Hoppa yfir valmynd
26.07. 2022 Utanríkisráðuneytið

Óttast um heilsufar flóttafólks í gistiríkjum

Ljósmynd: IOM/Muse Mohammed - mynd

Ástæða er til að óttast um heilsufar flótta- og farandfólks í gistiríkjum sökum þess að sá hópur býr við lakara aðgengi að heilbrigðisþjónustu en íbúar viðkomandi ríkja, að því er fram kemur í nýrri skýrslu Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar, WHO. Ekki hefur áður verið unnin rannsókn á þessu sviði og Tedros Adhanom Ghebreyesus framkvæmdastjóri WHO segir skýrsluna marka tímamót, viðvörunarbjöllum sé hringt.

Rannsóknin varpar ljósi á heilsufarsáhættu, áskoranir og hindranir sem milljónir flótta- og farandfólks standa frammi fyrir daglega. Hún leiðir í ljós mikið misræmi milli heilsu þessa hóps borið saman við íbúa í gistiríkjunum. Þá sýnir rannsóknin að margt farandverkafólk vinnur hættuleg störf og krefjandi án viðunandi félags- og heilsuverndar eða fullnægjandi aðbúnaðar um vinnuvernd.

"Flóttamenn og farandverkamenn eru nánast fjarverandi í alþjóðlegum könnunum og heilbrigðisgögnum, sem gerir þessa viðkvæmu hópa nánast ósýnilega þegar unnið er að endurbótum heilbrigðiskerfa og þjónustu," segir Tedros.

Hann bendir á að einn milljarður manna eða einn af hverjum átta íbúum jarðar sé flótta- eða farandverkamaður og sú tala hækki jafnt og þétt. „Sífellt fleiri verða á faraldsfæti til að bregðast við vaxandi átökum, loftslagsbreytingum, auknum ójöfnuði og neyðarástandi á heimsvísu, svo sem COVID-19 heimsfaraldrinum. Þessi þjóðfélagshópur stendur frammi fyrir mörgum hindrunum, þar á meðal beinum útlögðum kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu, mismunun og ótta við gæsluvarðhald eða brottvísun," sagði Tedros.

Hann skorar á stjórnvöld allra ríkja og samtök sem vinna með flótta- og farandfólki til að taka höndum saman til að vernda og efla heilsu þessa hóps. Í skýrslunni eru settar fram leiðir til að ná fram réttlátari heilbrigðisþjónustu án aðgreiningar sem setur velferð allra í forgang.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti
3. Heilsa og vellíðan
17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum