Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Opið samfélag á nýrri öld - Ræða ráðherra í Bústaðarkirkju

Opið samfélag á nýrri öld.


I.
Á þessum fyrsta degi nýrrar aldar höfum við ástæðu til að gleðjast. Gleðjast yfir því hve vel íslenskri þjóð hefur vegnað, gleðjast yfir þeim góða grundvelli sem við eigum til að tryggja okkur bjarta framtíð og lífshamingju.
Enn sem fyrr er það allt undir okkur sjálfum komið. Við horfum framan í þann veruleika á þessum nýársdegi með sama hætti og Íslendingar gerðu á nýársdegi í upphafi 20. aldarinnar. Í reynd er það sú sama staðreynd sem blasir við okkur alla daga.
En hefur þá ekkert breyst. Hefur ekkert breyst frá því að Einar Benediktsson kvað fyrir 100 árum í aldamótaljóðum sínum:

"Að elska, að finna æðanna slag,
að æskunni í sálunni hlúa,
það bætir oss meinin, svo heimurinn hlær,
svo höllinni bjartar skín kotungsins bær.
Sjálft hugvitið, þekkingin hjaðnar sem blekking,
sé hjarta ei með, sem undir slær.
Hver þjóð, sem í gæfu og gengi vill búa,
á guð sinn og land sitt skal trúa".

Þessi meitluðu orð eru jafngild á þessum fagra degi og fyrir 100 árum síðan, en þjóðin hefur tekið meiri breytingum en nokkur gat spáð fyrir. En hversvegna hefur okkur gengið vel og hvað er það sem fær okkur til að gleðjast á þessum degi? Það er það sama og fyrir 100 árum, það er trúin á guð, það er trúin á landið og það er trúin og traustið sem við finnum í hvort öðru. Gleðin yfir því að eiga hvert annað, gleðin yfir því að eiga alla möguleika til að búa afkomendum okkar bjarta framtíð, ef við breytum rétt og höldum rétt á okkar málum.

Þannig komum við alltaf að sama kjarnanum, allt er undir okkur sjálfum komið, sem einstaklingum, sem fjölskyldu, sem kristnum söfnuði, sem þjóð, sem heimsbyggð.

Þannig er það, þannig hefur það alltaf verið og verður alltaf.


II.
Meitluð orð aldamótakynslóðarinnar hafa verið hoggin í íslenskt berg, þess sjáum við hvarvetna merki í samfélaginu. Við getum haldið áfram með þau sömu orð á vörunum, en við búum við aðrar aðstæður og í reynd gjörbreyttan heim. Við verðum að átta okkur á þessum aðstæðum, nýjum tækifærum, nýjum hættum, nýrri þekkingu, til að finna hugsjónum okkar og athafnaþrá réttan farveg.

Í hverju liggja þessi nýju tækifæri og hættur? Að mínu mati er þær fyrst og fremst að finna í opnun samfélagsins, ekki í hálfa gátt, allar hurðir hafa meira og minna verið teknar af. Ný tækni og samskiptahættir hafa breytt allri samfélagsgerðinni. Í stað persónulegra bréfa og bókalesturs eru komin samskipti með tölvum, upplýsingaöflun á veraldarvef. Viðskipti fara fram þráðlaust, landamæri verða sífellt ósýnilegri og áhrifavaldarnir í lífi okkar verða fleiri og fleiri. Jafnvel einkalíf okkar er berskjaldað vegna nýrrar tækni og samskiptahátta.

III.
Við hjónin erum bæði uppalin í litlum, einangruðum samfélögum. Konan mín Sigurjóna norður í Hrísey, sem er umgirt hafinu, ég fyrst norður í Vopnafirði og síðan í Hornafirði þar sem jökulvötnin einangruðu staðinn. Byggðarlögin okkar voru ekki aðeins einangruð, þau voru jafnframt umlukin og vernduð af íslenskri náttúru. Þar þrifust samfélög þar sem fátt mannlegt fór hjá garði, samfélög sem deildu örlögum í miku návígi. Þar voru markaðsöflin ekki allsráðandi, né óstöðvandi samkeppni um heimsins gæði.

Múrar eru fallnir fyrir hönd framfaranna, fallnir fyrir baráttu okkar fyrir betra lífi, lífsgæðum og hamingju. Samt minnumst við þeirra með söknuði og það segir sína sögu um breytingarnar og hætturnar sem eru þeim samfara. Við höfum staðið að þessum breytingum sjálf á eigin forsendum, en við höfum verið leidd áfram af nýrri tækni og alþjóðlegri þróun. Það er þessi sama tækni og alþjóðastraumar sem munu leiða okkur áfram á nýrri öld. Ekkert fær stöðvað þennan straum. Öldur hafsins og straumur jökulvatnsins sem áður lokaði af, hefur breyst í straum óstöðvandi upplýsingafljóts sem á sér sífellt fleiri kvíslar. Okkar hlutverk er ekki að reyna að stöðva þennan þunga straum, heldur að virkja hann fyrir íslenska þjóð. Nýta hann í þágu framfara og beisla hann til að gefa byggðum landsins nýjan kraft.

IV.
Ef okkur á að takast vel verðum við að nálgast viðfangsefnið af nærgætni, samviskusemi og án ótta. Ef við erum hrædd og höfum ekki þor, þá hrekjumst við undan. Við eigum að vera með, hafa áhrif. Kristið samfélag er alþjóðlegt samfélag, þar erum við fullir þátttakendur og höfum áhrif. Hið opna samfélag nútímans er undir sterkari alþjóðlegum áhrifum en nokkru sinni fyrr og þar skipta áhrif okkar með sama hætti máli.

Við eigum ekki aðeins að taka mið af ákvörðunum annarra þjóða, við eigum að vera með í að taka ákvarðanir með öðrum þjóðum. Við eigum ekki aðeins að vera þiggjendur, við eigum líka að vera veitendur. Við eigum að bindast samtökum með öðrum þjóðum og tryggja nauðsynleg áhrif á eigin hag. Þannig treystum við best sjálfstæði okkar og fullveldi.

Það eru ekki aðeins náttúruöflin sem geta einangrað samfélög. Einræði, ofbeldi og spilling átti auðveldari framgang í lokuðum samfélögum. Kommúnisminn féll vegna þrýstings frá frelsi og lýðræði. Einræðisherrarnir geta ekki lengur athafnað sig án þess að heimsbyggðin fylgist með. Þannig hefur upplýsingaöldin þvingað þá fram úr fylgsnum sínum og gefið fólkinu nýja möguleika, nýja von um frelsi og betra líf.

V.
Athafnafrelsi einstaklinganna hefur vaxið. Jafnframt því hafa markaðsöflin og gróðahyggjan fengið nýjan byr. Þessi staða kallar á sterk samfélög sem tryggja athafnafrelsi einstaklinga sem helsta farveg framfara. Aðstæðurnar kalla ekki síður á samfélagsreglur sem setja einstaklingunum ákveðnar skorður.

Við getum ekki aðeins horft til hámörkunar ágóðans, við verðum jafnframt að standa vörð um félagsleg réttindi, félagsleg gildi. Atvinnulíf sem er drifið áfram af hagnaðarvon getur tryggt hag margra en það stendur ekki vörð um þjóðfélagsleg eða alþjóðleg gildi.

Markaðshagherfið með sínum kostum og göllum er mikilvægt en það er ekki sniðið til að gæta sameiginlegra hagsmuna. Það er meðal annars ekki sniðið til að gæta þeirra sem eru sjúkir, atvinnulausir, ómenntaðir eða heimilislausir. Markaðshagkerfið eða einkavæðingin getur því aldrei séð okkur fyrir heilsugæslu, menntum eða andlegri hjálp. Aðeins sem þjóðfélag, sem heild, sem kirkja, getum við staðið vörð um hin félagslegu gildi.

VI.
Við fæðumst frjáls inn í þennan heim og í frelsi viljum við lifa og starfa. Það er ekki nóg að hafa athafnafrelsi. Hungraður maður er ekki frjáls. Heilsulaus maður er ekki frjáls. Atvinnulaus maður er ekki frjáls.
"Bænirnar vekja vonir á himnum og drauma á jörð", segir Einar Már í bók sinni Fótspor á himnum og hann heldur áfram:

"Ég á orð. Ég á tungu.
Ég á huga og sál.
Ég á ókomna daga.
Mín bæn er mitt mál".

Við erum í lífi okkar mótandi um framtíðina. Við erum það með hugsun, orðum, bæn og öllu sem við gerum. Stundum eru afleiðingar gerða okkar aðrar en við sáum fyrir, stundum getum við ekki annað en brugðist við því sem við höfðum engin áhrif á. Í öllu þessu umróti, lífinu sjálfu, getum við gert draum að veruleika.

Frelsari vor Jesús Kristur kenndi okkur ákveðin grundvallar lífsgildi sem lifa með okkur og breytast ekki í breyttum heimi. Þau eru það veganesti sem gafst okkur best í upphafi síðustu aldar og það nesti er það sama nú þótt umbúðirnar hafi breyst.

Með opnara samfélagi hafa persónuleg tengsl rénað. Þótt múrarnir hafi brotnað niður, höfum við fjarlægst og við verðum að leita allra ráða til að stöðva þá þróun. Markaðurinn er mikils ráðandi og hann hugsar fyrst og fremst um ávinning. Hann hugsar lítið um rétt og rangt að öðru leyti en að vinningur og hagnaður er það eina rétta. Til mótvægis þurfum við félagsleg gildi, siðferðileg gildi, kristin gildi. Það eru þau sem hjálpa okkur að greina milli hins rétta og ranga, milli hins góða og illa.
VII.
Við skulum ganga bjartsýn til móts við nýja öld. Við skulum gera það í auðmýkt og þakklæti fyrir þá gæfu að vera Íslendingar sem hafa óþrjótandi tækifæri til að vera mótandi um framtíðina og bæta okkar líf. Við munum aldrei lifa í fullkomnu þjóðfélagi eða fullkomnum heimi, en við getum gert betur og lagfært í eigin lífi og annarra lífi. Við höfum rangan skilning á mörgu en við getum leiðrétt hann. Við fáum aldrei svar við öllum spurningum og sérhvert svar kallar á nýjar spurningar.
Eitt er ég viss um. Við verðum að öðlast betri skilning á því opna og flókna samfélagi sem við lifum í. Við verðum að skilja betur hvaðan fljótið kemur og hvert það fellur. Við verðum að vaða allar kvíslar þess með hugarfari vatnamannanna sem ég kynntist í A-Skaftafellssýslu á mínum bernskuárum. Þeir voru áræðnir, varkárir, fumlausir og umfram allt ákveðnir í að komast á bakkann handan árinnar.

"Starfið er margt, en eitt er bræðra bandið,
boðorðið, hvar sem þér í fylking standið,
hvernig sem stríðið þá og þá er blandið,
það er: Að elska, byggja og treysta á landið"

kvað Hannes Hafstein fyrir 100 árum.

Gleðilegt ár. Megi guð gefa okkur öllum farsæld og hamingju á nýju ári og nýrri öld.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira