Hoppa yfir valmynd
26.11. 2021 Utanríkisráðuneytið

Konur í Mið-Afríkulýðveldinu fá ágóða FO-bolanna

Ljósmynd: Sameinuðu þjóðirnar - mynd

Safnast hafa 11,5 milljónir króna vegna sölu nýs FO-bols og rennur ágóðinn óskertur til verkefna UN Women í Mið-Afríkulýðveldinu. „Það er ánægjulegt að segja frá því að við höfum sent 11,5 milljónir króna til verkefna UN Women í Mið-Afríkulýðveldinu,” segir Stella Samúelsdóttir framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

Að sögn Stellu hefur almenningur streymt í verslanir Vodafone og vefverslun unwomen.is undanfarnar vikur, nælt sér í bol og stutt um leið við starf UN Women. Hún segir að á hverri klukkustund sé kona eða stúlka í Mið-Afríkulýðveldinu beitt kynferðisofbeldi. Mið-Afríkulýðveldið hafi verið  nefnt „gleymda ríkið“ þar sem staða íbúa er sérstaklega slæm í ljósi stöðugra átaka undanfarin ár.

„Í þessum átökum hafa nauðganir og kynferðisofbeldi verið notað sem stríðsvopn og glímir fjöldi kvenna og stúlkna við skelfilegar afleiðingar þess. UN Women gleymir ekki og veitir þolendum ofbeldis í Mið-Afríku sálræna aðstoð og aðstoðar þá við að sækja sér læknis- og lögfræðiaðstoð,“ segir Stella og bætir við að einnig veiti UN Women heilbrigðisstarfsfólki þjálfun við að bera kennsl á ummerki heimilisofbeldis og hvernig nálgast eigi þolendur.

„Við hjá UN Women á Íslandi eigum í einstöku samstarfi við Vodafone sem styðja við verkefni UN Women með þeim hætti að greiða fyrir framleiðslu á FO húfum og bolum undanfarin fimm ár. Styrkur Vodafone hefur gert UN Women á Íslandi kleift að senda yfir 70 milljónir til verkefna UN Women víðsvegar um heim nú fimm ár í röð. Við erum afar þakklát og stolt af samstarfi okkar við Vodafone sem sýnir þor og dug við að styðja við útrýmingu ofbeldis bæði hér á Íslandi og á heimsvísu. Einnig erum við gríðarlega þakklát öllum þeim sem hafa keypt FO bolinn og taka um leið skýra afstöðu gegn ofbeldi,“ segir Stella.

Enn eru nokkrir FO bolir til sölu og UN Women hvetur fólk til að næla sér í eintak og styðja við þetta mikilvæga málefni.

  • Konur í Mið-Afríkulýðveldinu fá ágóða FO-bolanna - mynd úr myndasafni númer 1

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum