Hoppa yfir valmynd
05.05. 2022 Utanríkisráðuneytið

Fjárfesting í ljósmæðrum gæti bjargað 4,3 milljónum mannslífa

Hægt væri að bjarga 4,3 milljónum mannslífa á ári hverju ef ljósmæður væru til staðar við hverja fæðingu. Í þeirri tölu er miðað við að ljósmæður gætu komið í veg fyrir 65 prósent allra dauðsfalla nýbura, andvana fæddra barna og mæðra. Á heimsvísu skortir 900 þúsund ljósmæður, einkum í ríkjum Afríku. Þetta kemur fram í skýrslu Mannfjöldasjóðs Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) Alþjóðasamtaka ljósmæðra (ICM) og Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO).

Í dag, 5. maí, er alþjóðlegur dagur ljósmæðra. Í dag eru líka liðin eitt hundrað ár frá því alþjóðasamtök ljósmæðra voru stofnuð, en landssamtök ljósmæðra í heiminum eru 143 talsins. Þema dagsins vísar í aldarafmælið: 100 ára framþróun.

Íslenskar ljósmæður eru með söfnun í gangi í þágu barnshafandi kvenna í Úkraínu. Margar þeirra hafast við í neðanjarðarbyrgjum, á lestarstöðvum og í kjöllurum sjúkrahúsa, oft við skelfilegar aðstæður. Íslenskar ljósmæður styrkja verkefni sem er skipulagt af pólskum ljósmæðrum sem hafa tekið höndum saman og safna fyrir og útbúa neyðar-fæðingapakka sem komið er til kvenna í Úkraínu. Í pökkunum eru meðal annars fæðingaáhöld, sterílir hanskar, sótthreinsir, bindi og hlý teppi ásamt því nauðsynlegasta fyrir nýbura. Ljósmæðradagurinn verður haldinn hátíðlegur hér á landi föstudaginn 13. maí. 

Áttunda fæðingardeildin opnuð í fyrra í Mangochi

Í Malaví, öðru samstarfsríki Íslands í tvíhliða þróunarsamvinnu, hefur um árabil verið lögð áhersla á stuðning við barnshafandi konur. Fyrir þremur árum var tekin í notkun fæðingardeild við héraðssjúkrahúsið í Mangochi og í fyrra var áttunda fæðingardeildin opnuð. Slíkar deildir tryggja konum sem búa í afskekktum sveitum héraðsins mæðravernd og fæðingarþjónustu. Fæðingardeildirnar sinna um 45 þúsund konum.

Samkvæmt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna er stefnt að því eigi síðar en árið 2030 að komið verði í veg fyrir nýburadauða og andlát barna undir fimm ára aldri, sem unnt er að afstýra, og stefnt að því að öll lönd nái tíðni nýburadauða niður í tólf af hverjum þúsund börnum sem fæðast á lífi og dánartíðni barna undir fimm ára aldri að minnsta kosti niður í 25 af hverjum þúsund börnum sem fæðast á lífi. 

Alþjóðlegur dagur ljósmæðra hefur verið haldinn 5. maí frá árinu 1992 með því markmiði að vekja athygli á ljósmæðrastarfinu og baráttu ljósmæðra fyrir öryggi barnshafandi kvenna um heim allan.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum