Hoppa yfir valmynd
06.03. 2020 Utanríkisráðuneytið

Tæplega ein milljón flúið í Sýrlandi á síðustu þremur mánuðum

Gífurlegur fjöldi barna og fjölskyldur þeirra hafast við í flóttamannabúðunum í Idlib í Sýrlandi. Ljósmynd: Barnaheill - mynd

Tæplega ein milljón manna hefur neyðst til að flýja heimili sín í Sýrlandi frá byrjun desember á síðasta ári, á síðustu þremur mánuðum, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Save the Children um greiningu á stríðinu í Sýrlandi. Þar er fullyrt að ástandið í norðvesturhluta landsins hafi aldrei verið verra en einmitt nú. Börn eru 60 prósent flóttafólks, þau eru helstu fórnarlömb átakanna og á fyrstu tveimur mánuðum ársins féllu 77 börn á átakasvæðum.

Um miðjan þennan mánuð, 15. mars, eru níu ár liðin frá því stríðið í Sýrlandi hófst. „Margar milljónir flóttafólks hafa neyðst til þess að flýja heimili sín í stríðinu, og þar af helmingur börn, til yfirfullra flóttamannabúða þar sem það býr við ómannúðlegar aðstæður. Börn skortir grunnstoðir í flóttamannabúðum þar sem skortur er á hreinu vatni, næringarríkum mat og menntun. Eins er kalt í búðunum þar sem oftast er ekki hægt að hita upp tjöldin,“ segir í frétt Barnaheilla – Save the Children.

Nýja skýrslan – Displacement & Destruction: Analysis of Idlib, Syra 2017-2020 – er gefin út í samstarfi við Harvard Humanitarian Initiative og World Vision. Í skýrslunni er að finna nýjar gervihnattarmyndir sem sýna að svæði í suður- og austurhluta Idlib hafa orðið fyrir gríðarlega miklum skemmdum. Höfundar skýrslunnar telja að þriðjungur húsa sé ýmist verulega skemmdur eða ónýtur. Aðrar gervihnattamyndir frá norðurhluta Idlib sýna að flóttamnnabúðir hafa stækkað gífurlega á undanförnum árum og teygja sig nú yfir svæði sem áður var blómlegt landbúnaðarsvæði. Talið er að flóttamenn séu þar nú tvöfalt fleiri en árið 2017.

Save the Children og World Vision hvetja alla málsaðila að átökunum til að virða alþjóðleg mannúðar- og mannréttindalög. Nauðsynlegt sé að vernda skóla, sjúkrahús og aðra innviði frá árásunum. Sérstaklega þurfi að vernda börn sem eru afar viðkvæm gagnvart árásum en átökin hafi gríðarleg áhrif á andlega og líkamlega heilsu barna. „Milljónir barna í Sýrlandi þekkja ekkert annað en stríðsástand og þær ómannúðlegu aðstæður sem því fylgja, það brýtur gegn Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna,“ segir Barnaheill – Save the Children í fréttinni.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum