Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Ávarp ráðherra á ársfundi Útflutningsráðs

Ávarp Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra, á ársfundi Útflutningsráðs Íslands, 14. maí 2001

Það er kunnara en frá þurfi að segja að vöxtur útflutnings í litlu opnu hagkerfi eins og því íslenska hefur grundvallarþýðingu fyrir hagvöxt. Til marks um þetta er náið samband milli útflutnings og hagvaxtar þegar litið er til sögunnar. Enginn vafi er því á Íslendingar munu áfram sem hingað til byggja lífskjörin á þróun útflutnings og utanríkisviðskipta.

Hvað tryggir góð lífskjör?
Þegar horft er til framtíðar má spyrja hvað þurfi til að tryggja að Íslendingar verði áfram meðal fremstu þjóða heims í lífskjörum. Hvað þarf útflutningur að aukast mikið til að við náum þessu markmiði? Til viðmiðunar má t.d. hafa næstu tíu ár. Reiknað er með að hagvöxtur í iðnríkjunum verði að jafnaði 2S-3% á ári á þessu tímabili. Hagvöxtur hér á landi þarf að vera nokkru meiri vegna örari fólksfjölgunar til að lífskjörin standist samanburð við önnur ríki í fremstu röð, eða 3-3S% á ári. Til að ná slíkum árangri þarf útflutningur a. m. k. að aukast árlega um sömu tölu. Ef þetta markmið næst ekki blasir við að lífskjör hér á landi verða lakari í samanburði við þær þjóðir sem náð hafa lengst. Því er til mikils að vinna. Í þessu efni vitna ég til nýlegra erinda Þórðar Friðjónssonar forstjóra Þjóðhagsstofnunar og Birgis Árnasonar hagfræðings hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Atburðarásin undanfarnar vikur í gengismálum þjóðarinnar beina athygli að þessum staðreyndum. Gengislækkun krónunnar stafar fyrst og fremst af því að viðskiptahallinn á síðustu árum hefur verið gríðarlega mikill, þótt taugatitringur á fjármálamörkuðum hafi ýkt sveiflurnar. Viðskiptahallinn felur í sér að þjóðin eyðir meiru en hún aflar og við slíkar aðstæður er ávallt hætt við veikingu krónunnar nema hallinn eigi rætur sínar að rekja til fjárfestingar sem aftur skilar sér í arðbærum útflutningi. Til að mæta svona aðstæðum er ekki nema um tvennt að ræða; annaðhvort að minnka útgjöldin með tilheyrandi áhrifum á lífskjörin eða auka útflutningstekjurnar.

Það er ekki sjálfgefið að við náum því að tryggja svo öran vöxt útflutnings á næstu árum, að hagvöxtur verði um eða yfir 3% á ári, ekki síst þegar litið er til þess að sjávarútvegi, sem hefur átt ríkan þátt í að tryggja vöxtinn undanfarna áratugi, eru settar þröngar skorður vegna takmarkaðrar auðlindar. Aðrar greinar þurfa því að vaxa þeim mun hraðar. Fyrir vikið er vandséð að viðunandi árangur náist nema að saman fari veruleg aukning álframleiðslu ásamt eflingu ferðaþjónustu og þekkingariðnaðar. Rétt er að leggja áherslu á að þetta þrennt þarf allt að fara saman. Því til stuðnings nægir að nefna að þótt gert sé ráð fyrir miklum vexti í ferðaþjónustu og þekkingariðnaði dugar það skammt þar sem þessar greinar eru enn með tiltölulega litla hlutdeild í útflutningi þjóðarinnar. Við þetta má bæta að aukin álframleiðsla í samræmi við núverandi áform, Reyðarál og stækkun Norðuráls, skilar nær tvöfalt meiri útflutningstekjum en ferðaþjónustan gerði í fyrra. Það er því ljóst að sviplítið yrði um að litast í efnahagslífinu á næstu árum ef ekki verður af þessum framkvæmdum.

Dæmi sem byggir á að þessar greinar beri uppi vöxt útflutnings á næstu tíu árum er nánar lýst hér síðar. Fyrst ætla ég að fjalla um fyrirliggjandi áform um aukna álframleiðslu og síðan flétta saman við það forsendum um þróun annarra vaxtargreina. Þetta geri ég í því skyni að leggja áherslu á hversu mikið þarf í rauninni til að viðhalda sambærilegum lífskjörum á Íslandi og meðal þeirra þjóða sem fremstar standa.

Aukin álframleiðsla og þjóðarbúskapurinn

Athuganir Þjóðhagsstofnunar benda til að aukin álframleiðsla yrði umtalsverður búhnykkur fyrir þjóðina. Ef áform um 360 þúsund tonna álver á Reyðarfirði og stækkun Norðuráls í 240 þúsund tonn ganga eftir mun álframleiðsla þrefaldast næsta áratuginn og verða um 750 þúsund tonn samanborið við um 240 þúsund tonn í ár. Þessi þróun mun birtast í hærri útflutningstekjum, breyttri samsetningu útflutnings og síðast en ekki síst í bættum lífskjörum landsmanna. Það liggur í augum uppi að mikið yrði um að vera í þjóðarbúskapnum vegna framkvæmda á næstu tíu árum og auknar útflutningstekjur styrktu undirstöður efnahagslífsins til frambúðar.

Vænta má að útflutningur þjóðarinnar verði allt að 15% hærri til langframa með aukinni álframleiðslu. Hlutdeild áls í útflutningstekjum yrði um fimmtungur að tíu árum liðnum samanborið við um 13% árið 2000. Aðrar greinar, s.s. ferðaþjónusta, hátækni- og hugbúnaðargeirinn og fiskeldi leggja vafalaust lóð sín á vogarskálirnar. Ekki er óraunsætt að gera ráð fyrir því að tekjur af ferðaþjónustu aukist að raungildi um 5% árlega og vöxur hinna greinanna verði enn hraðari ef áfram verður hlúð að rekstrarumhverfi fyrirtækja hér á landi eins og stefnt er að. Þannig gæti útflutningur aukist um 5% árlega næsta áratuginn, eða úr 220 milljörðum króna árið 2000 í rúmlega 350 milljarða árið 2010 á verðlagi ársins 2000. Þessi framtíðarsýn felur í sér að hlutdeild hefðbundins sjávarútvegs í útflutningstekjum verður um þriðjungur snemma á næsta áratug en á síðastliðnu ári var hún 43%.

Það sem mestu máli skiptir þó er að allar horfur eru á því að aukinn álútflutningur stuðli að bættum lífskjörum til frambúðar. Áætlað er að landsframleiðsla verði um 2% hærri til lengdar ef fyrrgreind stóriðjuáform ganga eftir og álver á Reyðarfirði eitt og sér gæti leitt til um 1-1S% varanlegrar hækkunar landsframleiðslu. Þessi áhrif stafa af aukinni framleiðni vegna fjárfestinga í stóriðjuverum og virkjunum. Aukin framleiðni í þjóðfélaginu skilar sér í hærri tekjum launafólks og fjárfesta.

Til að þessi árangur megi nást þarf gríðarlegar fjárfestingar. Fjárfesting tengd fyrirhuguðu álveri á Reyðarfirði er um tvöföld fjárfesting atvinnuveganna á þessu ári. Fjárfestingin dreifist á 8-10 ár, en engu að síður er ljóst að slík umsvif segja til sín í þjóðarbúskapnum. Þannig er reiknað með að á framkvæmdatíma verði fjárfesting hér á landi að jafnaði um fimmtungi meiri en hún yrði án framkvæmda vegna álvers á Reyðarfirði.

Stækkun Norðuráls í 240 þús. tonna framleiðslugetu í þýðir að fjárfesting hér á landi á framkvæmdatíma yrði allt að 30% meiri en án nýrra álvera. Aukin umsvif í þjóðarbúskapnum á framkvæmdatíma koma einnig fram í hærri landsframleiðslu en að meðaltali gæti hún orðið allt að 4% meiri en annars á framkvæmdatíma ef öll fyrrgreind áform ganga eftir. Þetta sýnir skýrt að mikið yrði um að vera í efnahagslífinu á næstu tíu árum og í framhaldi væri varanlega lagður grunnar að stórauknum útflutningstekjum.

Arðsamar fjárfestingar í útflutningsatvinnugreinum eru í eðli sínu jákvæðar fyrir þjóðarbúið. Því er hins vegar ekki að neita að fjárfestingar af þeirri stærðargráðu sem hér er rætt um fela í sér ákveðnar hættur ef ekki er rétt haldið á spöðunum. Innflutt fjárfestingarvara leiðir til tímabundinnar hækkunar viðskiptahalla og erlendra skulda þjóðarbúsins. Þegar álverin hefja útflutning gengur þessi skuldaaukning hins vegar til baka og vel það. Aukinni eftirspurn á framkvæmdatíma fylgir einnig hætta á meiri verðbólgu en ella. Styrk hagstjórn er því nauðsynleg til að tryggja að hámarks árangur náist og að þjóðin njóti bættra lífskjara bæði á framkvæmdatíma og síðar meir.

Ég hef hér lagt áherslu á efnahagslegan ávinning af aukinni álframleiðslu. Um þetta er varla deilt. Með þessu vil ég þó ekki gera lítið úr öðrum atriðum sem huga þarf að. Í því efni er rétt að nefna sérstaklega umhverfismálin. Stóriðjuáformin sem hér hefur verið lýst fela í sér umdeildar framkvæmdir vegna virkjunar við Kárahnúka og hugsanlega Norðlingaöldu. Vanda þarf vel til slíkra framkvæmda, íhuga gaumgæfilega afleiðingar þeirra fyrir umhverfið og leita bestu leiða til að ná sem víðtækastri sátt um þær.

Álver á Austurlandi, Reyðarál

Hér á undan hef ég í rakið stuttlega ávinning þjóðarinnar í heild af aukinni álframleiðslu. Álver á Reyðarfirði gegnir jafnframt afar þýðingarmiklu hlutverki í eflingu byggðar á Austurlandi. Bygging álversins og Kárahnúkavirkjunar og ýmsar nauðsynlegar framkvæmdir krefjast mikils mannafla, rúmlega 8.000 ársverka alls eða að jafnaði um 1.000 manns hvert framkvæmdaár. Reiknað er með að um 30% ársverka verði unnin af fólki búsettu á Austurlandi. Þegar hægir á framkvæmdum tekur starfsemi álversins við. Áætlað er að rúmlega 450 manns vinni í álverinu eftir að fyrsti áfangi þess með 240 þúsund tonna framleiðslugetu er kominn í rekstur og ríflega 600 eftir að álverið hefur náð fullri framleiðslugetu. Miðað við núverandi verðlag gætu launagreiðslur til starfsmanna álversins þá slagað hátt í 2 milljarða króna.

En þetta segir ekki alla söguna, því til viðbótar þessum störfum skapast önnur vegna aukinnar eftirspurnar eftir alls kyns þjónustu á svæðinu, bæði á byggingartíma og eftir að álverið hefur rekstur. Þegar allt er tekið með í reikninginn eru horfur á að fólksfjöldi á Mið-Austurlandi verði orðinn ríflega 9.500 við upphaf reksturs fyrsta áfanga álversins en 1. desember síðastliðinn bjuggu um 8.100 manns á svæðinu.

Fleiri tækifæri skapast til sóknar þegar íbúaþróun á svæðinu hefur verið snúið við. Fyrirtæki sem bjóða vel launuð störf verða að geta reitt sig á stöðugt framboð af vel menntuðu starfsfólki. Kannanir sýna að atvinnumöguleikar, verð vöru og þjónustu, vöruúrval og möguleikar til afþreyingar ráða miklu um hvar fólk kýs að búa. Þannig getur eitt leitt af öðru. Efling atvinnulífs veldur innstreymi fólks. Aukinn fólksfjöldi býður síðan upp á meiri fjölbreytileika í menntun, menningu og verslun og þjónustu sem styrkir byggð frekar. Aukið framboð af vel menntuðu fólki hvetur fleiri fyrirtæki til að setja upp starfsemi sem leiðir til frekari fólksfjölgunar og síðan koll af kolli.

Þetta gæti hæglega orðið atburðarásin á Mið-Austurlandi ef áform um álver Reyðaráls verða að veruleika. Nýleg könnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sýnir að um þrír af hverjum fjórum Austfirðingum á aldrinum 18-28 ára eru fylgjandi álveri á Reyðarfirði og að 40% hefðu áhuga á að starfa þar. Álverið mun því styrkja stöðu Mið-Austurlands í samkeppni um starfskrafta ungs fólks en akkilesarhæll svæðisins síðustu ár hefur verið slæm samkeppnisstaða gagnvart höfðuborgarsvæðinu í þessum efnum. Aðdráttarafl Mið-Austurlands gæti af þessum sökum einnig aukist í augum fyrirtækja sem sækjast eftir ungu og vel menntuðu starfsfólki. Fyrirhugaðar samgöngubætur styrkja svæðið enn frekar. Allar atvinnugreinar njóta góðs af samgöngubótum og þá e.t.v. ekki síst ferðaþjónustan. Jafnframt skapa samgöngubætur forsendur fyrir aukinni þjónustu við svæðið og lægra vöruverði.

Niðurlag
Ég hef í máli mínu hér lagt áherslu á að mikið þarf til að tryggja að lífskjör á Íslandi verði áfram á við það sem best gerist annars staðar - og vöxtur útflutnings gegnir þar lykilhlutverki. Slíkur árangur kemur ekki sjálfkrafa upp í hendurnar á okkur. Við höfum því verk að vinna og þurfum að nýta vel tækifærin til eflingar útflutnings.

Á næstu mánuðum mun það ráðast hvað verður um framkvæmdir á sviði álframleiðslu. Sá tími verður því mikill örlagatími um þróun hagvaxta og lífskjara í heilan áratug.

Við upphaf hagvaxtartímabilsins fyrir sex árum spiluðu framkvæmdir á sviði stóriðju lykilhlutverk. Það er ótrúlegur árangur, sem hefur náðst á þessum tíma. Hann kom ekki af sjálfu sér og með sama hætti verður honum ekki viðhaldið, eða enn frekari afrek unnin, án fyrirhyggju og styrkrar efnahagsstjórnar. Grunnurinn að mikilvægum ákvörðunum hefur verið lagður. Með samstilltu átaki lífeyrissjóða, fjármálafyrirtækja, orkufyrirtækja og stjórnvalda má tryggja hagvaxtartímabil næstu tíu árin. Það má ekki bregðast, þjóðin öll mun njóta ávaxtanna. Enn á ný er augljóst að lífskjörin ráðast af útflutningsstarfseminni. Allar þessar staðreyndir eru hvatning fyrir Útflutningsráð, sem hefur unnið ötullega að eflingu útflutningstarfseminnar.
Ég óska Útflutningsráði allra heilla og góðs gengis í framtíðinni.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira