Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

UTN Forsíðuræður

Afmælishátíð Samvinnuskólans á Bifröst

Bifröst, 5. desember 2003


Afmælishátíð Samvinnuskólans á Bifröst


Hátíðarræða Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra


Það er sérstakt að koma hingað í Borgarfjörðinn á þessu fallega vetrarsíðdegi á upphafi aðventu og heimsækja gamla skólann sinn. Við þekkjum öll þessa tilfinningu, hvernig minningarnar sækja á og persónur og leikendur í uppfærslum fyrri tíma standa nánast ljóslifandi fyrir framan mann eins og þessi fjörtíu ár sem liðin eru frá því ég hóf ungur nám í Samvinnuskólanum hafi aldrei liðið og tíminn staðið í stað.

Minningin er ljóslifandi. Sr. Guðmundur og Guðlaug unnu mjög sérstætt afrek þegar þau mótuðu Bifrastarsetrið og skólann hér á sínum tíma með þeim hætti sem alkunnugt er. Þessi tími er mér og mörgum öðrum ógleymanlegur og síðar meir orðaði sr. Guðmundur það þannig að þetta hefði verið ævintýri líkast og hann kallaði það "Bifrastarævintýrið".

Það voru orð að sönnu.

Í útvarpserindi frá árinu 1958 gerði faðir skólans og hugmyndafræðingur, Jónas Jónsson frá Hriflu, skólastjóri og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins og einn merkasti stjórnmálamaður síðustu aldar, skólastarfið að umtalsefni og gaf nokkur heilræði til forráðamanna skólastofnana hér á landi.

Í fyrsta lagi sagði Jónas að góður skóli væri að sínu viti eftirmynd af góðu heimili. Í öðru lagi taldi hann að gleði og góðvild yrði að drottna í skiptum nemenda og kennara og í þriðja lagi taldi hann kennsluna þurfa að vera lifandi og fjölbreytta. Leiðinlegur kennslutími ætti að varða við lög.

Allt þetta má að mínu viti til sanns vegar færa. Og allt þetta get ég heimfært í minn eigin reynsluheim héðan, þar sem gleði og kraftur einkenndi starfið en góðvild og einlægni var veganestið. Bifröst var annað heimili okkar nemendanna, þar var komið fram við okkur sem slíka.

Í annan stað get ég tekið undir að á Bifröst var gleði og góðvild einkennandi í öllu skólastarfinu og þann lærdóm hygg ég að margir nemendur hafi tekið með sér út í lífið og notið æ síðan, bæði í leik og starfi.

Sömuleiðis var það auðvitað hárrétt hjá meistara Jónasi að fátt vinnst með þurri kennslu, þar sem ekki tekst að vekja áhuga nemendans. Þvert á móti ætti hverjum kennara eða leiðbeinanda að vera akkur í því að bjóða upp á lifandi og fjölbreytta kennslu, því einmitt þannig gerir hann kennsluna áhugaverðari, eykur líkur á framförum nemenda og gerir sér sitt eigið starf um leið langtum léttbærara.

Jónas frá Hriflu var langt á undan sinni samtíð, enda þótt hann hafi stundum fundið fyrir stormum sinnar tíðar. Hann var frumkvöðull og framsýnn í alþjóðamálum, hann sótti fram af djörfung í menntamálum þjóðarinnar og barðist fyrir öflugum héraðsskólum í öllum landsfjórðungum en um leið fyrir uppbyggingu æðri menntastofnana. Hann var þannig ekki aðeins faðir þessarar merku menntastofnunar, hann var ekki síður ötull baráttumaður fyrir uppbyggingu Háskóla Íslands, eins og tilvitnun í skrif hans bera með sér.

Sjálfur lýsti Jónas því eitt sinn á þennan veg:

"Andstæðingar mínir í þinginu hugðu mig lamaðan eftir heimsókn Helga í Sambandshúsið. En eftir að ég kom í þingið, að lokinni vanheilsu, bar ég fram frumvarp um Háskólabyggingu í Reykjavík. Tíu árum síðar var sú stórbygging fullgerð. Samtímis sóttu næstum allir talfærir íhaldsmenn í neðri deild að mér á eldhúsdegi , sem stóð í meira en viku."

Já, það er semsé ekkert nýtt að sótt sé að forystumönnum Framsóknarflokksins.

En ástæða þess að við erum hér saman komin í dag, er vitaskuld sú að Bifrastarævintýrið hefur haldið áfram og sú öfluga menntastofnun sem okkur þykir öllum svo vænt um, hefur eflst mjög að þreki í takt við nýja tíma. Það sem enn er að gerast hér með nýjum húsum og nýjum námsbrautum og nýjum kennslu- og fræðaþáttum í starfseminni, er enn í dag einmitt þetta sama Bifrastarævintýri, nýir kaflar og nýir áfangar inn í framtíðina.

Þau sr. Guðmundur og samstarfsfólk þeirra hjóna tóku við stofnun sem hafði lengi starfað og haldið uppi stoltu merki menntunar og þjónustu við alla þjóðina á þessu mikilvæga sviði, menntun, fræðslu og þjálfun fyrir starfsmenn og stjórnendur í verslun og framleiðslu, í atvinnulífinu í landinu. Samvinnuskólinn þjónaði þá ekki síst samvinnufélögunum sem störfuðu um land allt, en nemendur úr þessum skóla störfuðu og starfa enn á fjölmörgum sviðum þjóðlífsins og atvinnulífsins, langt út fyrir allar sérstakar skilgreindar raðir, enda létu lærimeistarar okkar nemendur sína vita, að í þessum skóla væri verið að þjálfa stjórnendur og leiðtoga framtíðarinnar hvorki meira né minna.

Guðmundi Sveinssyni kynntist ég vel sem nemandi. Ég bar mikla virðingu fyrir honum sem skólameistara. Ég vissi að ég kom illa undirbúinn í skólann og þurfti að taka mig á. Guðmundur var strangur og gerði kröfur sem ekki varð vikist undan. Það varð að lesa, kunna og skilja. Hann hélt athygli, það var varhugavert að sofna í tíma hjá honum eða vera annars hugar. Umfram allt vakti hann áhuga, hreif okkur með. Með honum völdust góðir og vandaðir kennarar sem vildu veg okkar sem mestan.

Menningarstraumar heimsins voru færðir beint til okkar. Þegar Jean Paul Sartre hlaut Nóbelsverðlaunin vorum við umsvifalaust kölluð á sal til að hlýða á fyrirlestur Guðmundar um hann. Þegar John F. Kennedy var myrtur var hans minnst og þannig mætti áfram telja.

Ég man nánast ekki eftir Guðmundi nema með bók í hendi. Dagurinn hófst með morgunverði og alltaf sat hann við kennaraborðið með bók í hendi, en fylgdst samt náið með okkur.

Flest sem við lásum fyrir kennslustundir hans var skrifað af Guðmundi og skipti eftir skipti leita ég í menningarsöguna hans við undirbúning á ræðum og öðru sem fylgir starfi mínu. Eftir því sem árin hafa liðið hef ég lært að meta hann meira. Á ferðalögum í Kína, í Japan og á Indlandi hef ég notið leiðsagnar míns gamla læriföður. Í kristinni siðfræði og í samstarfi við kirkjuna hef ég notið handleiðslu hans. Sem unnandi myndlistar og tónverka hef ég oft leitað til þess sem ég lærði af honum.

Jónas á Hriflu hafði mikil og mótandi áhrif á Framsóknarflokkinn sem ég er formaður fyrir í dag. Guðmundur var ekki stjórnmálamaður. Ég vissi að hann var stuðningsmaður míns flokks, en ég leit aldrei á hann sem slíkan. Ég sá hann sem guðfræðing, kennimann, heimspeking, skólamann sem aldrei efaðist um gildi þekkingar og menningar á ómótuð ungmenni. Guðmundur var okkur sem strangur faðir, en Guðlaug sá um okkur sem hlý og nærgætin móðir.

Guðmundur var skapmaður, en hann tamdi það vel. Einhverju sinni varð nemandi vitni að því er Guðmundur lagði hönd á höfuð sér og sagði við sjálfan sig: "Stilltu þig Guðmundur, stilltu þig Guðmundur."

Það þurfti skap til þess að koma því í verk sem skólameistarinn gerði, stillinguna fann hann í einlægri trú sinni, eiginkonu sem gætti hans. Heimili þeirra var ekki aðeins þeirra, það var okkar allra. Við sveitamennirnir úr einangruðum héruðum Íslands fannst við verða heimsmenn hér í upphéruðum Borgarfjarðar þar sem við áttum þó aðallega aðra sveitamenn sem nágranna.

Hvaða öðrum unglingum en okkur hefði dottið í hug að senda Winston Churchill heillaóskaskeyti á 90 ára afmæli hans?

Skeytið var svona:

"Happy birthday, jolly good fellow, hope you will live another 90."

Guðlaug sendi skeytið og ég man hún spurði: "Borgarnes, Borgarnes hafa einhverjir aðrir sent Churchill skeyti? Engir aðrir höfðu gert það og okkur fannst við vera langt á undan öðrum. En við fengum virðulegt þakkarbréf sem skólafélagi minn geymir sem fjársjóð.

Ekki vissi ég þá hvað er að vera heimsmaður og veit það sennilega ekki enn. Ég kom beint hingað af utanríkisráðherrafundi NATO í Brussel og var þar áður í opnberri heimsókn í Íran. Hjá Atlantshafsbandalaginu hef ég notið uppfræðslu Guðmundar um Vesturlönd og hugmyndafræði Jónasar frá Hriflu er enn í fullu gildi.

Í Íran, þar sem persnesk menning á rætur, elsta menning í heimi, komu kennsla og viðhorf Guðmundar oft upp í hugann. Ekki síst minntist ég umburðarlyndis hans í garð annarra. Kannski dæmum við oft á grundvelli vanþekkingar. Ef til vill er rétt að við viljum sjá allt út frá eigin reynslu, eigin menningu.

Guðmundur var ekki þannig maður. Víðsýni hans var meiri en flestra.

Jónas Jónsson frá Hriflu hafði mótað þessa starfsemi og sett á hana sterk einkenni og mikinn þjóðlegan og félagslegan metnað. Þessi kyndill lýsti um land allt og hefur komið ótrúlega miklu góðu til leiðar í bókstaflega öllum byggðarlögum, öllum atvinnugreinum og sviðum þjóðlífsins.

Ég kynntist Jónasi lítið, en eitt sinn heilsaði ég honum í fylgd föður míns sem hafði verið í skóla hjá honum. Hann hélt sambandi við sinn gamla læriföður, hitti hann eða hringdi í hann hið minnsta einu sinni á ári. Hann sagði mér að símtal við hann tæki allan morguninn og Jónas talaði nær allan tímann.

Ég skynjaði áhrif hans, en jafnframt að ekki voru allir sáttir við hann. Ég vissi m.a. að faðir minn bauð Jónasi að hitta afa minn og alnafna í kaffi á Hótel Sögu til að ræða gamla tíð og sætta gömul deilumál. Mér var sagt að vel hafi tekist til. Ég vissi líka að góð vinátta tókst með Ingólfi afa mínum í móðurætt og Jónasi þegar hann var sem vinnumaður að Grímsstöðum í Mývatnssveit og afi minn átti hann heima að Hamri í Laxárdal, næsta bæ við.

Alls staðar mótaði fyrir Jónasi í umræðum, sögum og verkum hans. Íslandssagan var skrifuð af honum, samvinnusagan var lesin með hans augum. Gegnum hann kynntist maður mörgum hetjum, lærði að tala illa um Dani, sem síðar þroskaðist af manni.

Í dag dáist ég að framsýni hans í utanríkismálum og þá ekki síst einlægum vilja til að vinna með vestrænum þjóðum að lýðræði, efnahagslegu sjálfstæði og sönnum framförum. Andúð hans á nasismanum og kommúnismanum var skýr og föslskvalaus. Ég tel að skýr framsetning hans og óþrjótandi baráttuþrek hafi haft meiri áhrif á utanríkisstefnu okkar en sagnfræðingar hafa almennt viðurkennt. Hann átti ríkan þátt í að halda frá okkur áhrifum nasismans og kommúnismans.

Góðir vinir,

Þetta eru þeir menn sem ekki síst standa upp úr minningunni þegar rætt er um menningarsetrið á Bifröst. Kjarni þessa starfs var og er, allt frá Jónasi Jónssyni og sr. Guðmundi Sveinssyni og fram á þennan dag, að þjóna þjóðinni, almenningi, atvinnulífinu. Fólkið í landinu var og er og verður mælistikan og markmiðið í öllu því samvinnustarfi og menntastarfi sem hér er og verður unnið.

En það er líka mikilvægt að þessi mælistika og þetta markmið gleymist aldrei: að veita þjóðinni þessa þjónustu og vinna saman að þessum markmiðum. Samvinnuskólinn var ævinlega í fylkingarbrjósti á sínu sviði og Viðskiptaháskólinn er það enn, að veita þjóðinni, einstaklingunum sem eiga hlut að máli og öllu atvinnulífinu þessa mikilvægu undirstöðuþjónustu sem er fræðsla, þjálfun og menntun starfsmanna og stjórnenda.

Þegar starfsemi skólans hófst, í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar, veitti hann fullnægjandi fræðslu og menntun til stjórnunarstarfa. Þetta gerir hann enn í dag, og það er merki um breytingar samfélagsins að skólinn starfar nú formlega og opinberlega á háskólastigi. Breytingarnar sem gerðar voru á skólanum fyrir einum og hálfum áratug, þegar hann tók sér stöðu á háskólastiginu, voru og eru í fullu samræmi við breytingarnar í samfélaginu.

Til þess að gegna upphaflegu, hefðbundnu og alkunnu hlutverki sínu og sækja áfram að sömu upphaflegu markmiðunum hlaut skólinn að ganga í gegnum þessar eigin breytingar, til þess einmitt að halda áfram sem jafnan fyrr í fararbroddi í landinu.

Þetta starf krefst þess að menn fylgist vel með. Þetta starf krefst þess að menn hafi mikinn metnað, fyrir hönd þjóðarinnar, alls almennings og fyrir hönd atvinnulífsins og síðast en ekki síst fyrir hönd stofnunarinnar, til þess að Bifrastarævintýrið haldi áfram þjóðinni til heilla um langa framtíð.

Þennan metnað hafa menn hér á Bifröst og það er stórkostlegt að finna það og sjá í stórstígum framkvæmdum hér. Við skólasystkynin sem komum hér fyrir rúmum fjörutíu árum hefðum aldrei getað ímyndað okkur alla þá uppbyggingu sem á sér stað hér við Viðskiptaháskólann á Bifröst. Og þessi athöfn, að afhjúpa þessar styttur nú í dag, er vitni þess að menn vilja stefna inn í framtíðina undir fullum seglum með styrk og grammar taugar til fortíðarinnar, til upprunans, til þeirra hugsjóna sem halda gildi sínu í síbreytilegum heimi og við síbreytilegar aðstæður.

Skólinn hér á Bifröst er sprottinn úr jarðvegi samvinnuhreyfingarinnar. Hún lyfti Grettistaki í íslensku samfélagi. Bifröst er og verður mikilvægasta tákn samvinnuhreyfingarinnar. Önnur félagsform hafa tekið við af kaupfélögum, en það breytir ekki því að samvinnan og hugsjónir hennar munu ávallt lifa.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira