Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

UTN Forsíðuræður

Alþjóðleg barátta gegn mansali

 Fundarstjóri, ágætu fundargestir,

 

Ég vil byrja á því að bjóða ykkur öll velkomin á þessa ráðstefnu hér í Norræna húsinu sem helguð er alþjóðlegri baráttu gegn mansali, eða verslun með fólk.

 

Distinguished guests, I would like to welcome you to this Conference devoted to international efforts to combat the scourge of trafficking in human beings. I would especially like to welcome our guest speakers from Vienna, Ambassdor Stephan Minikes, Permanent Representative of the United States to the OSCE, and Dr. Helga Konrad, Chairperson of the Stability Pact for South Eastern Europe Task Force on Trafficking in Human Beings. We very much appreciate that, despite your busy schedules, you both were able to attend this Conference and share your knowledge with us here today, on this important issue, which is, rightly, high on the international agenda.

 

Það er því miður staðreynd að verslun með fólk fer stöðugt vaxandi. Að mati Sameinuðu Þjóðanna er mansal sú skipulagða glæpastarfsemi sem er í mestum vexti í heiminum í dag. Það er hins vegar nú á síðustu árum að alþjóðasamfélagið er að vakna til vitundar um hversu umfangsmikil þessi alþjóðlega glæpastarfsemi er orðin. Þannig áætla Sameinuðu þjóðirnar að allt að fjórar milljónir einstaklinga sæti mansali í heiminum á hverju ári og hagnaðurinn nemi fimm til sjö milljörðum bandaríkjadala ár hvert. Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE) áætlar að á hverju ári verði á annað hundruð þúsund einstaklingar í Suðaustur-Evrópu fórnarlömb mansals. Erfitt er að fá nákvæmar tölur um mansal en leynd hvílir yfir þessari glæpastarfsemi. Fyrrgreindar tölur bera hins vegar átakanlegum vanda vitni.

 

Fórnarlömb mansals eru fyrst og fremst konur og stúlkubörn frá fátækum ríkjum þar sem fátt er um atvinnutækifæri. Fórnarlömbin eru gjarnan blekkt með auglýsingum um góða vinnu erlendis sem síðan reynist vera vændi á vegum skipulagðra glæpasamtaka. Einnig eru dæmi um að konum og stúlkubörnum sé hreinlega rænt og þær þvingaðar til kynlífsþjónustu. Ánauð mansals getur einnig falist í nauðungarvinnu eða ólöglegu brottnámi líffæra.

 

Mansal tengist annarri skipulagðri alþjóðlegri glæpastarfsemi svo sem ólöglegri verslun með vopn, eiturlyfjasmygli, peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Hér er yfirleitt um vel skipulagða glæpastarfsemi að ræða og margt bendir til þess að starfsemi glæpamanna á þessum sviðum sé að verða sífellt þróaðri, tæknivæddari og miskunnarlausri, enda um mikla hagnaðarvon að ræða.

 

Mansal er glæpastarfsemi sem virðir ekki landamæri. Ekkert ríki getur eitt og sér spornað gegn þessum vágesti. Ríki heimsins eru í vaxandi mæli að átta sig á því að baráttan gegn mansali krefst fjölþættrar og skilvirkrar alþjóðasamvinnu ef hún á að ná tilætluðum árangri. Hér á ég við markvisst samstarf á milli ríkja, alþjóðastofnana og frjálsra félagasamtaka. Efling lögreglusamvinnu er hér afar þýðingarmikil. Einnig verður að tryggja að mansal sé gert refsivert í refsilöggjöf ríkja og að þeir sem slíka glæpastarfsemi stunda séu leiddir fyrir lög og rétt.

 

Palermo-samningur Sameinuðu Þjóðanna gegn fjölþjóðlegri og skipulagðri glæpastarfsemi og viðauki hans um verslun með fólk, einkum konur og börn, gegnir hér mikilvægu hlutverki, en þar er að finna sameiginlega skilgreiningu aðildarríkjanna á mansali.  Samningurinn beinir því til aðildarríkjanna að lögfesta hegningarlagaákvæði til að refsa þeim er gerast sekir um mansal. Ísland undirritaði samninginn og viðaukann 13. desember 2000 og stefnt er að fullgildingu hans. Á síðasta löggjafarþingi var nýju ákvæði bætt við almenn hegningarlög sem kveður á um að mansal sé refsivert og geti varðað allt að 8 ára fangelsi. Einnig má geta þess að Evrópuráðið vinnur nú að undirbúningi alþjóðasamnings um mansal.

 

Íslensk stjórnvöld leggja sérstaka áherslu á mannréttindi kvenna og barna á alþjóðlegum vettvangi. Á sviði baráttunnar gegn mansali má nefna sameiginlegt átak jafnréttis- og dómsmálaráðherra Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna til að sporna við verslun með konur en í því felst markviss kynning á vandamálinu í þessum löndum til að upplýsa almenning. Fulltrúi dóms- og kirkjumálaráðuneytis mun fjalla nánar um árangur af þessu átaki hér á eftir.

 

Innan Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Vín hafa íslensk stjórnvöld lagt ríka áherslu á að efla baráttu stofnunarinnar gegn mansali, en á vegum hennar fer fram margþætt starf á sviði átakavarna, öryggismála auk eflingar mannréttinda og lýðræðis í aðildarríkjunum, sem eru fimmtíu og fimm talsins. ÖSE hefur á undanförnum árum markvisst eflt starfsemi sína gegn mansali með sérstækri aðstoð við einstök aðildarríki m.a. á sviði lagasamvinnu, uppfræðslu almennings, þjálfun lögreglumanna og landamæraeftirlitsfulltrúa, svo að dæmi séu nefnd. Í fyrra var samþykkt að setja á fót sérstaka aðgerðaáætlun ÖSE gegn mansali. Síðar á þessu ári verður ráðinn sérstakur fulltrúi stofnunarinnar sem mun hafa yfirumsjón með aðgerðum ÖSE gegn mansali.

 

Frjáls fjárframlög einstakra ríkja til hinnar alþjóðlegu baráttu gegn mansali eru einnig þýðingarmikil. Á síðasta ári veittu íslensk stjórnvöld 2,5 milljónum króna til eflingar starfsemi ÖSE gegn mansali í Bosníu og Hersegóvínu. Með fjárframlagi Íslands var ráðinn innlendur sérfræðingur til tveggja ára við sendinefnd ÖSE í Bosníu. Starf hans er fólgið í kynningu og fræðslu meðal almennings í Bosníu um mansal og ofbeldi gegn konum og börnum. Auk þess vinnur sérfræðingurinn með þarlendum stjórnvöldum að innleiðingu landsáætlunar Bosníu og Hersegóvínu um aðgerðir gegn mansali. 

 

Ágætu fundargestir,

 

Það er von mín að þessi ráðstefna verði þarft innlegg í umræðu á Íslandi um mansal og hvetji ennfremur til frekari umræðu um aðgerðir gegn þessari ömurlegu glæpastarfsemi. Okkur kemur mansal við. Í ljósi legu Íslands og smæðar þjóðarinnar mætti telja að Ísland sé ekki ákjósanlegur vettvangur fyrir slíka glæpastarfsemi. Það hefur hins vegar orðið ljóst á undanförum mánuðum að glæpahringir hafa reynt að nota Ísland sem flutningsland eða “transit” stað. Einnig bendir ýmislegt til að slík starfsemi gæti náð hér fótfestu. Við verðum því sífellt að halda vöku okkar og vera á varðbergi gagnvart þessum vágesti eins og dæmin hafa sýnt. Virk löggæsla og aukin vitund almennings um þessa glæpastarfsemi eru þar mikilvæg atriði.

 

Í mansali felst gróft brot á grundvallarmannréttindum. Hvorki konur, karlar né börn eiga að ganga kaupum og sölum til kynlífsþrælkunar eða annarrar misnotkunar. Hvergi í heiminum á slík vanhelgun á mannréttindum að líðast. Aðeins með aukinni fræðslu og skilvirku alþjóðlegu samstarfi ríkja á milli, verður sameiginlega hægt að vinna bug á mansali, glæpastarfsemi, sem kalla má þrælahald nútímans.

 

 

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira