Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra 1995–2004

Fundur samráðsnefndar atvinnulífs og stjórnvalda

Ræða Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra

Samráðsfundur atvinnulífs og stjórnvalda um utanríkisviðskipti

- 14. september 2004 -

 

Ágætu fundargestir.

Ég vil í upphafi bjóða ykkur velkomin á þennan þriðja fund samráðsnefndar atvinnulífs og stjórnvalda um utanríkisviðskipti.

Ég hef lagt á það ríka áherslu að utanríkisþjónustan og aðrir sem vinna að útrásarkeðjunni vinni í takt við íslenskt atvinnulíf. Utanríkisþjónustan er þjónustuaðili - það felst í nafni hennar. Sama dag og að þjónustulundin er ekki til staðar - getum við lagt utanríkisþjónustuna niður.

Þessi samráðsvettvangur er því mikilvægur. Ekki vegna þess sem við viljum segja ykkur heldur vegna þeirra ráða sem þið hafið fram að færa við okkur.

Það gengur ekki fyrir litla þjóð að sérhver aðili vinni í sínu horni - smákóngar hér og þar - þar sem enginn getur unnið með öðrum. Ísland er lítið land og fjármagn okkar og orka er takmörkuð - ef við vinnum ekki saman munum við verða undir í samkeppni við aðrar þjóðir. Útrásarkeðjan er ekki sterkari en veikasti hlekkurinn. Hver hlekkur skiptir því hinn máli. Ferðamál tengjast menningu okkar - og viðskipti tengjast hvorugtveggja. Allir aðilar verða því að vinna saman. Þess vegna er samráð okkar svo mikilvægt.

 Stjórnvöld skapa  hagstætt viðskiptaumhverfi

Lítil hagkerfi eins og okkar eru háð millíríkjaviðskiptum í mun meiri mæli en þau stærri. Þess vegna er það afar mikilvægt að viðskiptakjör okkar á erlendum mörkuðum séu ávallt eins hagstæð og mögulegt er.  EES samningurinn skiptir hér grundvallarmáli, en hér má einnig nefna fríverslunarsamninga, tvísköttunarsamninga, fjárfestingasamninga og loftferðasamninga. Við höfum fjallað um gerð þessara samninga á fyrri fundum og munum halda því áfram í dag.

Öflug utanríkisþjónustan nauðsynleg smáþjóðum

Það er ekki sjálfgefið að lítil þjóð sem okkar búi við þau viðskiptakjör sem við gerum. Við njótum tvímælalaust nánins samstarfs við vini okkar í EFTA, auk þess sem stjórnvöld þurfa að sinna hagsmunagæslunni af árvekni og alúð. Skyndilega getur gefið á bátinn og þá þurfa viðbrögðin að vera snör og fumlaus.

Stundum er sagt að einkenni dvergþjóða sé að þau hafi eina grundvallaratvinnugrein og sinni alþjóðasamskiptum í mjög takmörkuðum mæli. Hagsmunavarsla þeirra snúist fyrst og fremst um markaði í nágrannaríkjunum og vörslu þessarar einu auðlindar.

Við getum fallist á að Ísland féll vel inn í þessa mynd fyrir eigi svo mörgum árum - en ég er þeirrar skoðunar að þetta hafi breyst.

Hagsmunavarsla okkar er fjölbreyttari en svo að hún snúi einungis að sjávarútveginum. Fleiri fyrirtæki skipta grundvallarmáli á sviði lyfjageirans, orkugeirans, bankaviðskipta, hátækni og svo mætti lengi telja. Við erum t.d. stærri í flugsamgöngum en margar milljónaþjóðir.

Stór lönd þurfa minna á fríverslun að halda en smá. Markaður okkar er heimurinn  en miðast ekki eingöngu við innanlandsþarfir. Þess vegna getum við náð lengra og þróað vöru okkar og þjónustu á skilvirkari hátt.

Við þurfum á því að halda að hingað komi ferðamenn frá öllum heiminum - ekki aðeins frá nágrannaríkjum okkar. Við þurfum að geta selt hátæknibúnað jafnt í Afríku, Ameríku, Evrópu sem og Asíu. Tengslanet okkar þarf að vera annað en það var áður. Heimssýn okkar er önnur í dag en hún var fyrir t.d. 40 árum síðan. Okkur eru falin víðtæk ábyrgðarhlutverk á erlendri grundu, innan hinna ýmsu alþjóðasamtaka, sem okkur hefði áður fyrr aldrei staðið til boða. Það þykir varla fréttnæmt í dag að Íslendingur leiði starf innan alþjóðastofnunar eða að Ísland taki að sér alþjóðlegt fyrirsvar á hinum ýmsum sviðum. Þó hefði slíkt verið stórviðburðir á árum áður.

Stundum furðar maður sig á því fólki sem virðist skilja umheiminn betur en allir aðrir og geta rekið utanríkisþjónustu með vinstri hendinni með aðstoð farsíma og tölvu og einnig virðast þeir skilja þjóðarsál Kínverja út og inn eftir nokkurra daga hótelvist þar í landi.

Er það ekki sérkennilegur málflutningur að á sama tíma og íslensk útrás hefur aldrei skipt meira máli og þegar við eigum  meira undir alþjóðlegri hagsmunavörslu en nokkru sinni fyrr, séu það skilaboð sumra að stjórnsýslunni fari best að sitja heima?  Er það virkilega svona sem viðskiptin fara fram?

Nokkur dæmi um farsælt samstarf íslenskra aðila í útrás

Utanríkisþjónustan er í miklum samskiptum við íslensk fyrirtæki dags daglega. Ræðisskrifstofan í New York rekur kynningarverkefnið Iceland Naturally í Bandaríkjunum í samvinnu við Ferðamálaráð og íslensk fyrirtæki sem þar eru á markaðnum. Láta þau vel af því samstarfi og nú er verið að skoða þann möguleika að útvíkka verkefnið til Evrópu.

Í París verður sett á fót umfangsmikil Íslandskynning í lok þessa mánaðar, sem standa mun í tvær vikur. Það er gert í nánu samstarfi við þau íslensku fyrirtæki sem þar eru á markaði eða hyggja á markaðssókn. Þó jökullinn sem fluttur var í gær úr Jökulsárlóninu bráðni á breiðgötum Parísar mun sú athygli sem kynningin hlýtur lifa lengi í minningu milljóna Frakka og vekja athygli um alla Evrópu.

Þá má einnig geta þess að sendiráð okkar í London ber hitann og þungann af kynningu á íslenskum margmiðlunarfyrirtækjum á næstu dögum.

Íslensk fyrirtæki noti utanríkisþjónustuna í enn ríkari mæli

Ég tel að íslensk fyrirtæki geti notað það net sendiráða og viðskiptafulltrúa á erlendri grundu á enn virkari og áhrifaríkari hátt en áður. Ég held að þau séu stundum feimin við okkur og finnist jafnvel að verkefnið sem þau hyggjast biðja okkur um séu ekki nógu ?merkileg?.

Fyrir u.þ.b. tíu árum var viðskiptafulltrúi í New York sem tók m.a. að sér að keyra viðskiptamenn, sem lítið þekktu til í Bandaríkjunum, á viðskiptafundi væri þess óskað. Hans ?mottó? var að ekkert verkefni væri of lítið og ómerkilegt óskaði viðskiptavinurinn eftir því. Viðskiptafulltrúinn þáverandi heitir Jón Sigurðsson og er nú forstjóri eins af okkar öflugustu útrásarfyrirtækjum, Össurar.

Ég segi þessa sögu til þess að leggja áherslu á að sendiráðin okkar eru ekkert annað en þjónustustofnanir fyrir íslenskt atvinnulíf og ég tel að fyrirtæki geti í ríkari mæli leitað til þeirra.  Ég veit til þess að jafnvel stór fyrirtæki á íslenskan mælikvarða eiga stundum í erfiðleikum með að ná eyrum æðstu stjórnenda stórra kaupenda og eiga jafnvel öll sín viðskipti við viðkomandi fyrirtæki undir einum millistjórnanda. Þarna geta sendiráð og sendiherra aðstoðað við að styrkja tengslanet og þar með viðskipti í slíkum tilvikum. Þetta höfum við oft gert og get ég nefnt að nýlega sameinuðust tvö íslensk fyrirtæki og franskur aðili um  hundruða milljóna króna ráðgjafaverkefni í Frakklandi og fullyrða fyrirtækin að tengslin hefðu aldrei komist á nema fyrir ræktarsemi og natni sendiherra okkar þar.

Tækifæri í Asíu - Ferðamálin

Samkvæmt spám mun ferðamannastraumur frá Kína til Evrópu margfaldast á næstunni og innan fárra ára munu 10 milljónir Kínverja sækja Evrópu heim árlega. Sendiráð okkar í Kína og Útflutningsráð vinna að því í samstarfi við íslenska ferðaþjónustuaðila að kynna Ísland í Kína með það að markmiði að auka ferðamannastraum til Íslands. Reyndar tel ég að Ferðamálaráð og utanríkisráðuneytið eigi að vinna nánar saman en gert hefur verið hingað til og gæti samstarf VUR og Útflutningsráðs, sem gengið hefur afar vel, verið lagt til grundvallar.

Lokaorð

Samsetning á okkar útflutningi hefur sennilega breyst meira á síðasta áratug en síðustu 50 ár þar á undan. Árið 1995 nam þorskútflutningur okkar 21 % af gjaldeyristekjunum. Nú er hann 16%. Álframleiðsla hefur þrefaldast á sama tímabili og útflutningur á hugbúnaði hefur meira en fimmfaldast. Lyfjaútflutningur var varla stundaður um miðjan síðasta áratug en var árið 2002 6 milljarðar.

Gamalt máltæki segir að það sé aðeins eitt sem breytist aldrei, það sé sú staðreynd að allt breytist, og það er ekki bara viðskiptalífið og útflutningsmynstrið sem hefur breyst og er að breytast heldur mun verða breyting á mínum högum á morgun.

Ég vil nota þetta þetta tækifæri til þess að þakka ykkur fyrir gott og farsælt samstarf á meðan ég hef gegnt þessu embætti og vonast til þess að það verði ekki síðra á nýjum vettvangi.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira