Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Stærra NATO, aukið öryggi - Grein birt í dagblaðinu Degi

31. mars 1998

Grein utanríkisráðherra, Halldórs Ásgrímssonar
Stærra NATO - aukið öryggi

Birt í dagblaðinu Degi

Á síðustu vikum hafa serbnesk lögregluyfirvöld látið til skarar skríða gegn meintum albönskum hryðjuverkamönnum í Kósóvó. Vitnisburður sjónarvotta bendir á hinn bóginn til þess að meðal fórnarlamba séu saklausir borgarar, gamalmenni, konur og börn. Sjónvarpið færir okkur heim í stofu myndir af harmi slegnu fólki sem óttast um öryggi sitt og á kröfuskiltunum stendur "Hvar er NATO"?
Þessi sýn segir meira en mörg orð um þá breytingu sem orðið hefur á hlutverki og verkefnum Atlantshafsbandalagsins á liðnum árum og hvernig bandalaginu hefur tekist að aðlaga sig nýjum aðstæðum í kjölfar loka kalda stríðsins.

Farsælt bandalag í fimmtíu ár
Þegar Atlantshafsbandalagið var stofnað árið 1949 voru Vesturlönd í varnarstöðu gagnvart útþenslu stalínsks stjórnarfars í Mið- og Austur-Evrópu. Reynsla síðari heimsstyrjaldarinnar hafði fært mönnum heim sanninn um að sjálfstæðar varnir einstakra ríkja máttu sín lítils gegn einbeittu stórveldi í árásarhug. Eina raunhæfa svarið við ógninni fólst í varnarbandalagi vestrænna ríkja, þar sem öll aðildarríkin væru skuldbundin til að leggja fram herlið til sameiginlegra varna.
Þrátt fyrir að hættan á stórárás úr austri hyrfi í lok kalda stríðsins, voru aðildarríki Atlantshafsbandalagsins sammála um að þeim væri hagur í áframhaldandi sameiginlegum vörnum. Lærdómur síðari heimsstyrjaldarinnar um fánýti sjálfstæðra varna margra minni ríkja ætti enn við, ekki síst í ljósi tækniþróunar í hergagnaframleiðslu. Breyttar aðstæður í Evrópu kölluðu hins vegar á endurmat og því var hafist handa um endurskoðun herstjórnarkerfis bandalagsins, það einfaldað og fækkað í yfirstjórn þess. Ennfremur var herafli bandalagsins dreginn saman gífurlega, langt umfram þær skuldbindingar sem bandalagið hafði tekist á hendur í afvopnunarsamningum.

Nýtt hlutverk í friðarframkvæmd
Í kjölfar loka kalda stríðsins jókst óstöðugleiki í Evrópu og staðbundnar skærur brutust út. Átökin á Balkanskaga leiddu til þess að bandalagsríkin samþykktu að aðstoða Sameinuðu þjóðirnar við friðargæslu ef þess væri óskað.
Í kjölfar friðarsamninganna í Bosníu-Hersegóvínu 1995 varð ljóst að Atlantshafsbandalagið eitt byggi yfir nauðsynlegri hernaðargetu og nægilega skilvirkri herstjórn til að binda enda á vargöldina sem þar hafði staðið á fjórða ár. Bandalagið féllst á að hafa forgöngu um friðargæslu þar og bauð samstarfsríkjunum í austri þátttöku í verkefninu. Því starfa nú í Bosníu hersveitir lýðvelda fyrrum Sovétríkja og Varsjárbandalagsríkja undir yfirstjórn Atlantshafsbandalagsins. Árangurinn af friðargæslunni í Bosníu hefur sýnt framar öðru hve mikilvægt afl bandalagsins er til að koma á friði og standa vörð um stöðugleika í Evrópu.

Samstarf - samvinna - stækkun
Í kjölfar kalda stríðsins hafði Atlantshafsbandalagið forgöngu um að efla samráð og samvinnu við fyrrum kommúnistaríki á sviði öryggismála. Nú funda reglulega 44 ríki í höfuðstöðvum bandalagsins um samvinnu í hermálum og um ástand og horfur í öryggismálum. Friðarsamstarf bandalagsins við samstarfsríkin hefur leitt saman heri bandalags- og samstarfsríkjanna til æfinga og þjálfunar. Skemmst er að minnast Samvarðaræfingarinnar hér á landi síðasta sumar, þegar herlið kom hingað frá 14 bandalags- og samstarfsríkjum til að æfa viðbrögð við Suðurlandsskjálfta. Samstarfið miðar einnig að því að auka gagnvirkni herja aðildar- og samstarfsríkja, til að auðvelda þeim sameiginlegar hernaðaraðgerðir á sviði friðargæslu og björgunar. Þá hefur verið lögð áhersla á samstarf á sviði almannavarna, umhverfismála og vísindarannsókna.
Engum hefur hins vegar dulist að ríki Mið- og Austur-Evrópu hafa flest hver ekki verið tilbúin til að láta þar staðar numið, en sóst eftir fullri aðild að bandalaginu með öllum þeim réttindum og skuldbindingum sem því fylgja. Aðildarríki Atlantshafsbandalagsins ákváðu því í ársbyrjun 1994 að bjóða fleiri ríkjum aðild að bandalaginu, að uppfylltum ströngum skilmálum um lýðræðislega stjórnarhætti og virðingu fyrir almennum lýðréttindum. Þá var þess krafist að umsóknarríkin gerðu samninga við nágrannaríki sín um óútkljáð deilumál. Tólf ríki sóttu um aðild að bandalaginu og lögðu mikið á sig til að uppfylla ofangreind skilyrði.

Öryggishagsmunir Rússa
Samhliða stækkunarferlinu hefur verið efnt til náins pólitísks samráðs og samvinnu milli Atlantshafsbandalagsins og Rússlands, meðal annars til að eyða áhyggjum Rússa af eðli og tilgangi stækkunar bandalagsins. Í því samráði hefur bandalagið bent á að stækkunarferlið sé ekki þess eðlis að sumir hagnist í öryggislegu tilliti á kostnað annarra. Þvert á móti geti öll ríki á svæðinu hagnast á stækkuninni. Hér er mikilvægt að greina á milli stórveldisstolts Rússa og eðlilegra öryggishagsmuna þeirra. Við skiljum óvissu þeirra og viljum skapa stöðugleika við landamæri Rússlands, en við föllumst ekki á að gamaldags stórveldishugsun eigi að hindra nýfrjáls lýðræðisríki í að ákveða fyrirkomulag öryggismála sinna.

Meiri lýðréttindi
Stækkun Atlantshafsbandalagsins skapar stöðugleika í álfunni í heild. Umsóknarríkin tólf hafa lagt sig fram um að uppfylla aðildarskilyrðin um lýðræðislega yfirstjórn herafla, lögbundna stjórnarhætti, þinglega meðferð ákvarðana um öryggis- og varnarmál og góð grannatengsl, svo eitthvað sé nefnt. Fyrir vikið er nú friðvænlegra um að litast í Mið- og Austur-Evrópu, en verið hefur um aldir. Þannig hafa Ungverjar í fyrsta sinn gert samninga við öll fimm nágrannaríki sín, þar sem ungverskur minnihluti býr, sem tryggja þeim lýðréttindi og rétt til að viðhalda menningu sinni og þjóðerni. Þess vegna fagnar Úkraína stækkun Atlantshafsbandalagsins að landamærum sínum, þar sem hún hefur í för með sér að landamæri Úkraínu eru óumdeild í fyrsta sinn í 800 ár.
Á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins í Madrid 8.-9. júlí 1997 var ákveðið að bjóða Póllandi, Ungverjalandi og Tékklandi að hefja aðildarviðræður við bandalagið. Jafnframt var ítrekað að bandalagið yrði áfram opið lýðræðisríkjum í Evrópu sem gætu stuðlað að framkvæmd markmiða Norður-Atlantshafssamningsins óháð landfræðilegri legu. Hvað varðar önnur umsóknarríki var sérstaklega getið þróunar í átt til lýðræðis og réttarríkis í Rúmeníu og Slóveníu og árangurs í eflingu stöðugleika og samvinnu ríkja á Eystrasaltssvæðinu. Þessi ákvörðun var mjög í samræmi við afstöðu Íslands sem sett hafði verið fram á utanríkisráðherrafundi Atlantshafsbandalagsins í Sintra þá um vorið um að bjóða eingöngu þremur ríkjum í þessari stækkunarlotu. Tilvísunin til Eystrasaltsríkjanna var einnig mjög mikill sigur hafandi í huga þann stuðning sem við höfum sýnt aðild þessara ríkja.

Tæki til að tryggja frið
Þrátt fyrir að höfuðhlutverk Atlantshafsbandalagsins sé ennþá að tryggja öryggi aðildarríkjanna er hlutverk þess mjög breytt frá því sem var á tímum kalda stríðsins. Hernaðarmáttur bandalagsins hefur nýst til friðarframkvæmda, þar sem aðrir hafa reynst vanmáttugir. Bandalagið er orðið aðalvettvangur fyrir samvinnuverkefni á sviði öryggismála milli aðildarríkjanna og samstarfsríkjanna, þar á meðal Rússlands. Framtíð bandalagsins sést einna best í því að nýfrjáls ríki Mið- og Austur-Evrópu hafa sóst eftir aðild að því, til að tryggja í sessi fullveldi sitt og sjálfstæði. Borgarar ríkjanna á Balkanskaganum vita að atbeini Atlantshafsbandalagsins stöðvaði valdagíruga stríðsherra í að ráðskast með líf og öryggi íbúa Bosníu og horfa því til bandalagsins þegar erfiðleikar steðja að.

Skrýtin skilaboð
Atlantshafsbandalagið veitir stöðugleika og krefst lýðræðislegra stjórnarhátta. Það er enn sem fyrr boðberi friðsamlegrar samvinnu lýðræðisríkja, vill öflugar varnir en ógnar engum. Það kemur hins vegar ekki á óvart að stjórnmálaflokkur eins og Alþýðubandalagið, sem aldrei hefur viðurkennt þessa staðreynd, eigi erfitt með að viðurkenna rétt ríkja Mið- og Austur-Evrópu til að taka sjálfstæðar ákvarðanir um sína pólitísku framtíð. Alþýðubandalagið hefur um áratugi byggt afstöðu sína til utanríkismála á því að leggja að jöfnu Atlantshafsbandalagið og Varsjárbandalag gömlu Sovétríkjanna, sem tvö jafnill handbendi hernaðarhyggju.
Flestir fyrrum kommúnistaflokkar í Mið- og Austur Evrópu styðja aðild ríkja sinna að Atlantshafsbandalaginu. Um og yfir 80% stuðningur er meðal almennings í ríkjunum fyrir aðild. Vonandi leggst Alþýðubandalagið ekki gegn því að fórnarlömb hnignunar fái að skipa sér á bekk með lýðræðisríkjum Evrópu. Það væru skrýtin skilaboð til nýrrar kynslóðar stjórnmálamanna í austanverðri Evrópu sem sjá möguleika á að draumur þeirra um framfarir og lýðréttindi rætist.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira