Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Áramótagrein ráðherra í Austra

8. janúar 1998

Halldór Ásgrímsson, áramótagrein í Austra.

Við áramót

Við áramót horfir fólk yfir farinn veg og þakkar forsjóninni fyrir þá blessun sem árið hefur fært þeim og fjölskyldum þeirra. Aðrir hafa mætt andstreymi, misst ástvini, átt við veikindi að stríða eða lent í annars háttar ógæfu. Megi nýtt ár verða þeim mildara, en það liðna.

Almennt séð höfum við Íslendingar fjölmargt til að vera þakklátir fyrir. Við búum í háþróuðu velferðarsamfélagi og samkennd og náungakærleikur eru áberandi í skapgerð þjóðarinnar. Mennta- og heilbrigðiskerfi eru betri en hjá flestum öðrum þjóðum, þó seint verði við öllu séð í þeim efnum. Einhverja málamiðlun verður að gera milli ítrustu krafna á þjónustu og því, sem sameiginlegur sjóður landsmanna rís undir. Atvinnuástand fer batnandi og atvinnulausum fækkar stöðugt og vonandi tekst að vinna bug á því að mestu fyrir aldamót. Kaupmáttur vex nú hraðar hér en hjá nokkuri annarri þjóð í kringum okkur.

Björt framtíð
Framtíð fjórðungsins er eðlilega mörgum ofarlega í huga, nú þegar árin mætast. Flutningur fólks úr dreifbýli til þéttbýlis er alvarlegt vandamál, sem Austfirðir hafa ekki farið varhluta af. Ég vil hér ítreka þá skoðun mína, að helsta vonin til að spyrna við byggðaröskun er að styrkja byggðakjarna, einn eða fleiri í hverjum fjórðungi. Nýleg skoðanakönnun rennir stoðum undir það álit, að slíkt spyrni gegn þessari óheppilegu þróun.

Sjávarútvegur stendur nú traustum fótum á Austfjörðum og eru hér mörg glæsileg fyrirtæki, sem eru burðarásar atvinnulífs og tekjumyndunar í mörgum byggðarlögum. Síldarvinnslan í Neskaupsstað fagnaði meðal annars 50 ára afmæli nú fyrir skemmstu. Það fyrirtæki er gott dæmi um hvernig duglegt fólk hefur notfært sér breytta fiskveiðistjórnun og möguleika í sjávarútvegi.

Landbúnaður á hér ríka hefð og vonandi tekst, að haga málum þannig að hann eigi hér jafn bjarta framtíð og framlag hans til uppbyggingar atvinnu- og menningarlífs í aldaraðir verðskuldar. Ferðaþjónusta alls konar er blómleg og verður að telja líklegt, að enn frekari möguleikar séu fyrir hendi í þeirri grein, bæði í bæjum og sveitum.

Stóriðja
Hefðbundnir atvinnuvegir munu varla duga til að standa undir því þjónustu- og tekjustigi sem nauðsynlegt er til að spyrna af afli gegn byggðaröskun. Því er algjörlega nauðsynlegt að laða hingað nýja atvinnustarfsemi til að skjóta styrkari stoðum undir undir allt athafnalífið hér um slóðir. Um langt skeið hefur verið umræða í fjórðungnum um hugsanlega stóriðju á Reyðarfirði. Miklar vonir hafa verið bundnar við slíka uppbyggingu en ekkert hefur orðið úr þeim áformum. Því hafa margir orðið fyrir vonbrigðum og taka með varúð allri umræðu um þessi mál. Slíkt er eðlilegt en má þó ekki koma í veg fyrir að menn haldi áfram að leita fyrir sér.

Mikil vinna hefur verið lögð í viðræður um þessi mál að undanförnu og ber þar hæst hugsanlega byggingu álvers í Reyðarfirði í samvinnu við Norsk Hydro. Ekki er hægt að fullyrða hvort verður úr þeim áformum, en enginn vafi er á, að það mál er lengra komið en önnur sambærileg mál hér áður fyrr. Á næstunni verður lögð öll áhersla á að ljúka athugun á því og reynt að ná fram ákvörðun. Það liggur að minnsta kosti fyrir nú, að ef til þess kemur að slíkt álver verður byggt hér á landi, þá kemur annar staður en Reyðarfjörður ekki til greina. Ekki er mögulegt að reisa slíkt iðjuver annars staðar á landinu, þar er ekki nægileg orka fyrir hendi. Álver með þessa afkastagetu verður því að byggja á orku frá Austurlandi og það er einfaldlega ódýrast að leiða hana til Reyðarfjarðar. Fyrirtækið er hins vegar af þeirri stærðargráðu að það hefur gífurleg áhrif á byggðina.

Mörgum finnst að framboð af vinnuafli sé of lítið á svæðinu og það er út af fyrir sig rétt, en vel ætti að vera mögulegt að manna fyrirtækið. Það er ljóst að bygging og rekstur á slíku risafyritæki skiptir sköpum fyrir alla þróun í fjórðungnum. Ekki er ólíklegt að allt að þúsund ný störf skapist með tilkomu álvers með beinum og óbeinum hætti. Það hefði margvísleg áhrif á ýmislegt annað eins og vegaframkvæmdir, skóla- og heilbrigðismál, ásamt margvíslegri annarri þjónustu.

Ef ekki verður af þessum áformum þá má ekki leggja árar í bát. Ýmislegt annað kemur til greina eins og olíuhreinsunarstöð, kísilmálmverksmiðja og ýmis önnur atvinnustarfsemi. Menn mega ekki vera svo brenndir af fortíðinni í þessum efnum að kjarkurinn bili og ekkert sé að gert. Það hefur ekkert framfaramál náðst í höfn öðru vísi en að leggja í það mikla vinnu og sækja þau af bjartsýni og einurð.

Ég er sannfærður um að ekkert eitt mál er jafn mikilvægt fyrir Austfirði um þessar mundir. Við verðum að vera vakandi fyrir öllum þeim möguleikum, sem kunna að bjóðast, enda farsælast að fjölbreytni í atvinnulífi sé sem mest. Með því móti getum við haldið í unga fólkið og boðið því þau tækifæri og þjónustu sem nauðsynleg er.

Umhverfismál
Það eru margir sem telja að þessi áform spilli viðkvæmri og fallegri náttúru Austurlands. Víst er að þær framkvæmdir sem hér er verið að tala um hafa mikil áhrif. Virkjun fallvatna og stóriðja eiga að geta farið vel saman með verndun náttúru og uppbyggingu ferðaþjónustu. Ef að þessum framkvæmdum verður, þarf að gæta að sérstæðri náttúru og umgangast hana með fullri virðingu. Vatnið verður að mestu leitt í gegnum göng en það sem sérstaklega þarf að gæta að eru þær miðlanir sem byggðar verða á hálendinu. Það er mikilvægt að sem minnst af grónu landi fari undir vatn og möguleikar eru á að draga úr miðlun við Eyjabakka frá því sem áður var áformað.

Því er stundum haldið fram að þessar framkvæmdir séu andstæðar uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu. Ég tel þvert á móti að þær geti styrkt verulega uppbyggingu á því sviði og ýmsum öðrum. Með þessum framkvæmdum yrðu samgöngu betur tryggðar og aðgengi að hálendinu yrði betra. Fólksfjölgun á svæðinu auðveldar meiri þjónustustarfsemi og bætir grunndvöll hótels- og veitingareksturs allt árið um kring. Ferðaþjónustan er og verður mikilvægur þáttur í atvinnumálum á Austurlandi. Það verður samt ekki komist hjá því að viðurkenna þá staðreynd að þessi atvinnugrein er um of bundin við sumarumferð.

Aðrir telja að þessi áform séu andstæð landbúnaðinum. Það er algjör rökleysa. Sterkari byggð í bæjum styrkir stöðu sveitanna og markað fyrir landbúnaðarvörur. Fjölbreyttari atvinna á svæðinu veitir fólkinu í sveitunum meiri möguleika til lífsviðurværis eins og öðrum á svæðinu. Það er því engin ástæða til að hika við þessi áform af þeim sökum sem hér hafa áður verið nefnd. Málefnaleg umræða er að sjálfsögðu nauðsynleg og til góðs um þetta mál eins og önnur.

Samgöngumálin
Nýlega var lögð fram á Alþingi metnaðarfull áætlun um að ljúka uppbyggðum vegum til allra byggðarlaga í landinu þar sem búa 200 íbúar og fleiri fyrir árið 2010. Jafnframt verður veitt fjármagn sérstaklega til höfuðborgarsvæðisins og til annarra stofnvega og tengivega í landinu. Þessi áætlun verður þess valdandi fyrir Austurland að fjórðungurinn mun fá mun meira fjármagn til vegamála á næstu árum en verið hefur að undanförnu. Gert er ráð fyrir að þessi áætlun fjármagni leiðina milli Norðurlands og Austurlands til Vopnafjarðar og með ströndinni suður á land.

Auk þess mun fjórðungurinn fá á tímabilinu tæpar 800 milljóni króna til þess að vinna í öðrum stofnvegum eins og veginum yfir Breiðdalsheiði, milli Þórshafnar og Vopnafjarðar og milli Héraðs og Vopnafjarðar um Hellisheiði. Það fjármagn er ekki nægilegt til að ljúka þeirri vegagerð en auk þess er möguleiki á því að færa allt að 200 milljónir úr öðrum vegum í þessa vegi til að flýta fyrir gerð þeirra. Vegurinn um Breiðdalsheiði er hluti af hringveginum og því er mikilvægt að geta lokið við gerð hans á tímabilinu eins og veginum um Firðina. Jafnframt er nauðsynlegt að ljúka veginum milli Vopnafjarðar og Bakkafjarðar og bæta vegina um Hellisheiði og milli Bakkafjarðar og Þórshafnar.

Vegurinn til Borgarfjarðar-Eystri fær fjármagn af því sem varið er til svokallaðra tengivega og verður því hægt að vinna í honum jafnhliða. Ýmsir vegir í sveitum eru í sama flokki og verður að raða því niður eftir efnum og ástæðum eins og verið hefur.

Í þessari áætlun er hins vegar ekki tekið á jarðgangnagerð. Gert er ráð fyrir að áætlunin fjármagni jarðgangnarannsóknir áfram en ef ráðist verður í jarðgöng á þessu tímabili, sem vonandi verður, er gert ráð fyrir að þau verði fjármögnuð sérstaklega. Jarðgöng eru dýr og ekki þykir fært að taka fé til þeirra af þessu takmarkaða fé, sem nauðsynlegt er til að endurbæta vegakerfi landsmanna. Það dregur hins vegar ekki úr nauðsyn jarðgangna á Austurlandi og vonandi líða ekki mörg ár þar til þau verða að veruleika. Miklar framfarir hafa verið á þessu sviði og kostnaður við gerð þeirra fer lækkandi. Það er einnig rétt að benda á að ef ráðist verður í virkjana og stjóriðjuframkvæmdir, þá styrkir það möguleika og grundvöll jarðgangna í fjórðungnum. Það er því ljós að á engan hátt er verið að útiloka jarðgöng á þessu tímabili, sem hér er getið um, en málið hefur hins vegar ekki verið ráðið til lykta.

Gullið undir regnboganum
Það hefur lengi verið siður þeirra sem eru að verða úti í hríðinni með sín stefnumál í stjórnmálum að leggjast í gylliboð, í von um að einhverjir láti glepjast og hleypi þeim inn í hlýjuna. Gullið er undir þeim enda regnbogans, sem lengra er burtu, segja menn, - það er í Brussel. Fyrst almenningur trúði því ekki, þá er það nú að finna í sjávarútveginum. Auðlindagjald á sjávarútveg skilar þjóðinni tugum milljarða í hagnað, segja hinir nýju gullgerðarmenn, og það sem meira er, þessir milljarðar hafa ekki áhrif á launakjör fólks og ekki heldur á skattgreiðslur frá útveginum.

Þessi málflutningur hefur verið rekinn á mjög óábyrgan hátt og spillt fyrir skynsamlegum breytingum á kerfinu til samræmis við hagsmuni allrar heildarinnar og réttlætiskennd almennings, sem er hæstiréttur í þessu máli sem öðrum. Allar upplýsingar og staðreyndir þurfa að liggja á borðinu og taka þarf ákvarðanir sem tryggja sem mestan hagnað þjóðarbúsins af öllum atvinnugreinum, án þess að þær séu sligaðar af sköttum og öðrum álögum. Þær miklu breytingar sem hafa átt sér stað í sjávarútveginum hafa gert honum mögulegt að leggja mun meira fram til sameiginlegra þarfa en áður tíðkaðist. Nú greiðir sjávarútvegurinn fyrir veiðieftirlit til Þróunarsjóðs sjávarútvegsins og nýlega var ákveðið að hækka launatengd gjöld greinarinnar til samræmis við aðra atvinnuvegi.

Með vaxandi fiskistofnum og bættum hag sjávarútvegsins er sjálfu sér ekkert sem mælir gegn því að hann greiði hærri skatta til samfélagsins, hvort sem það er kallað auðlindagjald eða eitthvað annað. Þeir peningar sem þannig eru teknir verða þá hins vegar ekki notaðir til að greiða niður skuldir, byggja upp fiskistofna, bæta kjör fólks eða gera fyrirtækjum kleift að sækja fram á nýjum vettvangi.

Þeir sem hæst tala í þessum efnum eru hins vegar ekki jafn áhugasamir um að gera breytingar á kerfinu. Það er eins og þeir vilji helst hafa sem mest uppnám í kringum málið í þeirri von að fá sem mestan afla í gruggugu vatni. Jafnaðarmenn treystu sér til dæmis ekki að standa að nauðsynlegum skattalagabreytingum nú fyrir jólin, þar sem bannað var að afskrifa veiðiheimildir. Þessi ráðstöfun hefur áreiðanlega þau áhrif að verð aflaheimilda kemur til með að lækka og þannig draga úr því braski sem verið hefur. Ekki er ólíklegt að eitthvað verði dregið frekari úr framsalsheimildum sem mun þá virka í sömu átt en getur hins vegar komið í veg fyrir hagræðingu.

Það væri hollt fyrir þá sem gagnrýna mest kvótakerfið að kynna sér stöðu hans fyrir rúmum áratug og þær miklu hörmungar sem greinin gekk þá í gegnum. Gripið var til margvíslegra ráðstafana til þess að bjarga þessari undirstöðuatvinnugrein í gegnum þrengingarnar en jafnframt skapaðir möguleikar á því að greiða skuldirnar til baka. Þeir sem nú tala um auðlindagjald hrópuðu hátt á þessum árum og töldu sjávarútveginn gjaldþrota og lítið gæti komið í veg fyrir það. Nú hafa endurbæturnar sem þeir hafa barist á móti gert greininni kleift að leggja enn meira til samfélagsins en nokkru sinni fyrr. Þessir menn hafa margir hverjir vanið sig á að vera alltaf á móti flestu því sem til framfara horfir og nú vilja þeir leggja á skatta langt umfram það, sem sjávarútvegurinn þolir. Austfirðingar og annað landsbyggðarfólk veit betur, en því miður er það svo að margir sem lítið þekkja til sjávarútvegsins, láta ginnast af þessum gylliboðum sem minna á nýju fötin keisarans.

Sveitir lands
Landbúnaður hefur lengi verið í miklum erfiðleikum. Ástæðurnar eru fjölmargar. Neysluvenjur þjóðarinnar hafa mikið breyst á tiltölulega stuttum tíma og landbúnaðurinn hefur lengi verið háður styrkjum úr ríkissjóði, sem hefur bæði reynst blessun og bölvun. Stefna stjórnvalda hefur í áratugi verið sú, að hér skuli rekinn landbúnaður sem framleiði afurðir, sem eru hreinar og ómengaðar, ásamt því að gæðin eru meiri en víðast þekkist. Afurðirnar eru hins vegar í sumum tilfellum dýrari en innfluttar vörur yrðu, ef innflutningur væri leyfður. Þróun alþjóðaviðskipta og þrýstingur frá almenningi um að eiga aðgang að ódýrum afurðum gerir það að verkum að íslenskur landbúnaður verður að búa sig undir aukna samkeppni á komandi árum. Nýleg dæmi um fár í nautpeningi og fiðurfé erlendis, sem lífshættulegt er mönnum hvetur þó til að við sýnum áfram fyllstu aðgát í innflutningi.

Vanda landbúnaðarins er ekki greinarinnar einnar að leysa, því ábyrgðin er ekki síður hjá stjórnmálaflokkunum, sem allir bera ábyrgð á ástandinu. Það er ódrengilegt hjá sumum gagnrýnendum að láta í veðri vaka, að vandinn sé auðleystur og sé bændum sjálfum að kenna. Framlag bændastéttarinnar til framfara, menningar og sjálfstæðis þjóðarinnar verður aldrei fullþakkað. Hér þarf þó eins og annars staðar að taka mið af breyttum tímum. Framleiðslan þarf að taka mið af þörfum markaðarins. Með stækkandi markaði og vaxandi velmegun þarf um alla framtíð mikla framleiðslu í sveitum til að sinna markaði fyrir landbúnaðarvörur. Hér þarf að hagræða eins og annars staðar til að geta boðið vöruna á hagstæðu verði og skapa bændum mannsæmandi kjör.

Það er mikilvægt verkefni á næstunni að gera sér betur grein fyrir framtíðarmöguleikum sveitanna. Það er enginn vafi á að breytingar verða á búskaparháttum og það er nauðsynlegt að aðlaga landbúnaðinn sem fyrst að breyttum aðstæðum. Það er eðlilegt að ríkisvaldið og bændur vinni sameiginlega að þessu verkefni. Sveitirnar eru óaðskiljanlegur hluti landsins og það er þjóðinni lífsnauðsyn að tryggja búsetu þar. Með bættum samgöngum og samskiptatækni ættu möguleikar sveitanna að fara vaxandi en ekki minnkandi.

Gleðilegt ár
Það er bjart yfir landinu um þessar mundir. Við munum ekki annað eins tíðarfar og samskiptin milli fólks hafa sjaldan eða aldrei verið auðveldari. Það er ekki síður bjart yfir austfirskum byggðum. Framtíðarmöguleikar þessa fámenna kjördæmis eru miklir. Við eigum gnótt ónýttra auðlinda ef við kærum okkur um að nýta þær. Við eigum fallegt land sem við getum boðið mörgum upp á að njóta. Við eigum ríka menningu og vel menntað ungt fólk.

Æska fjórðungsins er þess albúinn að takast á við framtíðina ef henni eru skapaðir möguleikar. Til þess þarf framsýni og áræði og við megum ekki láta úrtölumenn draga úr okkur kjarkinn. Okkur er gefið þetta líf til að takast á við þau verkefni sem hvarvetna blasa við. Við ráðum sjálf mestu um framtíðina og við höfum alla möguleika á að skapa afkomendum okkar góð skilyrði og bjóða upp á ríkt og hamingjusamt líf.

Íslendingar allir eru færri en íbúar lítillar borgar í útlöndum. Samt hefur okkur tekist að byggja hér upp samfélag, sem er ótrúlega háþróað og gott. Hér eigum við öll að geta lifað mannsæmandi lífi. Vegna fæðar okkar og návígis er mikilvægara fyrir okkur en aðra að lifa í sátt og samlyndi. Möguleikar eru miklir og okkar er að nýta þá. Við skulum því ekki ljá friðarspillum eyra, sem vilja ala á öfund og stéttaríg.

Ég vil að lokum þakka Austfirðingum samvinnuna á nýliðnu ári, sem hefur verið mér til mikillar ánægju eins og jafnan áður. Megi nýtt ár færa okkur farsæld og frið. 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira