Hoppa yfir valmynd
24.05. 2022 Utanríkisráðuneytið

Metfjöldi á flótta vegna átaka og loftslagsbreytinga

Ljósmynd: UN Women - mynd

Flóttafólk í heiminum hefur aldrei verið fleira en í dag. Eitt hundrað milljónir manna hafa neyðst til að flýja heimili sín vegna átaka, ofsókna eða loftslagsbreytinga, samkvæmt Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna, UNCHR.

„Hundrað milljónir er vægðarlaus tala – alvarleg og skelfileg í senn. Þetta eru mettölur sem við hefðum helst aldrei viljað sjá,“ segir Filippo Grandi, framkvæmdarstjóri Flóttamannastofnunarinnar. „Vonandi verður þetta hvati fyrir okkur til að vinna að því að leysa og koma í veg fyrir vopnuð átök, hætta ofsóknum og takast á við orsakir þess að saklaust fólk neyðist til að flýja heimili sín.“

Í lok árs 2021 hafði fjöldi fólks á flótta náð níutíu milljónum, meðal annars vegna vopnaðra átaka í Eþíópíu, Búrkína Fasó, Mjanmar, Nígeríu, Afganistan og Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó.

Stríðið í Úkraínu í upphafi ársins hefur neytt um átta milljónir til þess að yfirgefa heimili sín. Þar af hafa um sex milljónir flúið til annarra ríkja Evrópu, þar með talið til Íslands.

Eitt prósent jarðarbúa á flótta

Hundrað milljónir er því sem nemur eitt prósent jarðarbúa. Rúmur helmingur þeirra, eða um 53,2 milljónir, eru á flótta innan eigin ríkis vegna vopnaðra átaka.

Ofsaveður á borð við flóð, storma og hitabeltisstorma knúðu 23,7 milljónir á flótta frá heimilum sínum í 2021, aðallega í Asíu og Kyrrahafinu.

„Viðbrögð alþjóðasamfélagsins við fólki sem flúið hefur átökin í Úkraínu hafa almennt verið jákvæð. Samkenndin er enn á lífi og við þurfum að sjá samskonar samkennd við öllum krísum. Mannúaraðstoð er viðbragð en ekki lækning við þeirri krísu sem við stöndum frammi fyrir. Eina leiðin til að snúa þessari þróun við er að stuðla að friði og öryggi. Saklaust fólk á ekki að þurfa að taka þá ómögulegu ákvörðun um að búa við óöryggi og lífshættu heima hjá sér eða að flýja út í óöryggi og óvissu,“ segir Grandi.

Kvenmiðuð neyðaraðstoð aldrei mikilvægari

Stríðsátök hafa ólík áhrif á líf fólks eftir stöðu þeirra og kyni. Á meðan karlmenn eru líklegri til að deyja í átökum eru konur líklegri til að verða fyrir kynbundnu ofbeldi, mansali og búa við skort þegar stríðsátök geisa. Þá margfaldast tíðni mæðra- og ungbarnadauða á stríðstímum.

UN Women hefur lagt mikla áherslu á að kvenmiðuð neyðaraðstoð sé veitt á átakatímum, ekki aðeins í sínum verkefnum heldur einnig verkefnum annarra viðbragðsaðila og stofnana Sameinuðu þjóðanna. Mikilvægi kvenmiðaðrar neyðaraðstoðar hefur aldrei verið jafn mikilvæg og nú.

Heimild: UN Women

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum