Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

UTN Forsíðuræður

Flugstöð Leifs Eiríkssonar

 

Góðir ráðstefnugestir,

Samgöngur til og frá Íslandi hafa vegna legu landsins verið afar mikilvægar fyrir þjóðina allt frá því að land byggðist. “Sveltur sitjandi kráka en fljúgandi fær” segir gamalt máltæki. Hér áður fyrr setti landfræðileg lega íslensku samfélagi vissar skorður.

 

Lengi vel voru samgöngur okkar við önnur lönd einungis tengdar skipaferðum. Með þeirri byltingu sem verður með tilkomu farþega- og vöruflugs verða til ný tækifæri og nýir möguleikar fyrir Ísland enda ferðir til og frá landinu minni þröskuldur en áður.  Stórstígar breytingar hafa orðið á stuttum tíma í fluginu en ekki síður hefur tilkoma þess haft áhrif á samfélagið og þjóðlífið og þar með leikið eitt af lykilhlutverkunum í þeirri nútímavæðingu sem Ísland hefur gengið í gegnum síðustu áratugi. 

 

Með aukinni flugumferð og ekki síst öflugum íslenskum fyrirtækjum í flugrekstri og ferðaþjónustu tryggjum við best uppbyggingu ferðaþjónustunnar og flugsins á Íslandi til lengri tíma litið. Það er sérstaklega ánægjulegt að það hefur verið mikill vöxtur í starfsemi Flugleiða á undanförnum árum og reksturinn gengið vel og að sprottið hafa upp flugfélög sem sérhæfa sig í ákveðnum tegundum flugrekstrar svo sem fraktflugi, lágum fargjöldum, þjónustuleigu og alþjóðlegu leiguflugi.  Þá hefur flugið  verið mikilvægur þáttur í að hjálpa til við aukin vöxt og aukna útrás íslenskra fyrirtækja á alþjóðlega markaði.

 

Góðir gestir,

Hlutverk stjórnvalda er að skapa þá umgjörð, í náinni samvinnu við hagsmunaaðila, sem tryggir áframhaldandi vöxt og viðgang flugrekstrarins á Íslandi. Mikilvægt framfaraspor var sú ákvörðun að ráðast í byggingu Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar og stækkun hennar með byggingu svokallaðrar Suðurbyggingar.

 

Fyrir tíu  árum  síðan var fjárhagsstaða Flugstöðvarinnar mjög slæm. Á undanförnum árum hefur hún styrkst verulega og hafa margir aðilar lagt hönd á plóg við það verk og eiga þeir þakkir skyldar. Stofnun hlutafélags FLE var nauðsynlegt skref í þá átt að styrkja reksturinn, bæta þjónustuna og til að  standa undir nauðsynlegum framtíðarfjárfestingum hverju sinni. Þetta er gott dæmi um það að stjórnvöld þurfi  stöðugt að vera vakandi yfir því hvernig rekstri og þjónustu stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins er fyrir komið þannig að það gagnist sem best fólkinu og fyrirtækjum í landinu. Þá er mikilvægt að fyrirtæki og stofnanir á Keflavíkurflugvelli hafi góða samvinnu sín á milli enda er flugvöllurinn mikilvægasta samgöngumannvirki landsins.

 

Það vill oft gleymast að einnig þarf að hafa góða samvinna um rekstur vallarins við Bandaríkin og önnur NATO ríki þar sem hann hefur þá sérstöðu að gegna mikilvægu hlutverki sem herflugvöllur í tengslum við varnir Ísland og NATO. Skipulag og rekstur flugvallarins er því ekkert einkamál Íslendinga og allar mikilvægar ákvarðanir verða að vera teknar í nánu samráði við Bandaríkjamenn og Atlantshafsbandalagið. Það er því sjálfgefið að utanríkisráðuneytið fari með málefni vallarins.

 

Á síðustu árum hefur átt sér stað mikil uppbygging á Keflavíkurflugvelli. Suðurbyggingin var tekin í notkun fyrir þremur árum og hafnar eru framkvæmdir við stækkun brottfarar og komusala flugstöðvarinnar. Nýtt fraktflughlað sem bætir aðstöðu til fraktflugs til mikilla muna var tekið í notkun fyrir fáeinum mánuðum en það má segja að flugvöllurinn sé nú ein af mikilvægustu “útflutningshöfnum” landsins. Einkaaðilar hafa einnig séð hag sinn í því að bæta sína aðstöðu á flugvellinum og þannig ýtt undir vöxt hans og framtíðarmöguleika fyrirtækjanna. Samfara þessum vexti hefur störfum við flugvöllinn fjölgað á þessum stærsta vinnustað Suðurnesja.

 

Góðir ráðstefnugestir, 

Fyrir um tuttugu árum voru erlendir ferðamenn sem komu til landsins tæplega 85 þúsund.  En á síðasta ári voru þeir rúmlega 320 þúsund og hefur aukningin verið hvað mest nú á síðastliðnum 10 árum. Hlutfall útflutningstekna greinarinnar hefur vaxið jafnt og þétt úr 6,4% 1985 í tæp 13% árið 2002.  Vöxturinn hefur því verið hraður og ferðamannaiðnaðurinn er útflutningsgrein sem skapar verðmætar gjaldeyristekjur fyrir þjóðarbúið.  Ferðamannaiðnaðurinn er því orðin mjög mikilvægur hluti af okkar atvinnulífi, skýtur undir það styrkari stoðum og breikkar þann grunn sem  afkoma okkar byggist á.

 

Ferðaþjónustan og ferðamannaiðnaðurinn er í dag einn mikilvægasti vaxtarbroddur í íslensku atvinnulífi og hefur hann tekið miklum breytingum. Aðbúnaðurinn er orðin betri og þjónustan faglegri og fjölbreyttari. Ferðaiðnaður hefur aðlagað sig að breyttum aðstæðum og hann er fljótur að tileinka sér nýjungar.  Á skömmum tíma hefur byggst upp þekking og reynsla fólks og fyrirtækja í greininni sem skilur þarfir hinna mismunandi hópa sem hingað koma.

 

Halda þarf áfram á þeirri braut að byggja upp ímynd landsins. Í markaðssetningu er það mikilvægast að tryggja ánægðan viðskiptavini, þeir eru besta auglýsingin sem hægt er að hugsa sér. Það er á ábyrgð Íslendinga að markaðssetja landið, það gerir það enginn fyrir okkur. Ég tel að enn séu mikil ónýtt tækifæri hvað varðar ferðamannaiðnaðinn á Íslandi. Í alþjóðlegu samhengi er ferðamannafjöldi hingað til lands mjög lítill og svigrúm til aukningar því mikið. Ísland hefur upp á margt að bjóða, sérstaklega hvað varðar útivist og náttúru. Halda þarf áfram að markaðssetja landið sem öruggan áfangastað sem bíður upp á fyrsta flokks ferðalag.  Með auknum frítíma og hærri tekjum mun stærri hópur fólks kjósa að fara til staða sem bjóða upp á eitthvað sérstakt.

 

Góðir gestir,

En þó að atvinnumálin og ferðamannaiðnaðurinn séu mikilvægir þættir er önnur grundvallarbreyting sem hefur átt sér stað á undanförnum áratugum í tengslum við flugið sem er ekki eins sýnileg. Sú breyting er betri tenging okkar Íslendinga við aðrar þjóðir. Við höfum sótt menntun, þekkingu og reynslu í æ ríkari mæli til útlanda og fundið henni farveg og virkjað hana hér. Þá hefur flugið gert okkur kleift að vera virkari þátttakendur í alþjóðaviðskiptum og alþjóðasamstarfi.

 

Í framtíðinni á flugið eftir að opna fleiri möguleika og hafa enn meiri áhrif á okkar samfélag. Með tilkomu flugsins opnuðust Íslendingum  nýjar dyr og nýir möguleikar sem enn sér ekki fyrir endann á.  Flugstöð Leifs Eiríkssonar og Keflavíkurflugvöllur er gluggi Íslands til annarra þjóða. Þjónustan og aðstaðan þar skiptir sköpum fyrir framtíð samgagna og ferðamála á Íslandi. Ráðstefna sem þessi er því mikilvæg til að íhuga þá möguleika og tækifæri sem okkur kunna að bjóðast í nútíð og framtíð. Enda er brýnt að ræða málefni Keflavíkurflugvallar, hér eftir sem hingað til, til grundvallar þeirri stefnumörkun sem er nauðsynleg í málefnum flugvallarins hverju sinni.

 

Ég lýsi ráðstefnuna hér með opna.

*****Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira