Hoppa yfir valmynd
16.05. 2022 Utanríkisráðuneytið

Fjöldi kvenna fær lækningu við fæðingarfistli - takk Ísland!

Nokkrar kvennanna við útskriftina. Ljósmynd: UNFPA - mynd

Þrjátíu og tvær ungar konur voru útskrifaðar á dögunum eftir vel heppnaðar aðgerðir gegn fæðingarfistli frá kvennamiðstöð í Síerra Leóne. Miðstöðin, Aberdeen Women´s Centre, nýtur fjárstuðnings frá íslenskum stjórnvöldum en utanríkisráðuneytið hefur frá árinu 2017 falið Mannfjöldasjóði Sameinuðu þjóðanna (UNFPA) að ráðstafa framlögum í herferð sjóðsins um árangursmiðaðar aðgerðir til að útrýma fæðingarfistli.

Í útskriftarhátíð – „gladi gladi“ á máli heimamanna – hvatti Sibeso Mululuma, fulltrúi UNFPA, ungu konurnar til þess að fara í heimabyggð sína og taka að sér hlutverk sendiherra með því að tala við aðrar konur sem þjást af fæðingarfistli til að leita sér aðstoðar. Liz Goodall, læknir og fistúlusérfræðingur við kvennamiðstöðina tók í sama streng og sagði: „Þið vitið allar hvað það þýðir að lifa með fæðingarfistli. Ég hvet ykkur til að fræða konur í samfélögum ykkar og fá þær til að sækja sér hjálp.“

Fæðingarfistill myndast oft hjá unglingsstúlkum við að fæða börn en þess eru einnig dæmi að barnungar stúlkur fái fæðingarfistil eftir kynferðislegt ofbeldi. Afleiðingarnar eru bæði líkamlegar og félagslegar. Mikill líkamlegur sársauki fylgir fæðingarfistli, til dæmis þegar hann myndast milli ristils og legganga, með þeim afleiðingum að stúlkurnar hafa ekki lengur stjórn á þvaglátum og/eða hægðum með tilheyrandi ólykt sem leiðir til félagslegrar útskúfunar.

Við útskriftarhátíðina tók Sarah Bangura, 22ja ára, til máls og sagði: „Nú er ég eðlileg manneskja á ný. Ég hef stjórn á þvaglátum. Ég missti virðinguna sem kona vegna þess að ég pissaði ómeðvitað á mig. Ég gat ekki átt í samskiptum við fólk. Mér leið ömurlega. Eftir aðgerðina get ég glöð setið meðal fólks. Ég er þakklát öllum þeim sem hafa stutt verkefnið, ekki síst UNFPA og ríkisstjórn Íslands. Hjúkrunarfólk á kvennamiðstöðinni á líka lof skilið fyrir fagmennsku.“

Á síðasta ári voru gengust 184 konur undir aðgerð vegna fæðingarfistils og þær aðgerðir tókust vel í 93 prósent tilvika. Alls voru 353 konur skimaðar vegna fistilsins. Frá árinu 2011 hefur Aberdeen Women´s Centre, framkvæmt 1731 árangursríkar aðgerðir.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan
5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum