Hoppa yfir valmynd

Prótokoll

Prótokollskrifstofa utanríkisráðuneytisins annast réttindi og skyldur erlendra sendiskrifstofa á Íslandi. Þær eru núna 17 talsins eftir að stjórnvöld í Grænlandi opnuðu sendiskrifstofu í Reykjavík í október 2018. Stig sendiskrifstofu Póllands var hækkað í lok árs 2017 þegar pólsk stjórnvöld skipuðu sendiherra með aðsetur í Reykjavík en um nokkra ára skeið hafði sendifulltrúi stjórnað sendiráðinu.

Mikil vinna felst í að annast regluleg samskipti við erlendu sendiskrifstofurnar og þau rúmlega 115 erlendu sendiráð gagnvart Íslandi sem staðsett eru í erlendum höfuðborgum, einkanlega í höfuðborgum Norðurlandanna. Þessi samskipti varða öll þau ríki sem Ísland er í stjórnmálasambandi við, þó einkum hin formlegu samskipti erlendra sendiráða við utanríkisráðuneytið og ýmis framkvæmdaatriði sem lúta að friðhelgisréttindum og úrlendisrétti erlendra sendiráða samkvæmt Vínarsamningnum um stjórnmálasamband frá 1961. Allir sendiráðsstarfsmenn í sendiráðum gagnvart Íslandi eru skráðir í ritið Diplomatic List and List of Honorary Consuls in Iceland sem prótokollskrifstofa annast árlega. Í henni eru hagnýtar upplýsingar um erlend sendiráð gagnvart Íslandi. Sinna þarf ýmis konar fyrirgreiðslu vegna búsetu erlendra sendiráðsmanna á Íslandi, þ.m.t. að útvega dvalarleyfi á Íslandi, atvinnuleyfi maka diplómata og gefa út diplómataskírteini. Ýmis konar starf hlýst af réttindum sendiráðsstarfsmanna, eins og skattaundanþágum á vörum samkvæmt reglum.

Prótokollskrifstofan annast framkvæmdaatriði í samvinnu við forsetaskrifstofu vegna afhendinga trúnaðarbréfa erlendra sendiherra, sem afhenda forseta Íslands trúnaðarbréf. Skrifstofan skipuleggur einnig dagskrá fyrir nýja sendiherra þegar þeir koma til að afhenda trúnaðarbréf og í kveðjuheimsóknir.

Skrifstofan er einnig til ráðgjafar um val ræðismanna erlendra ríkja á Íslandi og annast viðurkenningu íslenskra stjórnvalda á skipun kjörræðismanna á Íslandi. Skrifstofan annast regluleg samskipti við kjörræðismenn 56 ríkja á Íslandi og félag þeirra. Kjörræðismenn erlendra ríkja eru skráðir í handbókina Diplomatic List sem og nánari upplýsingar um þá. Grundvöllur starfs kjörræðismanna er Vínarsamningurinn um ræðissamband frá 1963.

Kjörræðismál

Í því skyni að efla og treysta samskiptin við kjörræðismenn Íslands var deild kjörræðismála færð undir prótokollskrifstofu. Skrifstofan hefur umsjón með um 220 kjörræðismönnum Íslands í tæplega 90 ríkjum. Kjörræðismenn eru mikilvægir útverðir utanríkisþjónustunnar í margvíslegri hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd um allan heim og starfa samkvæmt Vínarsamningnum um ræðissamband frá 1963 (e. Convention on Consular Relations). Markmið breytinganna er að þróa enn traustari og nánari tengsl utanríkisráðuneytis og sendiskrifstofa við kjörræðismenn með bættum samskiptum, skýrari verklagsreglum og aukinni miðlun upplýsinga um Ísland og íslensk málefni. Í þessu sambandi er sérstök áhersla lögð á viðskiptamál og borgaraþjónustu.

Lögð er áhersla á skilvirkni og að skýrar reglur gildi um verksvið kjörræðismanna og eðli starfsins, þar á meðal um val kjörræðismanna, skipun, hámarksaldur og starfslok. Unnið er að uppfærslu á tímamótariti Péturs Thorsteinssonar, fv. ráðuneytisstjóra, frá 1979, Handbók fyrir kjörræðismenn Íslands (Manual for Honorary Consuls of Iceland). Ítrekaður hefur verið sá ásetningur að ræðismannaráðstefnur á Íslandi verði haldnar á 4-5 ára fresti. Einnig er verið að endurmeta mögulegan fjölda kjörræðismanna og staðsetningu þeirra í einstökum heimshlutum, einkum í nýmarkaðsríkjum. Engum blöðum er um það að fletta að hinir ólaunuðu kjörræðismenn um allan heim hafa í hendi sér lykilinn að góðum árangri Íslendinga á mörgum fjarlægum nýmarkaðssvæðum og nauðsyn ber til að hvetja þá í starfi.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira