Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Afhending mannvirkja á Gufuskálum - ávarp ráðherra

Ávarp Halldórs Ágrímssonar utanríkisráðherra
Afhending mannvirkja á Gufuskálum 21. maí 1998

Það er mér sérstök ánægja að bjóða ykkur öll velkomin til þessar undirskriftar þar sem Landsbjörgu og Slysavarnafélaginu, Þroskahjálp og Ríkisútvarpinu verða afhent öll mannvirki hér á Gufuskálum til umráða.

Þegar ljóst var að Bandaríkjamenn hyggðust hætta rekstri Lóran C stöðvarinnar hér á staðnum kviknaði áhugi meðal sveitastjórnarmanna á utanverðu Nesinu að finna hentugt hlutverk fyrir þann húsakost og þá aðstöðu sem hér er og fljótlega kom fram hugmynd um að nýta mætti aðstöðuna fyrir björgunarskóla. Einnig kom fram hjá Ríkisútvarpinu áhugi á að nýta hið mikla mastur hér fyrir langbylgjusendingar sínar. Í árslok 1995 lýsti RÚV sig reiðubúið til að taka yfir mastrið fyrir langbylgjusendi.

Það verður að segja hverja sögu eins og hún er. Á ýmsu hefur gengið við að gera þessa hugmynd að veruleika frá því að Varnarliðið skilaði utanríkisráðuneytinu mannvirkjum hér í ágústmánuði 1996. Með góðum samstarfsvilja hefur tekist að sætta öll sjónarmið og fundin málamiðlun, sem hentar þeim er hér eiga að starfa. Í góðu samstarfi við Snæfellsbæ hefur tekist að halda mannvirkjunum í allgóðu ástandi, þannig að ný starfsemi getur hafist innan ekki of langs tíma.

En nú er komið að kaflaskilum. Ríkisstjórnin og síðan Alþingi ákvað á sl. ári að leggja sitt af mörkum til að hrinda þessari hugmynd um björgunarskóla í framkvæmd. Það er því nú undir hinum frjálsu félagasamtökum á sviði björgunarmála að ryðja brautina fyrir hinn nýja björgunarskóla.

Möguleikarnir eru miklir hvað varðar þjálfun og fræðslu fyrir okkar eigið björgunarfólk, en ég vil einnig nefna alþjóðlegt samstarf á sviði björgunarmála. Þar er hægt að byggja á þeirri miklu reynslu sem hlaust af björgunaræfingunni Samverði 97, sem haldin var í júlí á síðasta ári.

Það er mín staðfasta trú að við öll eigum eftir að verða stolt af þeirri starfsemi sem fram mun fara hér á Gufuskálum. Það er ánægjulegt til þess að hugsa að á ný mun færast líf í þessi traustu hús, sem hafa þjónað mikilvægu hlutverki fyrir Íslendinga og aðra undanfarna áratugi (frá 1959). Það er þó að nefna að ekki hefur staðurinn verið alfarið lífvana. Ríkisútvarpið hefur þegar hafið rekstur langbylgjusendisins og Þroskahjálp hefur nýtt sér aðstöðu hér fyrir skjólstæðinga sína og það er sérstakt gleðiefni að sú starfsemi mun halda áfram.

Ég vil ekki láta hjá líða að þakka þeim hjónum, Sigurði Steinssyni og Guðrúnu Haraldsdóttur fyrir það mikilvæga starf, sem þau hafa innt hafa hendi við að hafa eftirlit með húsakosti hér. Þau eiga stóran þátt í að sjá til að húsin eru í jafn góðu ástandi sem raun ber vitni.

Ég vil óska Landsbjörgu og Slysavarnarfélaginu velfarnaðar í því merka þjálfunar- og fræðslustarfi, sem þau eru að takast á hendur. Þroskahjálp óska ég alls hins besta í sínu góða starfi hér á þessum fallega stað. Ekki má gleyma þeirri mikilvægu starfsemi sem Ríkisútvarpið stendur fyrir hér á Gufuskálum. Ég vil einnig þakka Landssíma Íslands hf. fyrir hlutverk þeirra í að gera þessa niðurstöðu mögulega.

Að lokum er ég þess fullviss að Snæfellsbær mun leggja þessari starfsemi það lið sem þarf í framtíðinni.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira