Hoppa yfir valmynd
8. maí 2020 Utanríkisráðuneytið

Loftið „var hrannað af spenningi, taugarnar strengdar, og óvissa skein út úr hverju andliti“

10. maí 1940. Ísland hernumið. Nýskipaður sendiherra Breta, Howard Smith og fulltrúar hans koma úr Stjórnarráðinu, eftir fund með ríkisstjórn Íslands. - myndÓlafur Magnússon / Ljósmyndasafn Reykjavíkur

„Howard Smith reis úr sæti, hávaxinn, álútur nokkuð og fölur í andliti, enda hafði hann orðið „illilega fyrir barðinu á sjóveiki“.

Það er kannski ekki skrítið að Howard Smith hafi verið fár og fölur þennan örlagamorgun 10. maí árið 1940. Í dagrenningu hafði hann siglt í forystuskipinu Berwick ásamt öðrum skipum bresku flotadeildarinnar inn á Sundin við Reykjavík með trúnaðarbréf í farteskinu sem nýskipaður sendiherra Bretlands gagnvart Íslandi. Erindið þennan sama morgun kl. 11 var að afhenda Hermanni Jónassyni, forsætisráðherra, trúnaðarbréfið og ræða hernám Íslands. Howard Smith átti eftir að gegna ómetanlegu hlutverki í sögu samskipta þjóðanna tveggja á örlagatímum.

Trúnaðarbréf Howard Smith.Trúnaðarbréf Howard Smith.

Trúnaðarbréf Howard Smith.

Mánuði áður höfðu Íslendingar tekið utanríkismálin í eigin hendur frá Dönum og stofnað til stjórnmálasambands við Breta. Hér var hin sjálfstæða og fullvalda þjóð að taka sín fyrstu skref í utanríkismálum.

Líklega hefur sendiherra sjaldan eða aldrei afhent trúnaðarbréf við jafn óvenjulegar aðstæður og sá breski þennan dag og þegar hann gekk á fund þjóðstjórnarinnar í Stjórnarráðshúsinu. Að stofna til trúnaðarsambands við leiðtoga lands og tilkynna hernám þess í leiðinni.

Þór Whitehead sagnfræðingur og fyrrverandi prófessor lýsir þessum skiptum í Stjórnarráðshúsinu við Lækjatorg ágætlega í bók sinni „Bretarnir koma“. Gefum honum orðið.

 

„Innrás Þjóðverja í Danmörku og Noreg hafði valdið mikilli óvissu um hlutskipti Íslands og ráðherrunum fimm virtist hún hafa aukist frekar en minnkað.  Hernám var skollið yfir, eins og menn höfðu óttast en afleiðingarnar gátu menn ekki með nokkru móti séð fyrir.  Ráðherrar voru kvíðnir og áhyggjufullir, en Stefáni Jóhanni Stefánssyni utanríkisráðherra virtist forsætisráðherra óttast öðrum fremur „að erfiðir tímar færu í hönd” vegna komu Breta.

[...]

Þegar ráðherrarnir höfðu rætt málin, biðu þeir „þess með nokkrum óróa og eftirvæntingu” að fulltrúa Breta bæri að garði.  Þeir komu brátt í breska ræðismannsbílnum frá Hótel Borg, þar sem Howard Smith og sendisveitarmenn hans höfðu tekið sér aðsetur eins og herstjórnin.  Örfáir menn horfðu á Bretana fjóra ganga upp stéttina að Stjórnarráðshúsinu.  Howard Smith sendiherra, hægur maður í fasi og virðulegur, gnæfði yfir þá Shepherd aðalræðismann og dr. C.R.S. Harris viðskiptafulltrúa.  Þeir klæddust dökkum síðfrökkum, með hvítflibba og pípuhatta á höfði að sið stjórnarerindreka, sem afhenda vildu trúnaðarbréf um skipun í embætti. 

[...]

 Mönnum var vísað til sætis í bakháa ráðherrastóla og forsætisráðherra settist að venju fyrir endann á grænklæddu fundarborðinu.  Honum á vinstri hönd, gegnt gluggunum, sátu ráðherrarnir fjórir, en til hægri fulltrúar Breta.  Loftið „var hrannað af spenningi, taugarnar strengdar, og óvissa skein út úr hverju andiliti”.
Howard Smith reis úr sæti, hávaxinn, álútur nokkuð og fölur í andliti, enda hafði hann orðið „illilega fyrir barðinu á sjóveiki”. Hann sagðist telja það mikinn heiður að vera hingað kominn sem fyrsti sendiherra Breta á Íslandi og spurði, hvort forsætisráðherra vildi taka við afriti af trúnarbréfi Georgs konungs VI.  Þannig lét Howard Smith kurteislega á það reyna, hvort ríkisstjórn Íslands hygðist hafna breskum sendiherra í mótmælaskyni við hernámið.  Bretar höfðu nokkrar áhyggjur af þessu, þótt trúnaðarbréfið væri augljóslega mikilvægt fyrir Íslendinga sem skýr viðurkenning Bretaveldis á sjálfstæði þeirra og fullveldi.  Stefán Jóh. Stefánsson utanríkisráðherra tók eftir því, að Howard Smith „virtist vera dálítið óstyrkur og hikandi” í framkomu.  Hann undraðist þetta um mann, sem ráðherrar vissu að starfað hafði í bresku utanríkisþjónustunni hátt í þrjá áratugi við góðan orðstír.
Hermann Jónasson renndi augum yfir afritið af trúnaðarbréfinu, sem Bretakonungur hafði undirritað í Buckingham-höll og var stílað til „míns góða bróður og kæra frænda” Kristjáns X., konungs Íslands og Danmerkur.  Forsætisráðherra sagði, að best færi á því, að Howard Smith afhenti sér frumritið af bréfinu, þó að venja væri að gera það við sérstaka athöfn.  Sendiherrann rétti honum þá fúslega bréfið, en forsætisráðherra „kastaði” því til utanríkisráðherra um leið og hann sagði: „Þú skalt taka við þessu, Stefán.”
Utanríkisráðherra fundust þessi viðbrögð Hermanns greinilega óviðeigandi, og svo kann að hafa verið um fleiri ráðherra.  En Howard Smith virðist ekki hafa gefið þessu atviki neinn gaum eða leitt það hjá sér.  Hann lýsti nú yfir því, að Bretastjórn „hefði lent herliði á Íslandi þá um morguninn einungis í þeim tilgangi að tryggja sér nokkrar bækistöðvar”.  Ljóst væri, að ríkisstjórn Íslands vildi forðast að dragast inn í stríðið, eins og fram hefði komið, þegar hún hafnaði tilmælum Breta um varnarsamstarf eftir innrás Þjóðverja í Danmörku og Noreg.  Bretar væru hins vegar sannfærðir um, að hlutleysisyfirlýsing nægði ekki ein og sér til varnar í þessum ófriði, þar sem menn ættu í höggi við fullkomlega samviskulausan andstæðing.  Því hefði hann kynnst af eigin raun í Danmörku, þar sem hann var sendiherra, þegar Þjóðverjar tóku Kaupmannahöfn.  Ísland væri Bretum nú blátt áfram „lífsnauðsynlegt í baráttu gegn Þjóðverjum fyrir frelsi Noregs og Danmerkur, og engin trygging væri fyrir því að Þjóðverjar stigju ekki á land hér”.  Hefðu þeir orðið fyrri til, hefðu Bretar „neyðst til að hrekja þá á brott og Ísland orðið vígvöllur, þar sem bæjum og þorpum hefði óhjákvæmilega verið tortímt”.  Með því að reisa hér nauðsynlegar bækistöðvar „gætu Bretar í krafti yfirráða sinna á hafinu komið í veg fyrir, að styrjöldin færðist nær Íslandi”.  Hlutleysi yrði ekki tryggt án herverndar. 

[...]

 Hermann Jónasson reis nú úr sæti, fölur og óstyrkur, eins og Howard Smith.  Hann sagði eitthvað á þá leið, að Íslendingar hefðu ekki vænst þess, að fyrsti sendiherra Bretlands kæmi hingað „með þessum hætti”.  Ríkisstjórnin hefði ekki óttast innrás Þjóðverja.  Breski flotinn „væri sterkur á hafinu og stöðugt á verði nálægt ströndum Íslands”.  Ekkert hefði sannast um að Þjóðverjar væru í innrásarhug, hvað svo sem Bretastjórn ályktaði um fyrirætlanir þeirra.¹⁵  En nú „hefðu umskipti orðið”, hættan af innrás Þjóðverja „væri til staðar” vegna landgöngu Breta.  Ríkisstjórinn ætlaði vissulega að mótmæla hernáminu, en með því að Bretar hefðu „komið með góðum hug”, vildi hún vinna með þeim.  Bretum hefði þó verið nær að spyrja stjórnina leyfis heldur „en að ráðast í þessa skyndilegu og fyrirvaralausu landgöngu”.

[...]

 Howard Smith þakkaði forsætisráðherra orð hans, en sagði ekkert meira.  „Stundin var alvarleg, og allir gerðu sér ljóst að hér hafði einstæður og örlagaþrunginn viðburður gerst.”  Nú „ríkti þungbúin þögn.  Það var eins og enginn vildi segja neitt frekar.”

[...]

Í Lundúnum höfðu menn talið Howard Smith lítt öfundsverðan af göngu sinni á fund ríkisstjórnarinnar.  Þess voru engin dæmi, að breskur sendiherra hæfi feril sinn með því að tilkynna hernám gistilands síns!  Enda þótt íslenskir ráðherrar væru vinveittir Bretum, varðaði það nokkru fyrir samskiptin við hernámsveldið, hvernig Smith hafði haldið á málum.  Hann kom ekki fram eins og húsbóndi, sem sagði smáríkinu fyrir verkum í krafti vopna- og viðskiptavalds, heldur beitti rökvísi og hógværð.  Óstyrkur hans og vanlíðan var honum til framdráttar, því að ráðherrunum var sjálfum líkt innanbrjósts.  Sendiherrann hafði strax fundið til hlýhugar í garð forsætisráðherra og það var gagnkvæmt.  Ráðherrarnir höfðu heyrt, að Howard Smith væri „talinn meðal ágætismanna bresku þjóðarinnar, og þóttust skilja réttilega, að nokkuð þætti bresku ríkisstjórninni í húfi, úr því að hún tilnefndi hann fyrsta sendiherra Breta á Íslandi og fól honum það hlutverk að sætta íslensku þjóðina við hernámið”.  Á þessum fyrsta og mikilvæga fundi að morgni hernámsins „vann hann strax traust og álit ríkisstjórnarinnnar”.  Sjálfur var Howard Smith að vonum mjög ánægður með fundinn:  Móttökurnar voru „vinsamlegri en ég hafði búist við”, sagði hann í skeyti til Halifax utanríkisráðherra um kvöldið.“

  • Trúnaðarbréf Howard Smith. - mynd
  • Trúnaðarbréf Howard Smith. - mynd
  • Trúnaðarbréf Howard Smith. - mynd
  • Trúnaðarbréf Howard Smith. - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum