir framtíðina að þessu leyti eftir því sem við verður komið. Í því efni ber hæst að koma á jafnvægi í viðskiptum við önnur lönd, minnka erlendar skuldir, styrkja stjórn opinberra fjármála og viðhalda stöðugleikanum í efnahagslífinu.
Áhersla er hér lögð á þessi atriði því þau styrkja grundvöll hagstjórnar og sveiflujöfnunar í þjóðarbúskapnum. Með lækkun erlendra skulda og traustari stöðu ríkisfjármála fæst svigrúm til að mæta andstreymi í efnahagsmálum. Í þessu sambandi má nefna að Norðmenn leggja mikla áherslu á slíkt hagstjórnarsvigrúm og benda á að afar sterk staða opinbera fjármála þar í landi og svonefndur olíusjóður komi sér vel við nýja skipan gjaldmiðla í Evrópu. Mikilvægt er að Íslendingar hafi svipuð sjónarmið að leiðarljósi á næstu árum og styrki þannig grunn hagsældar til frambúðar. Traust efnahagsstefna ríkistjórnarinnar varðar því leiðina til nýrrar aldar og treystir stöðu Íslands og íslensks atvinnulífs í alþjóðlegri samkeppni.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira