Hoppa yfir valmynd
03.11. 2021 Utanríkisráðuneytið

Rúmlega fjörutíu milljónir við dauðans dyr vegna matarskorts

„Við þurfum rúmlega sex milljarða Bandaríkjadala til þess að hjálpa 42 milljónum manna sem eru við dauðans dyr, ef við komum þeim ekki til bjargar. Það er ekki flókið,“ segir David Beasley framkvæmdastjóri Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna (WFP). Í frétt frá stofnuninni segir að 42 milljónir manna í 43 þjóðríkjum dragi fram lífið við hungurmörk.

Að mati WFP væri unnt að tryggja þessu fólki eina máltíð á dag næsta árið með rúmlega 800 milljarða króna fjárframlagi. Án matar bíði þeirra ekkert annað en sultur.

Beasley segir að þótt heimsfaraldur kórónuveiru auki á vandann hvarvetna eigi þó stríðsátök að mannavöldum stóran þátt í auknum óstöðugleika sem birtist í nýrri hungurbylgju í heiminum. Mannleg eymd af þessum völdum sé ólýsanleg.

Þörfin fyrir mannúðaraðstoð er orðin mest í Afganistan en ástandið er grafalvarlegt í löndum eins og Eþíópíu, Suður-Súdan, Sýrlandi og Jemen. Alls búa 22,8 milljónir Afgana við alvarlegan matarskort eða fleiri en síðustu tíu árin sem Sameinuðu þjóðirnar hafa metið matvælaóöryggi. Þá hefur hungruðum í heiminum fjölgað um 15 milljónir frá því kórónuveirufaraldurinn hófst.

Aldrei í sögu Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna hafa verkefni stofnunarinnar verið jafn umfangsmikil en á þessu ári veitir hún 139 milljónum manna matvælaaðstoð. WFP er ein af lykilstofnunum utanríkisráðuneytisins á sviði mannúðarmála.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum