Hoppa yfir valmynd
25.07. 2022 Utanríkisráðuneytið

„Afleiðingarnar mældar í mannslífum“

Ljósmynd: UNICEF/Asad Zaidi - mynd

Samkvæmt gögnum sem Sameinuðu þjóðirnar birtu á dögunum hefur á undanförnum misserum verulega dregið úr bólusetningum barna, meira en nokkru sinni á síðustu þremur áratugum. Alls hafa um 25 milljónir ungbarna misst af bólusetningum gegn ýmsum banvænum sjúkdómum.

Tölurnar, sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin, WHO, og Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, hafa gefið út, sýna að hlutfall barna sem hafa fengið þrjá skammta af bóluefni gegn barnaveiki, stífkrampa og kíghósta lækkaði um heil fimm prósent á árunum 2029 til 2021, niður í 81 prósent.

Ástæður samdráttarins eru af margvíslegum toga, meðal annars fjölgun barna sem búa á átakasvæðum og ýmiss konar truflunum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. „Þetta er rauð viðvörun um heilsu barna. Við höfum orðið vitni af mesta samdrætti bólusetninga barna um áratugaskeið. Afleiðingarnar verða mældar í mannslífum,“ er haft eftir Catharine Russell framkvæmdastjóra UNICEF í frétt frá Sameinuðu þjóðunum.

Hún segir COVID-19 enga afsökun. Lengi hafi verið ljóst að átak þyrfti til að bólusetja þær milljónir barna sem misst hafi af bólusetningum á síðustu árum ella sé óhjákvæmilegt að við verðum vitni af fleiri faröldrum, veikari börnum og enn meira álagi á heilbrigðiskerfi.

Flest barnanna sem hafa ekki fengið bólusetningu gegn lífshættulegum sjúkdómum á síðustu árum eru flest í lágtekju- og millitekjuríkjum eins og Indlandi, Nígeríu, Indónesíu, Eþíópíu og Filippseyjum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

3. Heilsa og vellíðan

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum