Hoppa yfir valmynd
14.06. 2022 Utanríkisráðuneytið

Alþjóðabankinn styrkir smábændur í Afganistan

Ljósmynd: FAO/Danfung Dennis - mynd

Alþjóðabankinn tilkynnti í gær um 25 milljarða króna lífsbjargandi fjárstuðning við smábændur í Afganistan, eða sem nemur tæplega 200 milljónum Bandaríkjadala. Um það bil helmingur afgönsku þjóðarinnar býr við sult, um 19,7 milljónir íbúa, sem merkir að það getur ekki nært sig daglega.

Áhrif innrásar Rússa í Úkraínu er helsta ástæða aukins fæðuóöryggis í Afganistan, eins og víðar, að því er segir í frétt Sameinuðu þjóðanna þar sem Qu Dongyu forstjóri Matvæla- og landbúnaðarstofnunar SÞ, FAO, fagnar fjárstuðningi Alþjóðabankans. Matvælaverð hefur hækkað mikið síðustu mánuði, auk þess sem kostnaður við matvælaframleiðslu hefur aukist, ekki síst vegna hækkunar á verði áburðar.

Fjárstuðningur Alþjóðabankans fer til verkefnis í Afganistan sem hefur það markmið að auka innlenda landbúnaðarframleiðslu smábænda. FAO kemur til með að stýra verkefninu í Afganistan. „Þetta er söguleg stund fyrir fátæka bændur í Afganistan og mikilvægur áfangi í sameiginlegri viðleitni okkar að afstýra yfirvofandi hörmunum og gera raunverulega breytingu í lífi fólks sem stendur höllum fæti,“ er haft eftir Qu Dongyu.

Því sem næst ein milljón íbúa Afganistan nýtur góðs af stuðningi Alþjóðabankans, einkum konur til sveita, en 150 þúsund þeirra fá þjálfun í ræktunartækni og næringarfræðum. Einn af verkefnaþáttunum er að auka aðgengi að vatni til áveitu, en einnig verður lögð áhersla á að bæta jarðveg og auka vatnsvernd.

Reiknað er með að rúmlega 1,9 milljónir Afgana hafi tekjur af verkefninu gegn vinnuframlagi.

Alþjóðabankinn er ein af fjórum megin samstarfsstofnunum Íslands á sviði fjölþjóðlegrar þróunarsamvinnu og meðal stærstu alþjóðastofnana á sviði þróunarsamvinnu í heiminum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur
16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum