Hoppa yfir valmynd
01.06. 2022 Utanríkisráðuneytið

Allar vanræktustu mannúðarkreppurnar í Afríku

Of lítil athygli beinist að mannúðarvanda í Afríku þar sem milljónir manna eru á vergangi víðs vegar um álfuna og draga fram lífið við linnulaus stríðsátök og yfirvofandi ótta um hungurdauða, að mati norska flóttamannaráðsins (NRC) sem hefur tekið saman árlegan lista yfir tíu vanræktustu mannúðarkreppurnar í heiminum. Þær eru allar í Afríku.

„Með stríðinu í Úkraínu sem fangar athyglina óttast ég að þjáningar Afríkubúa verði enn ósýnilegri en áður,“ segir Jan Egeland framkvæmdastjóri NRC í yfirlýsingu í dag.

Löndin tíu sem NRC telur að búi við vanræktustu mannúðarkreppurnar eru: Lýðstjórnarlýðveldið Kongó (DRC), Búrkína Fasó, Kamerún, Suður-Súdan, Tjad, Malí, Súdan, Nígería, Búrúndi og Eþíópía.

Þetta er í fyrsta sinn sem allar tíu kreppurnar á lista ráðsins eru í Afríku. Til grundvallar listanum eru ýmsar viðmiðanir, meðal annars skortur á viðbrögðum alþjóðasamfélagsins, fátækleg umfjöllun fjölmiðla og skortur á fjármagni miðað við fjárþörf.

Lýðstjórnarlýðveldið Kongó er annað árið í röð í efsta sæti á lista NRC en þriðjungur þjóðarinnar var við hungurmörk á síðasta ári eða um 27 milljónir manna. Á sama tíma voru 5,5, milljónir á hrakhólum innan lands og ein milljón flúin til nágrannaríkja. Hins vegar voru engar alþjóðlegar fjáröflunarráðstefnur haldnar vegna Kongó. Sameinuðu þjóðirnar telja fjárþörfina nema tveimur milljörðum Bandaríkjadala en aðeins hefur tekist að ná 44 prósentum af þeirri upphæð.

Sjá nánar á vef NRC

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
13. Aðgerðir í loftslagsmálum
2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum