Hoppa yfir valmynd
13.06. 2022 Utanríkisráðuneytið

Úkraína: Rannsaka 124 tilkynningar um kynferðisbrot

Ljósmynd: UN Women - mynd

Ásökunum um kynferðisofbeldi af hendi rússneskra hermanna í Úkraínu heldur áfram að fjölga, að sögn Pramilu Patten, sérstaks fulltrúa framkvæmdarstjóra Sameinuðu þjóðanna sem rannsakar kynferðisbrot sem eiga sér stað í vopnuðum átökum. UN Women greinir frá og hefur eftir Patten að mikið ósamræmi sé á milli þess hryllings sem á sér stað á átakasvæðum og þeim metnaði sem alþjóðasamfélagið hefur fyrir því að útrýma nauðgunum sem stríðsvopni.

Patten kynnti nýjan rammasamning um forvarnir og viðbrögð við stríðstengd kynferðisbrot fyrir Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í vikunni. Rammasamningurinn á að styrkja baráttuna gegn kynferðisglæpum í stríði og tryggja að gerendur séu dregnir til saka fyrir glæpi sína.

Patten segir rammasamninginn forgangsraða þörfum kvenna og stúlkna á átakasvæðum.

„Þarfir kvenna og stúlkna á tímum átaka eru alltof oft settar til hliðar eða meðhöndlaðar sem eftirþanki.“

124 brot til rannsóknar

Þótt alþjóðalög og fjölmargar ályktanir Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna skilgreini nauðganir á átakatímum sem stríðsglæp, vantar enn upp á eftirfylgnina að sögn Patten.

„Í ný-yfirstaðinni heimsókn minni til Úkraínu kom bersýnilega í ljós hið mikla misræmi sem ríkir á milli ásetnings alþjóðasamfélagsins og raunveruleikans sem konur búa við á átakatímum,“ sagði hún og vísar þar til þeirrar staðreyndar að nauðgunum er enn beitt sem stríðsvopni án þess að refsingar liggi við.

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur þegar til rannsóknar 124 mál um að nauðgunum hafi markvisst verið beitt sem stríðsvopni í Úkraínu.

UN Women í Úkraínu tryggir þolendum viðeigandi aðstoð og sér til þess að stofnanir, félagasamtök sem og úkraínsk stjórnvöld séu meðvituð um hvernig eigi að meðhöndla slík mál; hvert eigi að beina þeim og hvernig eigi að tikynna þau. Þá hefur UN Women í Úkraínu beitt sér fyrir aukinni öryggisgæslu í von um að tryggja enn frekar öryggi kvenna og stúlkna. Að sögn Eriku Kvapilova, fulltrúa UN Women í Úkraínu, hefur stofnunin einnig komið á samstarfi við félag lögfræðinga svo hægt sé að tryggja þolendum lagalega aðstoð.

Hræðilegar frásagnir

Þótt úkraínskar konur og stúlkur séu meirihluti þolenda hefur nauðgunum einnig verið beitt gegn karlmönnum og ungum drengum.

Komið hefur verið á fót neyðarlínu í Úkraínu þangað sem tilkynna má brot um heimilisofbeldi, mansal og kynferðisofbeldi. Frásagnirnar eru hræðilegar, að sögn Patten. Tilkynningar hafa borist um hópnauðganir, þvingað vændi og dæmi eru um að fjölskyldumeðlimir séu þvingaðir til að vera vitni að því þegar brotið er á ástvinum.

Patten segir gríðarlega mikilvægt að forgangsraða þjónustu til þolenda kynferðisofbeldis strax.

„Í stríði er erfitt að halda nákvæmt „bókhald“ … en ef við bíðum of lengi með að hefja gagnaöflun, þá verður það orðið of seint. Við þurfum ekki nákvæmar tölur til að geta brugðist við þörfinni strax.“

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum