Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Ræða ráðherra um utanríkismál á Alþingi

Ræða utanríkisráðherra um utanríkismál á Alþingi

13. apríl 2000

Talað orð gildir


Herra forseti:

Nú eru 60 ár liðin frá stofnun utanríkisþjónustu Íslands. Fyrstu árin voru starfsmenn innan við tuttugu talsins, en með dugnaði tókst þessum frumkvöðlum íslenskra utanríkismála að skapa lýðveldinu verðuga stöðu meðal annarra þjóða. Segja má að á þessum árum hafi hver starfsmaður unnið á við marga menn eins og títt er um Íslendinga.
Á þessum 60 árum hefur umfang utanríkismála vaxið gríðarlega, hvort sem litið er til öryggis- og umhverfismála, efnahags- eða menningarmála. Sem aldrei fyrr er það lífsnauðsynlegt lítilli þjóð að halda vel á málum sínum til að sækja fram með hagsmuni sína og hugsjónir. Aðrar þjóðir undrast hvernig fámennt land eins og Ísland getur tekið þátt í og mótað starf alþjóðastofnana og starfað á jafnréttisgrundvelli með stórþjóðum.
Síðustu ár hefur verið unnið að því að færa utanríkisþjónustuna að nútímanum. Verið er að setja upp tölvuvætt málaskrárkerfi í öllum sendiráðum og fastanefndum. Markmiðið er að taka upp pappírslaus samskipti í utanríkisþjónustunni og nýta tölvutæknina til hins ítrasta. Má leiða að því líkum að utanríkisþjónustan sé í fararbroddi á heimsvísu á þessu sviði upplýsingatækninnar. Sífellt er unnið að því að hagræða í rekstri utanríkisþjónustunnar. Einn þáttur í því hefur verið samstarf við önnur Norðurlönd í rekstri sendiskrifstofa. Síðast en ekki síst leitast utanríkisráðuneytið við að auka sérhæfingu starfsmanna, t.d. í viðskiptaþjónustu, og beita stjórnunaraðferðum sem nýst hafa vel í viðskiptalífinu, til að gera starf okkar að utanríkismálum skilvirkara. Með nýjum stjórnunarháttum er reynt að tryggja að utanríkisþjónustan styrkist um leið og hún stækkar.
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að opna tvö ný sendiráð á næsta ári, í Tokyo og Ottawa. Markmiðið með þessari opnun er að treysta enn betur stjórnmálatengsl við þessar mikilvægu þjóðir, að greiða fyrir og efla viðskiptasambönd íslenskra fyrirtækja í þessum ríkjum og auka menningartengsl við þau, ekki síst við Vestur-Íslendinga í Kanada í kjölfar landafundaverkefnisins. Reynslan sýnir að opnun sendiráða hefur reynst happadrjúg leið til að örva utanríkisviðskipti, um leið og stjórnmálasamband og menningartengsl eru treyst. Þá er stefnt að því að opnuð verði á næsta ári íslensk sendiskrifstofa í húsnæði sendiráða Danmerkur og Noregs í Mósambík, í því skyni m.a. að sinna þróunarmálum og efla pólitísk samskipti við samstarfsríki í Afríku. Með því stækkar enn samskiptanet Íslands við umheiminn sem þá nær yfir 15 lönd í fjórum heimsálfum, Evrópu, N-Ameríku, Asíu og Afríku.
En um leið og nauðsynlegt er að fjölga sendiskrifstofum til að mæta breyttum og krefjandi aðstæðum í alþjóðamálum, er jafnframt mikilvægt að hlúa að starfsemi þeirra sendiráða sem fyrir eru, sem mörg hver eru rekin með lágmarksfjölda starfsmanna. Þannig má nýta betur þá möguleika sem liggja í sendiskrifstofum erlendis.

Menningarmál
Fátt eykur skilning á milli þjóða jafnmikið og gagnkvæm kynni af menningu og háttum. Í skýrslu minni sem hér liggur fyrir, er greint frá því hvernig sendiráð okkar sinna þessum málum í samræmi við lög um hlutverk utanríkisþjónustunnar. Verulegur árangur hefur náðst og hefur utanríkisþjónustan ýmist haft forgöngu eða lagt hönd á plóginn í nánu samstarfi við menntamálaráðuneytið, opinberar stofnanir eða hagsmunaaðila í viðskiptum og ferðaþjónustu.
Þrátt fyrir fjárhagslega annmarka sýna margar sendiskrifstofur lofsvert frumkvæði á þessu sviði og standa reglulega að fjölbreyttri menningardagskrá í gisti- og umdæmisríkjum sínum í samstarfi við hagsmunaaðila og velunnara Íslands.

Evrópusamstarfið
Ég hef að þessu sinni lagt fram tvær skýrslur fyrir Alþingi, annars vegar yfirlitsskýrslu um alþjóðamál og hinsvegar skýrslu um stöðu Íslands í Evrópusamstarfi. Samkomulag er um að ræða sérstaklega skýrsluna um alþjóðamál í dag en að sérstök umræða um Evrópuskýrsluna eigi sér stað síðar, enda um mikilvægan málaflokk að ræða. Málaflokk sem nauðsynlegt er að gefa sérstakan gaum hér á Alþingi í ljósi hinna miklu breytinga sem eru að eiga sér stað í álfunni og áhrif þeirra á samstarf okkar innan EES- samningsins og við ESB.
Það er von mín að þessi skýrsla sé traustur grunnur að umræðu um samstarf okkar við Evrópusambandið og aðildarríki þess. Þó svo að flestir séu sammála um að EES samstarfið hafi gengið ágætlega, þurfa stjórnvöld að vera undir það búin að forsendur samstarfsins breytist. Vandasamar ákvarðanir geta því verið framundan. Því er afar mikilvægt að fyrir liggi raunhæft mat á valkostum okkar í evrópsku samstarfi.

Evrópusamstarf í öryggis- og varnarmálum
Aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu og varnarsamningurinn við Bandaríkin, hafa síðastliðin fimmtíu ár verið hornsteinn íslenskrar öryggis- og varnarmálastefnu. Ég tel mikilvægt að tryggja að svo verði áfram m.a. með virkri þátttöku utanríkisþjónustunnar í þeirri öru þróun í öryggis- og varnarmálum sem nú á sér stað. Ljóst er að í kjölfar umræðna um öryggismál á vettvangi Evrópusambandsins ríkir nú einhugur meðal Evrópuríkja um að taka á sig aukna ábyrgð í öryggis- og varnamálum álfunnar. Undanfarin misseri hafa íslensk stjórnvöld fylgst grannt með þróun Evrópusamstarfs á þessu sviði og tekið virkan þátt í umræðum og ákvarðanatöku um málið bæði á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og Vestur-Evrópusambandsins.
Sú skoðun virðist hafa orðið ríkjandi meðal aðildarríkja Evrópusambandsins undanfarna mánuði að skilgreina beri þróun Evrópusamstarfs á sviði öryggis- og varnarmála fyrst og fremst á grundvelli aðildar að Evrópusambandinu. Þann 1. mars síðastliðinn voru settar á stofn bráðabirgðastofnanir á sviði öryggis- og varnarmála innan sambandsins sem vinna eiga að undirbúningi hættuástandsaðgerða af þess hálfu. Aðildarríkin vinna nú að því að að koma upp samræmdum liðsafla með það að markmiði að geta stillt til friðar í álfunni með stuttum fyrirvara.
Íslensk stjórnvöld hafa staðið heilshugar að baki Evrópusamstarfi í öryggis- og varnarmálum með þeim fyrirvara þó:
- að þróunin verði ekki skilgreind á þröngum grunni ESB aðildar
- að tryggt verði að þessi þróun veiki ekki með nokkrum hætti Atlantshafsbandalagið og tengslin yfir Atlantshafið og síðast en ekki síst
- að þeim sex evrópsku aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins, sem standa utan ESB, og tóku þátt í að móta hugmyndir um aukna Evrópusamvinnu á sviði öryggis- og varnarmála á leiðtogafundi Atlantshafsbandalagsins fyrir tæpu ári, sé gert kleift að taka fullan þátt í mótun ákvarðana og verði reglulegir þátttakendur innan stofnana ESB á sviði öryggis- og varnarmála.
Ríkisstjórnin hefur markvisst beitt sér í þessu máli gagnvart aðildarríkjum ESB innan Atlantshafsbandalagsins. Nú síðast tók ég málið upp í tvíhliða viðræðum mínum við Robin Cook utanríkisráðherra Bretlands í febrúar s.l. og forsætisráðherra tók það upp í dag við kanslara Þýskalands Gerhardt Schröder.
Íslensk stjórnvöld líta svo á að Atlantshafsbandalagið eigi áfram að vera burðarás öryggis- og varna á hinu svokallaða Evró-Atlantshafssvæði. Það er ljóst að fyrst um sinn mun það reynast ESB erfitt að ráðast í hættuástandsaðgerðir nema með tilstyrk Atlantshafsbandalagsins. Því er mikilvægt að komið verði á formlegum samskiptum milli ESB og Atlantshafsbandalagsins eins fljótt og auðið er. Við höfum lagt á það áherslu í málflutningi okkar, bæði innan Atlantshafsbandalagsins og Vestur-Evrópusambandsins - svo og í samtölum við forystumenn ESB ríkjanna, að ekki verði hægt að taka ákvörðun um lán á búnaði og hertækni bandalagsins til ESB nema að lausn hafi fundist á þátttöku evrópsku NATO-ríkjanna sex, sem standa utan ESB, í öryggis- og varnarmálastofnunum ESB. Það er brýnt að niðurstaða náist í þessum málum hið fyrsta og er það von mín að fundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins í lok maí nk. og leiðtogafundur ESB í Feira ryðji brautina í þessum efnum.

Evrópuráðið
Ísland gegndi formennsku í ráðherranefnd Evrópuráðsins frá maí til nóvember 1999 og kom það í hlut okkar að vera í pólitísku fyrirsvari fyrir hönd ráðsins varðandi aðildarumsóknir nýrra ríkja og gagnvart öðrum alþjóðastofnunum.
Á meðal áhersluatriða í formennskutíð okkar var aukin samvinna og samráð Evrópuráðsins við Evrópusambandið og Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu. Sérstök áhersla var lögð á að efla og samhæfa starf stofnananna, auka skilvirkni og koma í veg fyrir tvíverknað. Annað áhersluatriði voru auknar fjárveitingar til mannréttindadómstóls Evrópu.
Í formennskutíð Íslands náðist samkomulag um hlutverk Evrópuráðsins í uppbyggingarstarfinu í Kósóvó. Framlag þess mun að miklu leyti felast í aðstoð við að semja lög og þjálfa embættismenn og dómara. Evrópuráðið hefur opnað skrifstofu í Pristínu í Kósóvó sem utanríkisráðuneytið hefur lagt til 1,1 milljón kr. á þessu ári.
Störf þingmannasamkomu Evrópuráðsins verða sífellt meira áberandi í starfsemi þess. Hún hefur á undanförnum árum gegnt lykilhlutverki í stækkun Evrópuráðsins og hefur sett nýjum ríkjum ströng skilyrði um lýðræði, mannréttindi og reglur réttarríkisins og haft eftirlit með að þeim sé framfylgt. Íslandsdeild þingmannasamkomu Evrópuráðsins hefur verið virk í starfi sínu og er þátttaka alþingismanna í starfinu afar þýðingarmikil eins og öðru alþjóðastarfi.
Stærsta mál nýafstaðins fundar þingmannasamkomunnar voru tilmæli hennar til ráðherranefndarinnar um brottvikningu Rússa úr Evrópuráðinu ef þeir kæmu ekki þegar á vopnahléi og hæfu samningaviðræður við skæruliða í Tsjetsjníu. Atkvæðisréttur Rússlandsdeildarinnar á þingmannasamkomunni var afnuminn. Í þessu felast skilaboð um að virða reglur ráðsins um mannréttindi og lýðræði. Tilmæli um brottvikningu Úkraínu úr Evrópuráðinu voru einnig samþykkt í ljósi tilskipunar Leonid Kuchma forseta Úkraínu um þjóðaratkvæðagreiðslu í landinu um breytingar á stjórnskipun Úkraínu, sem hefðu í för með sér aukin völd forsetans.
Tilmæli þingmannasamkomunnar um brottvikningu Rússa komu ekki á óvart. Rússar höfðu áður fengið aðvaranir. Innan Evrópuráðsins og á fundi mínum með varautanríkisráðherra Rússlands lagði ég áherslu á að fundin verði friðsamleg lausn á átökunum í Tsjetsjníu.
Tilmæli þingmannanefndarinnar um brottvikningu Rússa koma til kasta ráðherranefndar Evrópuráðsins á næstu mánuðum og utanríkisráðherrafundar Evrópuráðsins í byrjun maí. Á þeim tíma er nauðsynlegt að reyna að efla enn frekar samvinnu og samráð við Rússa um pólitíska lausn á átökunum í Tsjetsjníu. Samráðsfundur utanríkisráðherra Rússlands og núverandi formanns ráðherranefndar Evrópuráðsins, utanríkisráðherra Írlands, var haldinn sl. mánudag vegna Tsjetsjníu. Á fundinum áréttaði rússneski utanríkisráðherrann að Rússar hyggðust vinna með Evrópuráðinu að lausn málsins og að gripið yrði til aðgerða til að finna pólitíska lausn. Mikilvægt er að Rússland haldi áfram að starfa á vettvangi ráðsins.

Ástandið á Vestur-Balkanskaga - Kósóvó
Þrátt fyrir mikið og gott uppbyggingarstarf á Vestur-Balkanskaga, sérstaklega í Kósóvó, er enn langt í land með að ástandið geti talist eðilegt og íbúar héraðsins öruggir. Talið er að um 1. 3 milljónir flóttamanna hafi nú snúið aftur til Kósóvó en samkvæmt óopinberum tölum frá Sameinuðu þjóðunum er enn um 13.000 manns saknað frá héraðinu. Til Íslands komu 77 flóttamenn en 37 hafa snúið heim.
Ekki hefur tekist að draga nægilega úr glæpastarfsemi af ýmsu tagi. Skærur milli þjóðarbrotanna halda áfram, og óstöðugleiki hefur verið viðvarandi á afmörkuðum svæðum. Fullyrða má að alþjóða- og svæðisbundnar stofnanir hafa lyft Grettistaki og ber að þakka það mikla og fórnfúsa starf sem allt það fólk hefur unnið undanfarna mánuði. Atlantshafsbandalagið sem er með yfir 40.000 manna friðargæslulið í héraðinu hefur ásamt Sameinuðu þjóðunum verið þar í fararbroddi, í samvinnu við ýmsar aðrar alþjóðastofnanir og óopinber samtök. Árangurinn talar fyrir sig sjálfur: Morðum hefur fækkað úr 50 í 5 á viku, vel á fjórða þúsund smávopna hafa verið gerð upptæk, frelsisher Kósóvó Albana (KLA) hefur afvopnast og í stað hans hafa verið stofnaðar sérstakar verndarsveitir. Uppbyggingarstarfinu í héraðinu miðar vel áfram og borgaralegar stofnanir og fyrirtæki eru smám saman að taka til starfa á ný. En betur má ef duga skal. Forsenda þess að raunverulegur pólitískur árangur náist er að þjóðarbrotin í héraðinu taki höndum saman og vinni í sátt að uppbyggingu pólitískra stofnana og samfélagsins í heild í samvinnu við það alþjóðastarfslið sem þar starfar.

Samstarf Rússlands og NATO
Undanfarnar vikur hafa samskipti Atlantshafsbandalagsins og Rússlands farið batnandi á ný, en í kjölfar aðgerða bandalagsins í Kósóvó kusu rússnesk stjórnvöld að draga verulega úr samskiptum við bandalagið. Fundir í samstarfsráði Rússlands og NATO eru nú haldnir á ný í höfuðstöðvum bandalagsins og ekki er útilokað að utanríkisráðherra Rússlands þiggi boð um að koma á fund í Samstarfsráðinu í tengslum við utanríkisráðherrafund bandalagsins í lok maí nk. Ísland hefur lagt á það áherslu að bandalagið bæti tengslin við stjórnvöld í Rússlandi. Ljóst er að það verður eitt af megin markmiðum bandalagsins á komandi ári að vinna enn frekar að því að svo megi verða. Til að leggja sitt af mörkum hefur utanríkisráðuneytið boðið háttsettum rússneskum aðilum til þátttöku í SACLANT málþingi um alþjóðleg öryggis- og varnarmál sem haldið verður í Reykjavík í byrjun september nk. Einnig hafa Rússar ákveðið að taka þátt í Samvarðaræfingunni hér á landi í júní nk.

Varnarsamstarf
Þrátt fyrir mikil umskipti í öryggisumhverfi okkar heimshluta undanfarinn áratug þá hefur hvorki þýðing Íslands í samstarfinu breyst né heldur mikilvægi Atlantshafstengslanna fyrir sameiginlega öryggishagsmuni Evrópu og Norður-Ameríku.
Verulegur niðurskurður hefur átt sér stað á varnarviðbúnaði landsins á þessum áratug í samræmi við hið breytta öryggisumhverfi. Engar breytingar eru gerðar á varnarviðbúnaðinum án samráðs við ríkisstjórn Íslands. Samkvæmt bókuninni frá 1996 geta samningsaðilar óskað eftir því að hún verði endurskoðuð að fjórum árum liðnum frá undirritun og skal þá kappkostað að hefja viðræður innan fjögurra mánaða frá því að slík beiðni er lögð fram.
Það hefur verið stefna íslenskra stjórnvalda undanfarin ár að auka hlut okkar á sviði tvíhliða varnarsamstarfs við Bandaríkin og á sviði fjölþjóðlegs varnarsamstarfs við þau ríki sem eiga aðild að Samstarfi í þágu friðar. Eins og áður hefur komið fram tóku utanríkisráðuneytið, Landhelgisgæslan og sérsveit Ríkislögreglustjóra virkan þátt í Norðurvíkingi 99. Jafnframt er í undirbúningi smíði 3000 tonna varðskips, sem verður búið þeim tækjakosti að það geti tekið þátt í sameiginlegum æfingum með varnarliðinu á sviði björgunar og sjóferðaeftirlits. Rétt er að geta þess að í starfsemi Ratsjárstofnunar felst einnig veigamikið framlag Íslands til eigin varna. Hún felur í sér rekstur og viðhald tiltekinna grunnþátta varnarvirkja landsins, þ.á.m. starfsemi ratsjárstöðvanna á Miðnesheiði, Stokksnesi, Gunnólfsvíkurfjalli og Bolafjalli.
Almannavarnaræfingin Samvörður, sem fyrst var haldin hér á landi 1997, fer fram undir merkjum Samstarfs í þágu friðar. Markmið friðarsamstarfsæfinga er að efla samvinnu og samhæfa aðgerðir ríkja Atlantshafsbandalagsins og samstarfsríkja þess, s.s. á sviði friðargæslu og viðbragða við náttúruhamförum. Samvörður 2000 fer fram dagana 7.-12. júní. Atburðarásin snýst að þessu sinni um björgun í hafsnauð.
Þess ber einnig að geta að dagana 6.-7. september nk. verður haldið málþing í Reykjavík á vegum Atlantshafsherstjórnar Atlantshafsbandalagsins og utanríkisráðuneytisins. Málþinginu er ætlað að mynda vettvang fyrir skoðanaskipti fræðimanna, herforingja, fulltrúa stjórnvalda og alþjóðasamtaka frá Bandaríkjunum, Evrópu og Rússlandi um Atlantshafstengslin, öryggi norðurvængs Atlantshafsbandalagsins og önnur mál er snerta öryggi Evrópu.

Öryggisráð S.þ.
Nýbúið er að tilkynna um framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna fyrir tímabilið 2009-2010. Kosningar fara fram árið 2008. Þetta er í fyrsta skiptið sem Ísland sækist eftir setu í ráðinu og endurspeglar framboðið stefnu stjórnvalda að láta meira að sér kveða á alþjóðavettvangi. Samningaviðræður um endurskipulagningu ráðsins hafa staðið yfir í nokkur ár án árangurs en meðal annars hefur verið deilt um hversu mörg ríki eigi að sitja í ráðinu. Ákveðin tímamót áttu sér stað nýlega þegar Bandaríkin létu af andstöðu sinni við að fjölga sætum fram yfir 20-21. Verði þetta til þess að samkomulag náist um fjölda sæta gæti það flýtt fyrir framboði Íslands. Utanríkisráðuneytið er að hefja undirbúning að framboðinu og er m.a. gert ráð fyrir að fjölga í starfsliði okkar í New York á næsta ári.

Friðargæsla
Eitt aðalhlutverk Sameinuðu þjóðanna er að stuðla að heimsfriði og öryggi. Friðargæslan er eitt af þeim úrræðum sem öryggisráðið hefur yfir að ráða til að framfylgja þessu hlutverki. Þegar utanríkisþjónustan hélt upp á 60 ára afmæli sitt fyrr í þessari viku var vakin athygli á því að liðin eru 50 ár frá því að fyrstu íslensku friðargæsluliðarnir fóru til starfa fyrir Sameinuðu þjóðirnar í Palestínu. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og á undanförnum árum hefur verið markvisst unnið að því að auka hlut Íslands í friðargæslu og því enduruppbyggingarstarfi sem fram fer henni samhliða. Nú starfa ellefu Íslendingar við slík störf á Balkanskaga. Búast má við fjölgun á næstunni á grundvelli nýgerðs samnings við Breta um samstarf ríkjanna í friðargæslu, ekki eingöngu í Bosníu heldur einnig í Kósóvó. Í framtíðinni þarf að huga að enn frekari þátttöku í friðargæslu á vegum Sameinuðu þjóðanna, ekki síst utan Evrópu.
Slíkt starf er til þess fallið að auka virðingu og áhrif Íslands á alþjóðavettvangi. Aðalatriðið er þó að mikil þörf er á sérþjálfuðu liði og hafa íslenskir löggæslumenn og fólk úr heilbrigðisstéttunum reynst afar vel í þessu starfi.

Mannréttindi
Efling mannréttinda og barátta gegn mannréttindabrotum eru órjúfanlegur hluti af starfi Sameinuðu þjóðanna í þágu friðar og öryggis. Við höfum lagt áherslu á réttindi kvenna og barna og hefur þeirri áherslu meðal annars verið komið á framfæri með málflutningi á vettvangi allsherjarþingsins og mannréttindaráðs Sameinuðu þjóðanna. Einnig hefur þátttaka í enduruppbyggingu á Balkanskaga tekið mið af mikilvægi mannréttinda kvenna og hafa íslensk stjórnvöld styrkt byggingu kvennahúss í Sarajevo og kostað íslenskan starfsmann til UNIFEM í Kosovo. Við höfum tekið virkan þátt í undirbúningi að aukaallsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna sem haldið verður í New York í júní um eftirfylgni kvennaráðstefnunnar sem haldin var í Beijing 1995. Utanríkisráðuneytið hyggst standa fyrir fundahöldum hér á landi af þessu tilefni til að stuðla að frekari umræðu um málefni kvenna hér á landi.
Þróunarmál
Átak Alþjóðabankans um eftirgjöf skulda fátækustu ríkja heims, svokallað HIPC átak, er ekki eins langt komið og áætlað var á aðalfundi bankans í haust. Er þar einkum um að kenna seinagangi nokkurra iðnríkja, m.a. Bandaríkjamanna, sem ekki hafa fengið fulltrúadeild þingsins til að samþykkja fjárveitingar vegna átaksins. Hlutur Íslands í þessu átaki verður um 200 milljónir króna á næstu þremur árum.
Þrátt fyrir tafir eru miklar vonir bundnar við átakið og að framlög skili sér frá þeim iðnríkjum sem fyrirheit hafa gefið. Eftirgjöf erlendra skulda á að virka sem vítamínsprauta á efnahagslíf stórskuldugra ríkja. Eftirgjöfin ein dugir þó skammt. Stjórnvöld viðkomandi landa verða að gera ráðstafanir til að svigrúmið, sem minnkandi útgjöld ríkisins skapar, nýtist þeim sem mest þurfa á því að halda. Öðru vísi verður varanlegur vítahringur nýrrar lántöku, lakari lánskjara og síhækkandi afborgana ekki rofinn. Þess vegna eru settar fram ákveðnar kröfur um að þau ríki sem þiggja aðstoð úr sjóðum HIPC átaksins uppfylli skilyrði um stjórnarfar og félagslegar umbætur.
Mósambík, eitt samstarfslanda ÞSSÍ, varð illa fyrir barðinu á flóðunum sem gengu yfir sunnanverða Afríku nýlega. ÞSSÍ og Rauði kross Íslands, sem bæði eru með verkefni í landinu, urðu fyrst allra hjálparstofnana til að skipuleggja aðgerðir til hjálpar fórnarlömbum flóðanna. FENGUR, skip ÞSSÍ, sem var við hafrannsóknir við strendur Mósambík hefur verið notaður til að flytja hjálpargögn til einangraðra strandsvæða í samvinnu við Sameinuðu þjóðirnar og stjórnvöld í landinu.
Þróunarsamvinnustofnun hefur nýlega ákveðið að hefja samstarf við Úganda. Það er mögulegt bæði vegna aukinna fjárframlaga til stofnunarinnar og starfsloka á Grænhöfðaeyjum. Úganda er eitt fátækasta land í heimi og er stjórnarfar nokkuð stöðugt. Stjórnvöld Úganda hafa leitað eftir aðstoð Íslendinga við gæðaeftirlit á fiskafurðum en auk verkefna í fiskimálum er fyrirhugað að stofnunin taki að sér störf í heilsugæslu og menntunarmálum.

Nýr samráðsvettvangur
Á allsherjarþinginu síðastliðið haust var samþykkt ályktun um nýjan samráðsvettvang um málefni hafsins en ætlunin er að efna til vikufundar árlega. Markmiðið er að fjalla um skýrslu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna um málefni hafsins í þeim tilgangi að benda á einstök atriði sem gefa þarf sérstakan gaum í ályktunum allsherjarþingsins og sem stuðlað geta að betri samræmingu milli ríkja og stofnana S.þ. Fyrsti fundur þessa nýja vettvangs verður í maí næstkomandi. Rík áhersla verður lögð á virka og öfluga þátttöku af hálfu Íslands í starfi þessu frá upphafi til að hafa mótandi áhrif í þágu íslenskra hagsmuna. Þegar hr. Nitin Desai, aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna á sviði efnahags- og félagsmála var hér í heimsókn nýlega, ræddum við þessi mál ítarlega. Væntum við mikils og góðs samstarfs við skrifstofu hans á þessum vettvangi.

FAO
Mikilvægasta og metnaðarfyllsta verkefni FAO á næstu árum á rætur að rekja til leiðtogafundarins árið 1996, en þar settu aðildarríkin sér það markmið að fækka hungruðum í heiminum um helming fyrir 2015. Af verkefnum sem tengjast Íslandi beint ber hæst undirbúning fiskveiðiráðstefnu á Íslandi haustið 2001 undir heitinu "Ábyrgar fiskveiðar í vistkerfinu". Umsjón með ráðstefnunni hefur FAO-nefndin. Stefnt er að því að ráðstefnan verði þýðingarmikill liður í að ná alþjóðlegri samstöðu um nýtingu þessa stærsta fæðubúrs heims.

Norðurlandasamstarf
Samstarf og samráð í utanríkismálum við önnur Norðurlönd hefur frá upphafi verið einn hornsteina íslenskrar utanríkisstefnu. Árið 1999 fór Ísland með formennsku í Norðurlandasamvinnunni. Utanríkisráðherrafundir Norðurlanda eru tveir á ári og voru þeir báðir haldnir hér á landi á síðasta ári. Samnorræn sendiráðsbygging í Berlín var opnuð 20. október 1999. Náið samstarf Norðurlanda er innan alþjóðastofnana t.d. ÖSE, Evrópuráðsins, Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, Alþjóðabankans og OECD. Í öllum borgum þar sem íslensk sendiráð og fastanefndir eru til staðar taka íslenskir sendierindrekar þátt í norrænum samráðsfundum og eru þeir utanríkisþjónustunni ómetanlegir.

ÖSE
Í framhaldi af stofnun fastanefndar Íslands hjá ÖSE í fyrra hefur þátttaka í starfsemi stofnunarinnar verið styrkt. Á leiðtogafundi ÖSE í Istanbúl í vetur var grunnurinn að samstarfinu innan ÖSE treystur enn frekar með samþykkt Öryggissáttmála Evrópu og með öðrum ákvörðunum sem sérstaklega var ætlað að efla stofnunina í þeirri viðleitni að koma í veg fyrir vopnuð átök. Á vegum ÖSE starfa 19 sendinefndir og skrifstofur í aðildarríkjum sem vinna að þessum málum.
Hernaðaraðgerðir Rússa í Tsjetsjníu hafa einnig vakið viðbrögð aðildarríkja ÖSE þar sem gagnrýnin hefur aðallega beinst að brotum Rússa á skuldbindingum sínum samkvæmt samningnum um hefðbundinn vígbúnað í Evrópu.


EFTA
Með aðildinni að EFTA árið 1970 urðu þáttaskil í samskiptum við Evrópu. Með aðildinni varð Ísland fullgildur þátttakandi í fríverslunarsamtökum og tókumst við á hendur í fyrsta sinn skuldbindingar um fríverslun með iðnaðarvörur. Á þessu ári fagnar EFTA 40 ára afmæli og við 30 ára aðild að samtökunum. Þrátt fyrir að margt hafi breyst í alþjóðlegu umhverfi á þessum 30 árum, m.a. með tilkomu EES-samningsins, gegnir EFTA enn mikilvægu hlutverki fyrir okkar hönd. EFTA skrifstofan á stóran þátt í rekstri EES-samningsins og hafa EFTA ríkin sameinast um gerð fríverslunarsamninga við 14 ríki og eru fleiri samningar í farvatninu. Mikilvægastur þeirra er væntanlegur samningur við Kanada. EFTA ríkin viðurkenna að fríverslun skuli gilda um sjávarafurðir og hafa haldið þeirri kröfu á lofti í öllum viðræðum um gerð fríverslunarsamninga. Það hefur verið ómetanlegur stuðningur fyrir málstað Íslands og stuðlað að þeim greiða aðgangi sem sjávarafurðir hafa að erlendum mörkuðum í dag.

Viðskiptaþjónustan
Hvaðanæva berast okkur þau boð utan úr heimi að mikill áhugi sé á íslenskri menningu, hönnun og hugviti. Í nýlegri skýrslu sendiherra Íslands í London er m.a. haft eftir norrænum menningarfulltrúa þar í borg að Ísland hafi á undanförum árum hlotið meiri umfjöllun fjölmiðla en öll hin Norðurlöndin samanlagt. Athygli sem þessi er vandmeðfarin. Fyrirtæki leggja jafnan mikið upp úr ímynd sinni og telja hana til sinna mestu verðmæta ekki síst á alþjóðamarkaði. Við þurfum að leggja rækt við ímynd Íslands. Athyglin skapar okkur sóknarfæri í viðskiptum sem okkur ber að fylgja eftir.
Viðskiptafulltrúar okkar merkja nú, sem aldrei fyrr, áhuga á fjölbreyttari vörum og þjónustu frá Íslandi.
Í ljósi góðrar reynslu af samstarfsverkefni utanríkisþjónustunnar, samgönguráðuneytisins og íslenskra fyrirtækja í Bandaríkjunum undir merkjum Iceland Naturally hefur verið stigið fyrsta skref í átt að samræmdri ímynd landsins og kemur til álita að taka upp svipuð vinnubrögð t.d. í Frakklandi, Bretlandi og Þýskalandi.
Í könnun sem gerð var meðal neytenda í Bandaríkjunum fyrir nokkru kom m.a. fram að það sem ferðamenn sæktust fyrst og fremst eftir þegar þeir velja sér áfangastað væri "menning". Af því sést að í menningu eru viðskiptaleg verðmæti. Innan þessa hugtaks rúmast nánast allt það sem einkennt getur eina þjóð; útlit, arfleifð, sköpunarkraftur, hugmyndaauðgi, áræði, framsækni og dugnaður. Úr flestu sem tengist menningu má gera arðvænlega útflutningsvöru og með sterkri ímynd greiðum við fyrirtækjum okkar leið inn á nýja markaði. Ég mun halda áfram að beita mér fyrir því að styðja þessa viðleitni með liðsstyrk viðskiptaþjónustunnar og sendiráða okkar víða um heim.
Stofnun viðskiptaþjónustunnar var svar okkar við alþjóðavæðingu atvinnulífsins og þeirri þróun sem var fyrirsjáanleg fyrir þremur árum. Ég tel að framtíðarsýnin hafi verið rétt og mun leggja áherslu á að efla þessa þjónustu. Hún á að vera öldubrjótur fyrirtækja í alþjóðlegum viðskiptum og mótandi afl í ímyndaruppbyggingu landsins til aukins ábata fyrir Ísland framtíðarinnar.

Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO)
Á fundi alþjóðaviðskiptastofnunarinnar í Seattle átti að ýta nýrri lotu viðræðna um heimviðskipti úr vör. Það mistókst af ýmsum ástæðum. Hlé var gert á fundum og var framkvæmdastjóra stofnunarinnar falið að leita leiða til að koma viðræðunum af stað á ný. Meginverkefni stofnunarinnar á næstunni verður því að freista þess að ná samstöðu um að víðtækari lotu verði ýtt úr vör sem fyrst.
Ákvarðanir á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar eru teknar samhljóða. Ísland getur því haft umtalsverð áhrif á ákvarðanir óháð stærð þjóðarinnar. Við höfum lagt fram tillögu um að settar verði reglur sem banni beitingu ríkisstyrkja í sjávarútvegi sem skaða umhverfið og hefta viðskipti. Tillagan nýtur víðtæks stuðnings og er vonast til að málflutningur okkar leiði til þess að á komandi árum verði settar alþjóðlegar reglur sem takmarki beitingu slíkra styrkja.
Kínverjar stefna á aðild að Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Þeir hafa lokið viðræðum við 21 aðildarríki, þ.m.t. Ísland og Bandaríkin. Viðræður við ESB og fleiri aðildarríki standa nú yfir. Samkomulagið sem Ísland hefur gert við Kína felur í sér að Kínverjar lækka tolla á sjávarafurðum og iðnaðarvörum sem við seljum til Kína úr 25 - 30% niður í 10 - 15%. Tollalækkanirnar koma að fullu til framkvæmda á árunum 2001 - 2005.

Lokaorð
Allt bendir til þess að flest þau skref sem við Íslendingar höfum stigið í utanríkismálum á undanförnum áratugum hafi orðið þjóðinni til heilla. Um marga áfanga hefur verið deilt. Umræðan hefur verið málefnaleg en oft á tíðum tilfinningaþrungin þegar mikilvægustu ákvarðanir í utanríkismálum þjóðarinnar hafa verið teknar.
Ég sat í ríkisstjórn sem tók ákvörðun um að freista þess að ná samningum um hið Evrópska efnahagssvæði. Í stjórnarandstöðu gagnrýndi ég ýmis efnisatriði samningsins og taldi niðurstöðuna um margt gallaða. Ég gerði mér fulla grein fyrir mikilvægi samningsins en vildi sjá betri niðurstöðu fyrir okkar hönd. Ég benti á takmarkanir á fríverslun með sjávarafurðir, takmörkuð áhrif og fleira mætti tína til. Samningurinn var staðfestur með þeim kostum og göllum sem fylgja allri samningagerð og hann er mikilvæg undirstaða í dag.
Það þýðir ekki að líta um of til baka í þessu máli frekar en öðrum. Við verðum að taka mið af líklegri framtíðarþróun og stöðu okkar í dag. Eitt er víst, að mikil þróun á sér stað og breytingarnar hafa mikil áhrif á hag landsmanna. Við þessar aðstæður verðum við að halda áfram að efla íslenska utanríkisþjónustu. Erlend samskipti og alþjóðamál eru sívaxandi þáttur í starfsemi ráðuneyta, Alþingis, ýmissa stofnanna, sveitarfélaga, fyrirtækja og flestir Íslendingar finna meiri samkennd og nálægð með öðrum þjóðum en nokkru sinni fyrr. Á breyttum tímum í alþjóðamálum þarf nýja hugsun. Við þurfum að skilgreina stöðu okkar af vandvirkni og framsýni. Fyrir litla þjóð er mikilvægt að leggja rækt við þá vináttu og þann velvilja sem við njótum í samfélagi þjóðanna. Þar standa Norðurlöndin og hinar Engilsaxnesku þjóðir okkur næst. Samstarfið við þessar þjóðir hefur átt ríkan þátt í að skipa Íslandi veglegan sess sem sjálfstæðri og fullvalda þjóð.
Áframhaldandi farsæld í landinu byggist ekki síst á því að við finnum okkur það samstarfsform við þjóðir Evrópu sem tryggir dugnaði, þekkingu og menningu Íslendinga þann farveg að framtíðarkynslóðir fái notið sín í því alþjóðasamfélagi sem hvarvetna blasir við.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira