Hoppa yfir valmynd
20.05. 2022 Utanríkisráðuneytið

Starf UN Women í Afganistan háð góðvild talíbana

Ljósmynd: UN Women - mynd

„Afganskar konur mega ekki nota almenningssamgöngur eða fara í flug nema í fylgd karlkyns ættingja. Þær mega ekki taka leigubíl, fara einar út í matvöruverslun, eða njóta almenningsgarða nema á sunnudögum, mánudögum og þriðjudögum. Hina daga vikunnar eru garðarnir ætlaðir karlmönnum. Það ríkir því algjör aðskilnaður kynjanna og grundvallarmannréttindi afganskra kvenna eru ekki lengur til staðar,“ segir Alison Davidian, yfirmaður landsskrifstofu UN Women í Afganistan um stöðu kvenna í landinu.

Í grein á vef UN Women er fjallað um konur í Afganistan og þar segir að frá því að talíbanar tóku sér völd í Afganistan í ágúst í fyrra, hafi réttindi kvenna og stúlkna í landinu horfið með öllu. Talíbanastjórnin tilkynnti 7. maí síðastliðinn að konur væru skyldugar til að hylja andlit sitt og líkama á almannafæri.

„Fyrir 15. ágúst 2021 voru konur 28% þingmanna í Afganistan og um 30% opinberra starfsmanna. Stúlkur gátu stundað framhaldsnám og starfrækt var sérstakt jafnréttismálaráðuneyti. Alison segir að þessi framfaraskref hafi horfið á einu augabragði; jafnréttismálaráðuneytið var lagt niður um leið og talíbanar komust til valda og konum sagt að snúa ekki aftur til opinberra starfa. Síðan þá hafa hver grundvallarmannréttindin á fætur öðrum verið hrifsuð af afgönskum konum.“

Níu af hverjum tíu orðið fyrir ofbeldi

„Þessar miklu takmarkanir á réttindum kvenna ofan á algjört efnahagslegt hrun landsins þýðir að afganskar konur eru sérstaklega berskjaldaðar fyrir sárafátækt og viðvarandi hungri. Þær hafa engar bjargir því þær mega ekki einu sinni fara út úr húsi einar, hvað þá vinna,“ útskýrir Alison.

Fyrir COVID-19 heimsfaraldurinn og valdatöku talíbana, höfðu níu af hverjum tíu konum í Afganistan orðið fyrir ofbeldi af hendi maka einhvern tímann á lífsleiðinni. Að sögn Alison er líklegt að þessi tala hafi hækkað í kjölfar COVID-19 og þeirra miklu efnahagsþrenginga sem nú eru.

„Takmarkanir talíbana á líf kvenna hefur einnig áhrif á fjölskyldulíf þeirra. Margar fjölskyldur misstu aðra fyrirvinnu sína og nú þurfa eiginmenn að fylgja konum sínum allt, meira að segja út í matvörubúð. Þetta hefur því líka gríðarleg áhrif á líf afganskra karla og eykur núninginn heima fyrir.“

Flókin og viðkvæm staða

UN Women hefur starfað í Afganistan í tæpa tvo áratugi. Meðal helstu verkefna UN Women í Afganistan eru mannréttindagæsla og verkefni sem stuðla að jafnrétti og veita alhliða þjónustu til þolenda kynbundins ofbeldis. UN Women í Afganistan mun á næstu sex mánuðum efla enn frekar þjónustu við konur í neyð, m.a. með því að koma á fót kvennaathvörfum.

Aðspurð segir Alison starfsumhverfi UN Women í Afganistan óstöðugt og erfitt. Rekstur kvennaathvarfa og annarra þjónustumiðstöðva UN Women er háð góðvild yfirmanna talíbana í hverju héraði fyrir sig.

Í næstu viku mun hún ferðast um landið og eiga í áframhaldandi samtali og samningaviðræðum við talíbanastjórnir um uppbyggingu svokallaðra „one-stop centre“ fyrir konur. Í slíkum miðstöðvum hljóta konur húsaskjól, starfsþjálfun, sálgæslu, læknis- og lögfræðiaðstoð og dagvistun fyrir börn sín.

Eins ólíkir og þeir eru margir

„Talíbanar eru mannlegir og eru eins ólíkir og þeir eru margir og skoðanir þeirra endurspegla það. Þeir eru aftur á móti í flókinni stöðu hvað kvenréttindi varðar. Þeir eiga annað hvort á hættu á að fá alþjóðasamfélagið enn frekar upp á móti sér, eða hermenn sína og stuðningsmenn. Þannig þeir reyna að segja sem minnst. Margir í talíbanastjórninni vita af rekstri kvennaathvarfa UN Women og vita af þörfinni – þeir sjá raðirnar af konum og einstæðum mæðrum sem betla og grátbiðja yfirvöld um aðstoð á hverjum einasta degi.

„Vegna þessa láta margir þeirra rekstur athvarfanna viðgangast. Það er umhverfið sem við störfum við. Við treystum því að þeir láti sem þeir viti ekki af okkur og að við fáum að starfa óáreitt í þágu kvenna. En það hefur líka gerst að athvörfum hefur verið lokað fyrirvaralaust. Þetta krefst stöðugra samningaviðræðna við hverja einustu yfirstjórn í hverju einasta héraði landsins,“ útskýrir Alison.

Sem dæmi um þetta ósamræmi í orðum talíbana eru yfirlýsingar þeirra um skólagöngu stúlkna. Talíbanastjórnin hefur ítrekað lofað því að stúlkur fái að snú aftur til náms, en svo hefur skólum  verið lokað strax á fyrsta skóladegi.

„Við þurfum að aðstoða þá við að láta þessi loforð rætast,“ segir Alison. „Við þurfum að sýna þeim að kvenréttindi eru ekki vestræn hugmyndafræði og því höfum við verið að biðla til annarra ríkja sem eru múslimatrúar um að styðja við okkur. Ýmsir þjóð- og trúarhöfðingar frá nágrannaríkjunum hafa stigið fram og bent á að ekkert í íslam banni skólagöngu stúlkna. Þetta eykur á þrýstinginn.“

Stuðningur einkageirans nauðsynlegur

Innt eftir því hvað almenningur á Íslandi geti gert til að styðja við afganskar konur og stúlkur á þessum tímum, segir Alison að fólk geti m.a. stutt við samtök á borð við UN Women með fjárframlögum.

„Fjárstuðningur er nauðsynlegur því búið er að frysta alþjóðlegt fjármagn til landsins sem gerir starfsumhverfi okkar mjög erfitt. Fólk getur einnig stutt við þau sem flúið hafa Afganistan til Íslands og verið þeim innan handar. Það er einnig mjög hjálplegt að fylgja afgönskum baráttukonum á samfélagsmiðlum til að tryggja að raddir þeirra heyrist og berist sem víðast.“

Alison hvetur jafnframt íslensk fyrirtæki til að sýna frumkvæði í þessum efnum.

„Einkageirinn þarf að taka frumkvæðið í uppbyggingu Afganistan þar sem ríkisstjórnir gera það ekki. Talíbanar eru ekki viðurkenndir sem opinber stjórn landsins og alþjóðasamfélagið hefur því sett öll þróunarframlög til landsins í frost. Þörfin er gríðarleg, um 90% þjóðarinnar er á barmi hungursneyðar, atvinnuleysi er í hámarki og erfiður vetur hefur gert stöðuna enn verri,“ segir Alison að lokum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna
2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum