Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Fundur Evró-Atlantshafssamstarfsráðsins í Reykjavík

Reykjavík, 15. maí 2002

Ávarp utanríkisráðherra Íslands, Halldórs Ásgrímssonar, við fundarsetningu Evró-Atlantshafssamstarfsráðsins í Reykjavík

Word-skjal (24,6 Kb)

In English


Herra framkvæmdastjóri, utanríkisráðherrar og aðrir fundargestir.


Mig langar að byrja á því að lýsa ánægju minni með að geta boðið ykkur öll velkomin hingað til Reykjavíkur í tilefni af fundi Evró-Atlantshafssamstarfsráðsins, fyrsta fund sinnar tegundar á Íslandi. Aldrei hafa svo margir utanríkisráðherrar verið saman komnir hér á sama tíma.

Þegar Íslendingar voru fyrst gestgjafar á fundi utanríkisráðherra NATO, var samvinna undir merkjum Samstarfsins þágu friðar ekki komin til sögunnar. Þetta var árið 1987, fyrir lok kalda stríðsins, og þá komu utanríkisráðherrar sextán NATO-ríkja saman í Reykjavík til að ræða frekari mótun allsherjarstefnu um takmörkun vígbúnapar og afvopnun.

Margt hefur breyst frá þeim tíma, og bandalagið hefur aðlagað sig oftar en einu sinni. Enn erum við komin að nýjum áfanga, jafnvel þeim mikilvægasta til þessa, og það mun hafa mikla þýðingu fyrir Samstarfið í þágu friðar.

Á fundi okkar hér þurfum við að leita leiða til að laga Samstarfið að þróuninni innan Atlantshafsbandalagsins, þ.á.m. nýjum verkefnum og viðfangsefnum, og að frekari stækkun bandalagsins, sem gæti á endanum leitt til þess að bandalagsríkin verði fleiri en ríki Samstarfsins. Við þurfum ennfremur að huga að hinu nýja sambandi okkar við Rússa. Á þeim áratug sem samvinna okkar hefur staðið yfir, hefur Samstarfið þróast og lagað sig að breyttum veruleika. Ég er þess fullviss að hið sama verður uppi á teningnum nú, og er það til marks um styrkleika samvinnu okkar, þar sem við höfum jafnan haft sveigjanleika og gagnsæi að leiðarljósi.

Mikilvægi Evró-Atlantshafssamstarfsráðsins og Samstarfsins í þágu friðar sem tækis til að koma á frekara samstarfi meðal þjóða varð ljóst í kjölfar voðaverkanna í Bandaríkjunum hinn 11. september. Hin alþjóðlega barátta gegn hryðjuverkum hefur síðan bæst á verkefnaskrá Evró-Atlantshafssamstarfsráðsins, og gerðar hafa verið ráðstafanir til þess að þróa raunhæf viðbrögð ráðsins við hryðjuverkum. Samstarfsaðilar okkar, sem hafa gegnt svo mikilvægu hlutverki, ekki síst samstarfsaðilar í Rússlandi og mið-Asíu, eiga lof skilið. Þeir sem fylgst hafa með umræðum innan Evró-Atlantshafssamstarfsráðsins á síðustu árum gera sér grein fyrir mikilvægu framlagi samstarfsaðila okkar í mið-Asíu og á Kákasussvæðinu til viðræðnanna um ógnina sem stafar af alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi. Fulltrúar þeirra í viðræðunum gerðu sér mun betri grein en við fyrir þeirri ógn sem við stóðum frammi fyrir á þeim tíma, fyrir 11. september, og nauðsyn þess að takast á við hana. Nú reiðum við okkur á aðstoð þeirra og þekkingu í sameiginlegri baráttu okkar.

Á undanförnum mánuðum hefur mikið verið rætt um þörfina á því að betrumbæta Evró-Atlantshafssamstarfsráðið. En við verðum einnig að gera okkur grein fyrir því hversu langt við höfum náð í samstarfi okkar á einum áratug og viðurkenna að þetta samstarf hefur gegnt lykilhlutverki við að koma á friði og stöðugleika. Án samstarfs okkar á Balkanskaganum, þar sem enn er þörf á sameiginlegu átaki, hefði sá árangur sem við njótum nú verið óhugsandi. Árangurinn endurspeglast í þátttöku margra samstarfsaðila okkar á Balkanskaga hér og í inngöngu Króatíu framkvæmdaáætlun aðildar að að bandalaginu.

Að sjálfsögðu er alltaf rúm til frekari endurbóta, og við verðum að halda áfram að bæta aðferðir, leita nýjunga í samstarfi okkar og finna leiðir til þess að ná sem mestu út úr þessum mikilvæga vettvangi.

Sameiginleg barátta okkar gegn alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi verður mikilvægasta viðfangsefni okkar í fyrirsjáanlegri framtíð og við þurfum að finna raunhæfar leiðir til þess að vinna saman í þeirri baráttu. Það er raunveruleg þörf fyrir þetta mikilvæga samstarf þjóða, og ég er ekki í nokkrum vafa um að Evró-Atlantshafssamstarfsráðið og Samstarfið í þágu friðar, munu halda velli í stækkuðu og breyttu Atlantshafsbandalagi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira