Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

SRH/Þróunarsamvinna á krossgötum, dagblaðið Dagur./980106

6. janúar 1998

Grein utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar
Þróunarsamvinna á krossgötum
Birt í dagblaðinu Degi

Umræða um þróunarmál og þróunarlönd er fyrirferðarlítil í íslensku samfélagi og þróunarsamvinna á vegum íslenskra stjórnvalda er smá í sniðum. Fyrir þessu liggja margar ástæður sem ekki er ætlunin að tíunda hér. Um þessar mundir tel ég hinsvegar að ákveðin tímamót eigi sér stað í samskiptum okkar við lönd þriðja heimsins og þróunarsamvinna íslenskra stjórnvalda stendur nú á ákveðnum krossgötum. Verið er að bæta meðferð þróunarmála á vegum utanríkisráðuneytisins og styrkja starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Jafnframt er það ánægjulegt að almennur áhugi á þriðja heiminum fer vaxandi, ungt fólk leitar í auknum mæli sérfræðimenntunar á málefnum þessa heimshluta og íslensk fyrirtæki sjá sér hag í samvinnu við fyrirtæki í þróunarlöndum.

Stefnumið íslenskra stjórnvalda
Veigamesti þáttur í þróunarstarfi Íslands er uppbygging mannauðs. Þróunarsamvinnan miðar að því að hjálpa fólki til sjálfsbjargar með miðlun þekkingar og verkkunnáttu. Hún stuðlar að sjálfbærri þróun á sviði efnahags-, félags- og umhverfismála, styrkir þróun atvinnulífs, stuðlar að jafnrétti, bættum mannréttindum og lýðræðislegu samfélagi. Eitt af meginmarkmiðum íslenskrar þróunarsamvinnu er að bæta kjör þeirra sem verst eru settir, en meðal þeirra eru konur í áberandi meirihluta.
Í megindráttum er aðkoma íslenskra stjórnvalda að þróunarsamvinnu með tvennum hætti: Marghliða samvinna byggist á þátttöku Íslands í alþjóðlegum stofnunum svo sem Alþjóðabankanum, Þróunarstofnun Sameinuðu þjóðanna, Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna og Norræna þróunarsjóðnum svo eitthvað sé nefnt. Tvíhliða samvinna byggist á hinn bóginn á beinni aðild Íslands að verkefnum í þriðja heiminum og er slíkt starf unnið af Þróunarsamvinnustofnun Íslands.

Marghliða þróunarstarf
Þátttöku Íslands í marghliða þróunarstarfi er meðal annars sinnt af alþjóðaskrifstofu Utanríkisráðuneytisins og hefur skrifstofan nú verið styrkt með sérstöku þróunarmálasviði. Málefnum Alþjóðabankans, sem er stærsta einstaka þróunarstofnun heims, verður nú unnt að sinna betur en hingað til. Í því samhengi má nefna að Ísland hefur nú í fyrsta sinn forystu fyrir hönd Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna í þróunarnefnd Alþjóðabankans, en nefndin mótar meginstefnu bankans í þróunarmálum og er ráðgefandi aðili hvað varðar framkvæmd og framvindu stefnumiða hans. Jafnframt tók Ísland sæti í Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC) fyrir rúmu ári. Ráðið er ein af meginstofnunum Sameinuðu þjóðanna og fjallar meðal annars um þróunarmál.
Árangursríkt samstarf Íslands við Háskóla Sameinuðu þjóðanna er dæmi um vel heppnað marghliða þróunarstarf. Jarðhitaskóli Sameinuðu þjóðanna hefur nú starfað á Íslandi í tæpa tvo áratugi og er kostnaður að mestu greiddur af íslensku fé. Yfir 100 vísinda- og tæknimenn frá meira en 20 þróunarlöndum hafa fengið sex mánaða þjálfun við skólann, auk þess sem á fjórða tug manna hefur komið til skemmri námsdvalar. Starfsemi jarðhitaskólans hefur tvímælalaust borið góðan árangur og nú hefur verið ákveðið að hefja starfsemi sjávarútvegsskóla samkvæmt tillögum alþjóðlegrar matsnefndar á vegum Háskóla sameinuðu þjóðanna. Skólinn mun starfa í nánu samstarfi við Hafrannsóknastofnun, Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Skólastjóri hefur verið ráðinn og fyrstu nemendurnir hefja nám á hausti komanda. Ég bind miklar vonir við starfsemi þessa nýja skóla og tel það mikilvægt framlag til þróunarsamvinnu að Íslendingar miðli af sérfræðiþekkingu sinni á sviði jarðvísinda og fiskveiða. Auk þess styrkir starfsemin framfarir á sviði vísinda og tækni á Íslandi. Er það góð sönnun þess að hjálp við aðra hjálpar okkur sjálfum.

Tvíhliða þróunarstarf
Vaxtarbroddur í þróunarsamvinnu á komandi árum verður þó tvímælalaust á sviði tvíhliða samvinnu. Frá stofnun Þróunarsamvinnustofnunar Íslands hefur mikil reynsla og þekking skapast á tvíhliða þróunarstarfi og er það stefna ríkisstjórnarinnar að hlúa betur að starfsemi stofnunarinnar. Þróunarsamvinnustofnun hefur fyrst og fremst starfað á sviði fiskirannsókna og fiskveiða, en má búast við fjölbreyttari starfsemi á komandi árum, helst á sviði mennta- og heilbrigðismála. Stofnunin starfar nú í fjórum löndum Afríku og eru íslenskir starfsmenn á erlendri grund 20 talsins. Starf Þróunarsamvinnustofnunar hefur liðið fyrir þá tilhögun að fjárveitingar hafa einungis verið tryggðar frá ári til árs. Þannig hefur langtíma stefnumótun verið ókleif og undirbúningur nýrra verkefna erfiður. Hér verður breyting á, því ríkisstjórnin samþykkti nýverið að framlög til Þróunarsamvinnustofnunar skuli aukast úr 172 milljónum árið 1997 í allt að 400-500 milljónir á næstu 6 árum. Mörgum kann að finnast sú aukning ófullnægjandi, en ég tel að hér sé verið að setja fram raunhæf markmið, sem hægt er að standa við. Jafnhliða þessari samþykkt fer nú fram töluverð uppstokkun á starfsemi Þróunarsamvinnustofnunar þar sem lögð verður ríkari áhersla á vandaðan undirbúning verkefna og eftirlit með árangri þróunarstarfsins.

Aðstoð í Bosníu og Herzegóvínu
Aðstoð Íslands við uppbyggingarstarfið í Bosníu og Herzegóvínu er gott dæmi um þróunarstarf sem byggist á tvíhliða samvinnu íslenskra og bosnískra stjórnvalda með aðstoð marghliða alþjóðastofnunar. Ísland leggur til búnað og sérfræðiþekkingu á sviði stoðtækjaframleiðslu til hjálpar þeim íbúum landsins sem misst hafa fætur fyrir neðan hné. Með samningi við Össur hf., hafa starfsmenn á stoðtækjaverkstæðum í Bosníu og Herzegóvínu verið þjálfaðir og þegar verkefninu lýkur hafa um það bil 600 einstaklingar fengið meðhöndlun sérfræðinga Össurar hf. Alþjóðabankinn veitir aðstoð varðandi framkvæmd og eftirlit með þessu verkefni og heldur samvinna við bankann áfram þegar nýtt verkefni á sviði barnalækninga, kvensjúkdómalækninga og mæðraverndar hefst á komandi vikum. Í báðum tilfellum nýtist sérfræðiþekking, þar sem Íslendingar eru í fremstu röð, einstaklega vel og er það skoðun mín að framlag Íslands sé dæmi um vel heppnað þróunarstarf. Þetta starf sýnir vel að Íslendingar geta lagt mikið að mörkum þrátt fyrir fámenni ef skynsamlega er staðið að málum

Ber þróunarstarf árangur?
Í dag lifa 1300 milljónir jarðarbúa, eða nær fjórðungur mannkyns, við sárustu fátækt. 1200 milljónir skortir aðgang að hreinu drykkjarvatni, 850 milljónir kunna hvorki að lesa né skrifa og 750 milljónir njóta engrar heilbrigðisþjónustu. Þetta eru háar tölur og vekja mann til umhugsunar um hvort þróunarstarf síðustu áratuga hafi mistekist. Svo er þó ekki því ýmsu hefur verið áorkað. Enda þótt fjöldi fátækra sé mikill er hann stórum minni hluti mannkyns en áður var, og á síðustu 35 árum hefur meðalaldur íbúa þriðja heimsins hækkað úr 46 árum í 62, ungbarnadauði hefur lækkað um meira en helming, og frá árinu 1970 hefur hlutfall ólæsis lækkað um 40%. Að sönnu mætti árangur þróunarstarfsins vera meiri en orðið hefur, og það er sérstakt áhyggjuefni að ein heimsálfa, Afríka, virðist sífellt dragast meira aftur úr öðrum heimshlutum.
Þó ágreiningur sé um aðferðir og árangur þróunarstarfs, eru flestir sammála um þörfina á aðstoð til handa íbúum þriðja heimsins. Það hlýtur að vera markmið okkar að allir jarðarbúar njóti þess efnahags- og félagslega öryggis að geta sofnað fullnærðir að kveldi dags, notið menntunar og fengið lágmarks heilbrigðisþjónustu. Í þessari baráttu mega Íslendingar ekki láta sitt eftir liggja.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira