Hoppa yfir valmynd
13.12. 2018 Utanríkisráðuneytið

Miðað við þróun síðustu ára tæki eina öld að útrýma barnahjónaböndum

Ljósmynd frá Úganda: gunnisal - mynd

Ný rannsókn Efnahags- og framfarastofnunar Evrópu (OECD) leiðir í ljós að barnahjónböndum fækkar hægt en samkvæmt Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna eiga barnahjónabönd að heyra sögunni til árið 2030. Á þessu ári er talið að 16% unglingsstúlkna gangi í hjónaband fyrir átján ára aldur en árið 2012 var hlutfallið 19%. Miðað við það hversu hægt miðar má reikna með að hundrað ár taki að útrýma barnahjónaböndum. Tólf milljónir unglingsstúlkna giftast á hverju ári.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri jafnréttisvísitölu – Social Institution and Gender Index (SIGI) –  sem nær til fjögurra mælikvarða um kynjamismunun. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem náði til 180 þjóðríkja finna konur almennt í heiminum ekki enn fyrir raunverulegum breytingum til bóta þrátt fyrir þrátt fyrir umbætur hvað varðar pólitískar skuldbindingar og lagabreytingar.

Í samantekt um rannsóknina segir engu að síður að mikill stuðningur hafi komið fram á síðustu árum. Um leið og viðurkennt sé að afgerandi skref hafi verið stigin fram á við sé jafnframt kominn tími til að breyta orðræðunni um jafnrétti kynjanna og styrkleika kvenna yfir í beinar aðgerðir. Hingað til virðist sem viðhorfin breytist hægt.

Flestar nýjar lagabreytingar í heiminum til að sporna gegn mismunun kynjanna hafa á síðustu fjórum árum  verið gerðar í Afríkuríkjum. Að sögn Bathylle Missika, yfirmanns jafnréttismála hjá OECD, hafa margar Afríkuþjóðir frá síðustu rannsókn árið 2014 sett inn lagaákvæði gegn kynjamisrétti og ofbeldi. Tíu Afríkuþjóðir hafi innleitt í lög ákvæði gegn heimilisofbeldi, meðal annarra Kenía, Angóla og Úganda, fimm þjóðir hafi hækkað ákvæði laga um hjúskaparaldur og fimm þjóðir lögbundið lágmarksfjölda kvenna á þingi.

Hún bendir á að flest Afríkuríki hafi tryggt fæðingarorlof fyrir foreldra í föstu starfi, sem sé meira heldur en hægt sé að segja um Bandaríkin sem séu eina þjóðin innan OECD sem hafi ekki lögfest fæðingarorlof.

Fram kemur í niðurstöðum rannsóknarinnar að í 41 þjóðríki gilda enn þau lög að aðeins karlmaður geti verið „höfuð heimilisins“; í 27 ríkjum eiga konur samkvæmt lögum að hlýða eiginmanni; og í 24 ríkjum þurfa konur sérstaka heimild frá eiginmanni – eða lögráðamanni – ef þær ætla að vinna utan heimilis.

Jafnrétti kynjanna hefur um langt árabil verið forgangsmál í þróunarsamvinnu á vegum Íslands og sérstakt markmið sem byggist á því að jafnrétti kynjanna og valdefling kvenna sé forsenda fyrir framförum og þróun.

Vefur SIGI

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum