Hoppa yfir valmynd
29.07. 2022 Utanríkisráðuneytið

Heimurinn færist fjær heimsmarkmiðinu um ekkert hungur

Ljósmynd: gunnisal - mynd

Ný árleg skýrsla Sameinuðu þjóðanna um hungur í heiminum sýnir að vannærðu fólki sem býr við fæðuóöryggi fjölgaði á síðasta ári um 46 milljónir og alls um 150 milljónir frá upphafi heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Í árslok síðasta árs drógu 828 milljónir jarðarbúa fram lífið við hungurmörk.

„Það er raunveruleg hætta á að þessar tölur hækki enn frekar á komandi mánuðum. Markaðsverð á matvælum, eldsneyti og áburði er í hæstu hæðum vegna átakanna í Úkraínu sem gæti leitt til hungursneyðar um allan heim. Afleiðingin verður hnattrænn óstöðugleiki, hungursneyð og fjöldaflutningar í áður óþekktri stærðargráðu. Við verðum strax að bregðast við til að afstýra þessum yfirvofandi hamförum," segir David Beasley framkvæmdastjóri Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna, WFP.

Skýrslan – The State of Food Security and Nutrition in the World – gefur vísbendingar um að heimurinn sé að færast lengra frá heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna um að binda enda á hungur, fæðuóöryggi og vannæringu fyrir árið 2030. Miðað við þessa þróun er því spáð að árið 2030 búi um 670 milljónir manna við sult, eða um 8 prósent jarðarbúa. Það er sama hlutfall og árið 2015 þegar heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun voru kynnt, meðal annars annað heimsmarkmiðið: Útrýma hungri, tryggja fæðuöryggi og bætta næringu og stuðla að sjálfbærum landbúnaði.

Skýrslan er gefin út af fimm stofnunum Sameinuðu þjóðanna, Matvæla- og landbúnaðarstofnun SÞ, FAO, Alþjóðasjóði um landbúnaðarþróun, IFAD, Barnahjálp SÞ, UNICEF, Matvælaáætlun SÞ ,WFP, og Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, WHO.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

2. Ekkert hungur

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum