Hoppa yfir valmynd
28.03. 2022 Utanríkisráðuneytið

Sameinuðu þjóðirnar kanna alvarleg mannréttindabrot og stríðsglæpi í Úkraínu

Ljósmynd: UNICEF - mynd

Fimmtíu manna mannréttindasveit Sameinuðu þjóðanna safnar nú upplýsingum um mannréttindabrot í átökum í Úkraínu. Að sögn Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna, UNRIC, hefur sveitin þegar sannreynt dauða 1035 óbreyttra borgara frá því Rússar réðust inn í Úkraínu 24. febrúar og særðir eru 1650 talsins.

Matilda Bogner yfirmaður sveitarinnar segir engan vafa leika á að þessar tölur séu mun hærri. Hún segir nauðynlegt að kanna upplýsingar sem hafi borist um fjöldagrafir í borginni Mariupol. Þær sjást á myndum sem teknar hafa verið úr gervihnöttum og ein þeirra kann að hýsa jarðneskar leifar allt að 200 manna.

„Fjöldi látinna og særðra óbreyttra borgara og eyðilegging borgarlegra skotmarka bendir eindregið til þess að þau grundvallarsjónarmið að gera skuli greinarmun á hernaðarlegum og borgaralegum þáttum hafi ekki verið virt, meðalhófs hafi ekki verið gætt og reglan um viðvaranir sömuleiðis. Sama máli gegnir um bann við  árásum af handahófi,“ segir Bogner.

Hún nefndi sérstaklega tvö dæmi. Annars vegar þegar 47 óbreyttir borgarar voru drepnir þegar tveir skólar og nokkur fjölbýlishús í Chernihiv voru eyðilögð 3. mars. „Allt bendir til að hér hafi verið um loftárásir Rússa að ræða,“ segir Bogner.

Hitt dæmið er þegar sjúkrahús númer 3 í Mariupol var eyðilagt, einnig í rússneskri loftárás. Sautján óbreyttir borgarar, þar á meðal börn og ófrískar konur, voru særðir. Ein hinna særðu gekkst undir keisaraskurðaðgerð við kertaljós, en hvorki tókst að bjarga móður né barni.

Eyðilegging í Úkraínu

Einnig er mannréttindasveitin að kanna ásakanir um handófskenndar stórskotaliðsárásir Úkraínumanna í Donetsk og fleiri svæðum undir stjórn svokallaðra „lýðvelda.“ Enn er verið að kanna ásakanir um að Rússar skjóti á og drepi óbreytta borgara sem verið er að flytja á brott í bifreiðum, „án þess að gera nokkrar varúðarráðstafanir eða vara við.“ Þá eru Rússar sakaðir um að drepa óbreytta borgara í friðsamlegum mótmælum.

„Þessar árásir valda ómældum mannlegum þjáningum og kunna að fela í sér stríðsglæpi og þær verða að hætta,“ segir Bogner.

Sjö blaðamenn og fjölmiðlastarfsmenn hafa verið drepnir í átöknum og ráðist á tólf til viðbótar og hafa fimm þeirra særst.

Allsherjarþingið krefst verndar fyrir óbreytta borgara

Allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti með miklum meirhluta atkvæða í síðustu viku ályktun þar sem þess var krafist að óbreyttum borgurum yrði þyrmt og að hjálparstarfsmenn fengju að athafna sig hindrunarlaust. Þá var Rússland gagnrýnt fyrir að bera ábyrgð neyðarástandi frá því Rússar gerðu innrás í Úkraínu fyrir mánuði. 

140 ríki samþykktu tillöguna en 38 sátu hjá. Fimm ríki greiddu atkvæði gegn tillögunni, en auk Rússland voru það Eritrea, Hvíta-Rússland, Norður-Kórea og Sýrland.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum