Hoppa yfir valmynd
17.05. 2022 Utanríkisráðuneytið

Þungar áhyggjur af fordómum gegn hinsegin fólki

Sendiherrar í Brussel sýna samstöðu í tilefni dagsins.  - mynd

Antonío Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna lætur í ljós áhyggjur af stöðu hinsegin fólks í ávarpi í dag, 17. maí, á alþjóðlegum degi gegn fordómum í garð LGBTIQ+ fólks. Ísland hefur eins og kunnugt er skipað sér á undanförum árum í fremstu röð ríkja sem berjast fyrir félagslegu jafnrétti og fjölbreytileika.

„Ég hef þungar áhyggjur af áframhaldandi ofbeldi, glæpavæðingu, hatursáróðri og harðræði sem LGBTIQ+ fólk sætir. Ekki síst er ástæða til að hafa áhyggjur af nýjum tilraunum til að útiloka þennan hóp frá menntun, atvinnu, heilsugæslu, íþróttum og húsnæði,“ sagði Guterres í ávarpinu.

Samkvæmt frétt frá Upplýsingaskrifstofu Sameinuðu þjóðanna er samkynhneigð bönnuð í 69 ríkjum í heiminum. Það þýðir að um tveir milljarðar manna eða þriðjungur mannkyns, sætir mismunun og mannréttindabrotum.

Aðalframkvæmdastjórinn segir nauðsynlegt að berjast gegn ofbeldi í garð hinsegin fólks, gera skaðlega háttsemi gegn því útlæga, tryggja fórnarlömbum réttlæti og stuðning, og binda endi á hvers kyns ofsóknir, mismunun og glæpavæðingu.

„Sameinuðu þjóðirnar eru stoltar af því að styðja grundvallaréttindi og virðingu allra jarðarbúa, þar á meðal LGBTIQ+ fólks,“ segir Guterres. „Ég hvet alla til þess að leggjast á árarnar með okkur til að byggja heim friðar, samheldni, frelsis og jafnréttis fyrir alla.“

Í tilefni dagsins tók Kristján Andri Stefánsson sendiherra í Brussel, ásamt Davíð Samúelssyni eiginmanni sínum, og öðrum sendiherrum í Brussel þátt í regnbogamyndatöku við Egmont höllina þar sem belgíska utanríkisráðuneytið hefur aðsetur.

Ísland sýndi einnig samstöðu með aðild að sérstakri yfirlýsingu í tilefni dagsins ásamt 35 öðrum ríkjum.

Þá var í dag greint frá því að árlegur samráðsfundur IDAHOT+ Forum verði haldinn á Íslandi á næsta ári í tengslum við formennsku Íslands í Evrópuráðinu. Þetta verður í tíunda sinn sem efnt er til þessa samráðs sem sameinar evrópskar ríkisstjórnir, aðgerðasinna, borgaralegt samfélag og aðra hagsmunaaðila til að meta framgang réttinda hinsegin fólks í álfunni. 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum