Hoppa yfir valmynd
19.07. 2022 Utanríkisráðuneytið

Stöðug fjölgun flóttafólks í heilan áratug

Skelfing og ótti í augum ungrar stúlku við landamæri Tyrklands og Grikklands. © UNICEF/Almohibany - mynd

Í nýrri skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNHCR, kemur fram að fólki sem er tilneytt að að flýja heimili sín hafi fjölgað á hverju ári undanfarinn áratug og hafi ekki ekki verið fleiri frá því mælingar hófust. „Þeirri þróun er aðeins hægt að snúa við með nýrri samstilltri friðarviðleitni,“ segir í skýrslunni, Global Trends Report 2021.

Í árslok 2021 voru 89,3 milljónir á flótta vegna stríðs, ofbeldis, ofsókna og mannréttindabrota. Þetta er 8 prósenta aukning frá árinu áður og vel rúmlega tvöföldun frá því fyrir tíu árum. Frá þeim tíma hefur komið til sögunnar innrás Rússa í Úkraínu, sem olli skjótustu og umfangsmestu kreppu vegna nauðungarflótta frá síðari heimsstyrjöld. Þessu til viðbótar má nefna önnur neyðaratvik, allt frá Afríku til Afganistans og víðar, sem valda því að samtals er fjöldi flóttamanna nú kominn yfir 100 milljónir.  

„Fjöldinn hefur aukist á hverju ári síðasta áratuginn,“ sagði Filippo Grandi, Flóttamannastjóri Sameinuðu þjóðanna. „Annað hvort mun alþjóðasamfélagið grípa til aðgerða í sameiningu til að takast á við þennan mannlega harmleik, leysa átök og finna varanlegar lausnir, eða þessi hræðileg þróun heldur áfram.”  

Síðasta ár var eftirtektarvert fyrir fjölda átaka sem stigmögnuðust og ný sem blossuðu upp. Alls 23 lönd, með samanlagt 850 milljónir íbúa, stóðu frammi fyrir miðlungs- eða miklum átökum, að mati Alþjóðabankans. Á sama tíma hafa matarskortur, verðbólga og loftslagskreppan magnað erfiðleika fólks og aukið þörf á mannúðaraðstoð, samtímis því að fjármögnunarhorfur virðast ekki bjartar víðs vegar í heiminum.

Fjöldi flóttamanna jókst á síðasta ári um 27,1 milljón. Flóttamönnum fjölgaði meðal annars í Úganda, Tsjad og Súdan. Tekið var enn og aftur á móti flestum flóttamönnum í nágrannalöndum hamfarasvæða, sem búa yfir fáum úrræðum. Fjöldi hælisleitenda náði 4,6 milljónum, sem er 11 prósenta aukning.  

Á síðasta ári fjölgaði fólki á flótta undan átökum í eigin landi fimmtánda árið í röð. Það telur nú 53,2 milljónir. Aukningin var knúin áfram af vaxandi ofbeldi eða átökum á ýmsum stöðum, til dæmis í Mjanmar. Átökin í Tigray í Eþíópíu og öðrum svæðum hafa ýtt undir flótta milljóna manna innan landsins. Uppreisnarástand á Sahel-svæðinu olli nýjum landflótta, einkum í Búrkína Fasó og Tsjad. Hraði og umfang fólksflótta er enn meiri en tiltækar lausnir fyrir þá sem eru á flótta. Á meðal úrræða má nefna að flóttamenn snúi aftur heim, séu sendir til annara landa eða aðlagist mótttökuríkinu 

Þrátt fyrir þetta má finna vonarglætu í nýju skýrslunni. Fjöldi þeirra flóttamanna og fólks sem hafði verið á flótta innanlands sem snúið hafði heim jókst árið 2021 og er nú svipaður og var fyrir COVID-19. Þessi fjölgun nam 71 prósenti en heildarfjöldinn var þó ekki mikill.   

„Þótt við verðum vitni að skelfilegum nýjum flóttamannavanda og vandinn sem fyrir var hafi aukist og sé óleystur, eru einnig dæmi um að lönd og samfélög hafi unnið saman að því að leita lausna fyrir flóttafólk,“ bætti Grandi við. „Þetta er að gerast á ýmsum stöðum – til dæmis má nefna svæðisbundið samstarf um að gera flóttamönnum frá Fílabeinsströndinni kleift að snúa aftur heim. Þetta getur verið fyrirmynd fyrir aðra og helst á umfangsmeiri hátt.“  

Og þótt áætlaður fjöldi ríkisfangslausra hafi aukist lítillega árið 2021, öðluðust um 81.200 einstaklingar ríkisborgararétt eða fengu hann staðfestan – sem er mesta fækkun ríkisfangsleysis frá upphafi IBelong herferðar Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna árið 2014. 

Byggt á grein á vef UNHCR.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum