Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Flugstöð Leifs Eiríkssonar - grein birt í dagblaðinu Degi

  16. desember 1997


  Grein utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar

  Flugstöð Leifs Eiríkssonar

  Birt í dagblaðinu Degi  Fátt er mikilvægara eyþjóð sem byggir afkomu sína á alþjóðlegum viðskiptum en öflugar og traustar samgöngur við umheiminn. Að slíkum samgöngum verður því að hlúa. Ferða- og flutningsmöguleikar til og frá Íslandi eru bundnir við loft- og sjóflutninga. Það eru því brýnir hagsmunir þjóðarinnar að búið sé vel að flug- og hafnaraðstöðu.

  Keflavíkurflugvöllur er eini alþjóðaflugvöllur landsins. Málefni hans eru því málefni íslensku þjóðarinnar allrar. Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur verið í notkun í rúman áratug. Óumdeilt er að þetta glæsilega mannvirki hefur þjónað landi og þjóð með miklum ágætum. Afar mikilvægt er að svo verði áfram- — að við getum áfram verið stolt af þessari stærstu gestamóttöku landsins.

  Í tvennu tilliti eru málefni Flugstöðvarinnar á tímamótum um þessar mundir. Annars vegar hefur sú skuldaáþján, sem hvílt hefur á flugstöðinni eins og mara í áratug, verið tekin föstum tökum þannig að loksins hillir undir lausn fjárhagsvanda hennar. Hins vegar annar flugstöðin ekki lengur þeim fjölda farþega sem fara um flugvöllinn, en ríkisstjórnin hefur brugðist við því með aðgerðum til að tryggja að stöðin verði fær um að mæta þeirri auknu umferð sem fyrirsjáanleg er.

  Fjárhagsvandi leystur
  Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur allt frá upphafi búið við mjög erfiða fjárhagsstöðu þrátt fyrir miklar tekjur. Ríkissjóður og flugmálaáætlun hafa notið góðs af þessum miklu tekjum í verulegum mæli. Á síðasta ári námu tekjur flugstöðvarinnar rúmlega 1,7 milljarði króna en af þeirri upphæð rann nær 1,1 milljarður í ríkissjóð og til flugmálaáætlunar. Engu af þessum tekjum hefur verið varið til að greiða niður skuldir flugstöðvarinnar.

  Afleiðingin er sú að skuldir Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar eru svipaðar og þegar hún var tekin í notkun eða u.þ.b. 4,4 milljarðar króna. Við þessa stöðu varð ekki unað lengur og raunar löngu kominn tími til að skapa flugstöðinni heilbrigðan rekstrargrundvöll þannig að tekjur af rekstri hennar stæðu bæði undir rekstrar- og fjárfestingakostnaði.

  Á grundvelli álits sérstakrar nefndar, sem fjallaði um málefni Flugstöð Leifs Eiríkssonar, var ákveðið að bjóða út einstaka þætti í þjónustu og verslun í flugstöðinni. Niðurstaðan lofar góðu um framtíðina. Allt bendir til þess að lausn fjárhagsvandans sé í höfn. Þá er ánægjulegt að farþegar sem fara um flugstöðina á nýju ári munu eiga kost á mun fjölbreyttari og betri þjónustu en áður.

  Sérstakt átak verður gert til að laða meiri umferð að Keflavíkurflugvelli. Sett hefur verið á laggirnar sérstakt markaðsráð skipað fulltrúum helstu viðskiptaaðila innan flugstöðvarinnar. Meginmarkmiðin með starfi þess er að styrkja markaðssetningu flugvallarins þ.e. bæði auka flugumferð um völlinn og gera hann meira aðlaðandi fyrir farþega. Má nefna m.a. að með tilkomu fleiri innritunarborða heyra langar biðraðir nú að mestu sögunni til.

  Stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar
  Farþegafjöldi um Flugstöð Leifs Eiríkssonar hefur tvöfaldast á áratug. Á síðasta ári fór farþegafjöldi yfir eina milljón. Það er sá fjöldi sem stöðin var hönnuð til að þjóna. Þá hafa vöruflutningar um flugvöllinn farið mjög vaxandi og hefur nýlega verið úthlutað lóðum undir vörumiðstöðvar Flugleiða hf. og Fragtflutninga ehf.

  Fjölgun farþega hefur á undanförnum árum numið um 10% á ári. Flugrekstaraaðilar gera ráð fyrir svipaðri aukningu næstu árin, enda er mikill hugur í þeim sem sinna ferðaþjónustu og flugrekstri. Lykillinn að því að þetta geti orðið að veruleika er stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Ef ekki yrði hafist handa á nýju ári gæti það haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir þróun ferðaþjónustunnar sem nú þegar skilar þjóðarbúinu verulegum tekjum. Ferðaþjónustan er önnur mikilvægasta atvinnugreinin til öflunar gjaldeyristekna, næst sjávarútveginum.

  Nýlega var lögð fram í ríkisstjórninni framkvæmdaáætlun um stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar. Þar er gert ráð fyrir að stækka flugstöðina í þremur áföngum á næstu þrettán árum. Framkvæmdaáætlunin tekur mið af varkárri spá um farþegaaukningu fram til 2010 eða um 7% á ári. Með stækkun flugstöðvarinnar í áföngum er skapaður sveigjanleiki til að meta stöðuna milli framkvæmdaáfanga. Þannig er tryggt að fullt tillit verður tekið til raunverulegrar þróunar í flugumferðinni og hægt að flýta eða draga úr framkvæmdum eftir aðstæðum.

  Ríkistjórnin hefur samþykkt að leggja til við Alþingi að ráðist verði án tafar í fyrsta áfanga stækkunar og stefnt að því að ljúka áfanganum um áramótin 1999 - 2000. Er þar fyrst og fremst um að ræða gerð fleiri flugstæða og flughlaða ásamt fyrsta áfanga nýrrar tengibyggingar fyrir landganga úr flugvélum.

  Gert er ráð fyrir að öðrum áfanga verði lokið á árinu 2005. Í þeim áfanga verður m.a. hafist handa við að stækka til norðurs neðri hæð aðalbyggingar flugstöðvarinnar. Stefnt er að því að ljúka þriðja og síðasta áfanganum í hinni nýju framkvæmdaáætlun árið 2010.

  Með þeim breytingum á flugstöðinni og rekstrarfyrirkomulagi í henni sem að ofan er lýst mun tekjuöflun flugstöðvarinnar á næstu árum nægja til að greiða niður eldri lán ásamt því að standa undir kostnaði vegna nýframkvæmda. Þetta felur í sér söguleg umskipti í málefnum flugstöðvarinnar.

  Aukin atvinna
  Nú veitir starfsemi flugstöðvarinnar yfir 800 manns atvinnu. Ofangreindar breytingar munu skapa fjölda nýrra atvinnutækifæra og renna styrkari stoðum undir atvinnulíf á Suðurnesjum. Ljóst er að 60 - 70 störf koma til sögunnar við nýja þjónustu og verslunarstarfsemi í flugstöðinni. Hver viðbótarflugvél í flugflota Flugleiða hf. skapar u.þ.b. 100 ný störf. Félagið á 4 farþegaþotur í pöntun sem koma í notkun á næstu fimm árum. Auk þess hefur það tryggt sér kauprétt á 8 vélum til viðbótar fram til ársins 2006. Velgengni og vöxtur Atlanta flugfélagsins styður einnig vonir um að atvinnustarfsemi aukist verulega í flugstöðinni. Þá hafa umsvif fleiri flugrekstraraðila farið vaxandi. Framkvæmdir við sjálfa stækkun flugstöðvarinnar kalla einnig á umtalsvert vinnuafl

  Gert er ráð fyrir auknu frelsi og samkeppni við flugafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli. Afgreiðsla á flutningavélum hefur þegar verið gefin frjáls. Stefnt er að því að strax á næsta ári verði veitt leyfi til þjónustu óreglubundins flugs smærri véla.

  Til framtíðar
  Aukið frjálsræði í verslun og þjónustu á Keflavíkurflugvelli og í Flugstöð Leifs Eiríkssonar ásamt metnaðarfullum áformum flugrekstraraðila eru mikilvæg forsenda áframhaldandi vaxtar ferðaþjónustu á Íslandi. Það er því mikilvægt skref að svo skuli hafa verið búið um hnútana að Flugstöð Leifs Eiríkssonar, aðalhliðið að Íslandi, hindri ekki heldur örvi þessa uppbyggingu. Eini alþjóðaflugvöllur allra landsmanna er of mikilvægur til þess að ekki sé að honum hlynnt. Með þeim markvissu aðgerðum sem gripið hefur verið til varðandi rekstur og stækkun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar hefur nú loksins skapast eðlilegur grundvöllur fyrir farsælli þróun.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira