Hoppa yfir valmynd
09.08. 2019 Utanríkisráðuneytið

Tveir íslenskir sendifulltrúar til Sýrlands á vegum Rauða krossins

Jón Eggert Víðisson og Lilja Óskarsdóttir - myndRauði kross Íslands

Rauði krossinn á Íslandi hefur tilkynnt að tveir íslenskir sendifulltrúar hefðu í nýliðnum mánuði farið til Sýrlands þar sem þeir starfa í neyðartjaldssjúkrahúsi í Al-Hol flóttamannabúðunum. 

Al-Hol flóttamannabúðirnar eru í norðurhluta Sýrlands en neyðartjaldssjúkrahúsið hefur verið starfrækt þar frá því í maí síðastliðnum. 70 þúsund manns dvelja í búðunum, þorri þeirra eru konur og börn sem flúið hafa stríðsátök og ofbeldi í Sýrlandi undanfarna mánuði. Veitir sjúkrahúsið þeim nauðsynlega þjónustu. 

Að því er fram kemur í fréttatilkynningu Rauða krossins starfa sendifulltrúarnir tveir, þau Jón Eggert Víðisson og Lilja Óskarsdóttir, á sjúkrahúsinu fram á haustið. Jón Eggert sinnir fjármálastjórnun og almennum umsýslurekstri spítalans á næstu mánuðum en Lilja starfar sem deildarhjúkrunarfræðingur til loka ágúst. Lilja hefur verið sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi til fjölda ára og hefur m.a. starfað í neyðartjaldsjúkrahúsum í Bangladess, Filippseyjum, Nepal, Haítí og víðar. Jón Eggert er í sinni fyrstu starfsferð fyrir Rauða krossinn á erlendum vettvangi en hann hefur áður sinnt störfum í Afríku og Asíu fyrir samtökin Læknar án landamæra.

Í byrjun árs 2018 gerðu Rauði krossinn á Íslandi og utanríkisráðuneytið með sér rammasamning um alþjóðlega mannúðaraðstoð og gildir hann til loka árs 2020. Samningurinn nær til allra óbundinna framlaga ráðuneytisins til mannúðaraðstoðar RKÍ, þar á meðal til verkefna í Sýrlandi, og er ætlað að auka viðbragðsflýti og skilvirkni í mannúðaraðstoð. Áhersla á Sýrland er í samræmi við viljayfirlýsingu utanríkisráðherra frá því fyrra um stuðning við aðgerðir í Sýrlandi og nágrannaríkjum þess sem miða að því að veita sýrlensku flóttafólki nauðsynlega aðstoð.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum