Hoppa yfir valmynd
23.02. 2022 Utanríkisráðuneytið

Framlög aukin til loftslagsaðgerða í þróunarríkjum

Framlög aukin til loftslagsaðgerða í þróunarríkjum - myndUN Photo/Tim McKulka

Íslensk stjórnvöld hafa ákveðið að auka framlög til stuðnings loftslagsaðgerðum í þróunarríkjum, í samræmi við lokayfirlýsingu COP26 loftlagsráðstefnunnar í Glasgow. Um er að ræða framlög til fjögurra stofnana og sjóða sem eiga það sammerkt að starfa með fátækustu ríkjum heims í baráttu þeirra við loftslagsvána.

Ákveðið hefur verið að auka framlög í Græna Loftslagssjóðinn (Green Climate Fund) og nema þau nú um 80 milljónum króna á ári. Jafnframt var ákveðið að hefja stuðning við Aðlögunarsjóðinn (Adaptation Fund) með árlegum framlögum að upphæð 50 milljónir króna. Einnig mun nú hefjast stuðningur við verkefni Sustainable Energy for All (SEforALL) á sviði jafnréttis og orkuskipta um samtals 50 milljónir króna á tveimur árum og gerður hefur verið rammasamningur um framlög til skrifstofu Eyðimerkursamnings Sameinuðu þjóðanna (UNCCD) sem nemur um 27 milljónum króna á ári.

Í samræmi við alþjóðasamþykktir hafa íslensk stjórnvöld lagt aukna áherslu á loftslagsmál í þróunarsamvinnu. Hafa framlög til loftlagstengdra verkefna þannig farið hækkandi og námu þau 2,7 milljörðum króna á síðasta ári. Samhliða vaxandi framlögum til þróunarsamvinnu hækka framlög til loftlagstengdra verkefna að lágmarki um 500 milljónir króna á þessu ári. Er þar um að ræða hreint viðbótarfjármagn eins og ítrekað hefur verið kallað eftir, nú síðast á COP26.

Þessi ákvörðun er í samræmi við stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar þar sem loftslagsmál eru sett í forgang og lýst yfir vilja til þess að Ísland skipi sér í fremstu röð í baráttunni gegn hlýnun jarðar og við að uppfylla ákvæði Parísarsamningsins.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum