Hoppa yfir valmynd
29.08. 2022 Utanríkisráðuneytið

70 prósent tíu ára barna skilja ekki einfaldan ritaðan texta

Ljósmynd: gunnisal - mynd

Sameinuðu þjóðirnar boða til leiðtogafundar um miðjan næsta mánuð til að bregðast við þeirri djúpu alþjóðlegu kreppu í menntamálum sem blasir við í heiminum, þeirri dýpstu sem sögur fara af. Samkvæmt nýrri skýrslu frá Alþjóðabankanum, UNICEF, UNESCO og fleirum, er talið að 70 prósent tíu ára barna skilji ekki einfaldan ritaðan texta. Þetta hlutfall var 57 prósent fyrir heimsfaraldurinn.

Leiðtogafundurinn er haldinn að frumkvæði aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og stendur yfir í þrjá daga, 16., 17., og 19. september í New York. „Á leiðtogafundinum gefst einstakt tækifæri til að setja menntun í öndvegi alþjóðlegrar pólitískrar dagskrár til að virkja aðgerðir, metnað, samstöðu og lausnir um endurheimt námstaps sem tengist heimsfaraldrinum og sá fræjum til að umbreyta menntun í ört breyttum heimi,“ segir í kynningartexta um fundinn sem ber yfirskriftina „Transforming Education Summit.“

Þess er vænst að á leiðtogafundinum verði sammælst um innlendar og alþjóðlegar skuldbindingar um umbreytingu menntunar með áherslu á aukna þátttöku og stuðning almennings við þær gagngeru breytingar. Reiknað er með að António Guterras aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna skrifi undir yfirlýsingu um framtíðarsýn í menntamálum að fundi loknum.

Skýrsla Alþjóðabankans og fleiri fyrr í sumar – The State of Global Learning Poverty: 2022 Update – sýnir að langvarandi lokanir skóla í heimsfaraldrinum og ófullnægjandi mótvægisaðgerðir höfðu alvarleg áhrif á menntun barna og ungmenna. Nefnd eru dæmi frá Rómönsku Ameríku og Karíbahafseyjum þar sem talið er að 80 prósent grunnskólabarna geti nú ekki skilið einfaldan skrifaðan texta en hlutfallið var 50 prósent fyrir heimsfaraldur. Svipað hlutfall barna í Suður-Asíu, eða 78 prósent, skortir lágmarksfærni í læsi en var 60 prósent fyrir faraldurinn. Í sunnanverðri Afríku var skólum að jafnaði ekki lokað jafn lengi og víða annars staðar í heiminum og námstapið því ekki jafn mikið. Engu að síður er ólæsi útbreitt eða um 89 prósent meðal tíu ára barna í þeim heimshluta.

Sameinuðu þjóðirnar benda á að þetta alvarlega ástand í menntamálum hafi gerst í mörgum tilvikum hægt og hljótt en það hafi skelfileg áhrif á framtíð barna og ungmenna um allan heim. Verði ekki brugðist við komi neikvæð áhrif menntunarskorts til með að hamla sameiginlegri leit okkar að friði, réttlæti, mannréttindum og sjálfbærri þróun um ókomna áratugi.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum