Hoppa yfir valmynd
15. október 2020 Utanríkisráðuneytið

Eldskírn utanríkisþjónustunnar - fyrsta borgaraþjónustuverkefnið

Strandferðaskipið Esja. - myndLjósmynd/Þjóðminjasafn Íslands.

„Esjan er komin að landi með 258 farþega“ og „Taugatrekkjandi þeysireið læknanema yfir lokuð landamæri lauk í sóttkví á Íslandi“.

Áttatíu ár skilja á milli þessara tveggja fyrirsagna. Sú fyrri birtist í Morgunblaðinu 16. október 1940. Sú síðari á vef Vísis 26. mars 2020. Áttatíu ár skilja á milli þessara heimsviðburða: COVID-19 heimsfaraldursins og síðari heimsstyrjaldarinnar. Oft er sagt að sagan endurtaki sig, sem á við hér að því leytinu til að utanríkisþjónusta Íslendinga kom til skjalanna í báðum tilfellum við að tryggja öryggi íslenskra ríkisborgara erlendis. Á vormánuðum ársins 2020 bar lokun landamæra víða um heim nokkuð brátt að og óttast var að flugleiðir myndu lokast alfarið. Utanríkisþjónustan vann á þessum vikum sem einn maður að því að aðstoða hátt í tólf þúsund Íslendinga sem staddir voru erlendis er faraldurinn braust út og varð í raun að einni stórri borgaraþjónustu. Í dag minnumst við hins vegar þess að nú eru áttatíu ár liðin frá þessari frægu för Esju frá Petsamo til Íslands. Utanríkisþjónustan var stofnuð 10. apríl 1940, daginn eftir hernám Þjóðverja á Danmörku og Noregi, en þá þegar var ljóst að fjöldi Íslendinga var orðinn innlyksa á Norðurlöndum. Í þessari sannkölluðu eldskírn utanríkisþjónustunnar lögðust allir á eitt við að leysa fyrsta stóra íslenska borgaraþjónustuverkefnið. Lyktaði því með því að 258 manns, konur, karlar og börn, komust heim til Íslands 15. október 1940.

Hugurinn hvarflar norður á bóginn

Kaupmannahöfn, 9. apríl 1940.

Fjöldi flugvéla yfir borginni er svo mikill að varla sést til himins. Þjóðverjar hafa hertekið Danmörku og Noreg. Við flugvélagnýinn vaknaði Sveinn Björnsson, sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, sem hafði fengið veður af hernámi Þjóðverja nokkru áður og degi fyrr látið Hermann Jónasson forsætisráðherra vita. Fjölmargir Íslendingar voru staddir á Norðurlöndum þegar hernámið átti sér stað og lokuðust inni þar sem siglingar á milli Íslands og Danmerkur höfðu lagst af. Margir þeirra voru staddir þar tímabundið, meðal annars stúdentar, með lítið á milli handanna og bjuggu við kröpp kjör og reiddu sig á styrki. Án efa hvarflaði hugur þeirra margra norður á bóginn.

Þjóðverjar hertaka Danmörku 9. apríl 1940 sem leiddi til stofnunar íslensku utanríkisþjónustunnar næsta dag. Myndin er frá flugvellinum í Kaupmannahöfn.Þjóðverjar hertaka Danmörku 9. apríl 1940 sem leiddi til stofnunar íslensku utanríkisþjónustunnar næsta dag. Myndin er frá flugvellinum í Kaupmannahöfn.

Framundan var fyrsta borgaraþjónustuverkefnið í sögu utanríkisþjónustunnar, sem á þessum tíma var afar fámenn og í reynd að fæðast. Um vandasamt verk var því að ræða enda var afar erfitt að koma skeytum á milli en fyrst eftir hernámið gátu skeyti verið viku eða jafnvel lengur á leiðinni eftir ýmsum krókaleiðum. Í skjalasafni utanríkisráðuneytisins er að finna yfirlitsskýrslu Sveins Björnssonar „um heimflutningsmálið á íslenskum ríkisborgurum sem voru á Norðurlöndum vegna ófriðarins.“ Sveinn var einn örfárra sem hlaut leyfi þýskra yfirvalda í Danmörku til þess að fara til Íslands. Hann lagði af stað frá Kaupmannahöfn til Berlínar 24. apríl 1940, þaðan sem hann fór til Genúa og síðan til New York. Þann 22. maí 1940 lagðist Dettifoss loks að bryggju við hafnarbakkann í Reykjavík. Sveinn stýrði því heimflutningsmálinu frá Reykjavík, átti samskiptin við bresk hernámsyfirvöld og samræmdi verk annarra.

Daginn áður en Sveinn Björnsson fór frá Kaupmannahöfn fékk hann vilyrði um að Gullfoss, skip Eimskipafélagsins skyldi leyst „úr haldi og leyft að taka til Íslands alla íslenzka ríkisborgara sem óskuðu að fara til Íslands og til næðist, eins fljótt og fært yrði“. Svarið var á þá leið „að liðið gætu einn eða fleiri mánuðir áður en skipi frá Khöfn yrði fært út í Norðursjó. Um þetta símaði S.B. ríkisstjórninni frá Genova 30. apríl“.

Ekkert varð af siglingu Gulfoss, meðal annars vegna hernáms Breta á Íslandi. Strax í maí hófst aftur umræða um siglingu strandferðaskipsins Esju til Petsamo nyrst í Finnlandi (nú í Rússlandi) einu opnu hafnarinnar á Norðurlöndum til þess að sækja innlyksa Íslendinga.

Sendiráðið í Kaupmannahöfn stendur í ströngu

Jón Krabbe, sendifulltrúi í Höfn, stýrði sendiráðinu, þá 66 ára gamall, ásamt Tryggva Sveinbjörnssyni og Önnu Stephensen.

„8. maí kemur skeyti frá sendiráðinu Khöfn um að þýska sendiráðið muni reyna að útvega samþykki til þess að allt að 300 Íslendingar megi fara frá Khöfn til Íslands um Petsamo ef finsk stjórnarvöld [sic] samþykki að fara megi þá leið.“

Starfsfólk sendiráðsins í Kaupmannahöfn stóð í ströngu og verkefnið gekk ekki þrautalaust fyrir sig. Það tók tíma að fá leyfi og aðstæður breyttust ört sem aftur breytti afstöðu þeirra sem réðu hvort leyfi fengist. Sífellt þurfti að semja við Þjóðverja en svo varð líka að aðstoða Íslendinga í vandræðum, margir urðu auralausir, ekki bara í Danmörku heldur líka þeir sem voru suður í Þýskalandi. Í endurminningum sínum segir Jón Krabbe: „Farþegarnir skiptu hundruðum og varð að afla samþykkis bæði Englendinga og Þjóðverja fyrir hvern einstakan þeirra svo og fyrir allri ferð skipsins og siglingaleið, og vegabréf urðu að grandskoðast af þýzka sendiráðinu, og síðan var að senda þau til Stokkhólms svo að Englendingar gætu rannsakað þau.“

Jón Krabbe og Sveinn Björnsson á skrifstofu sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn.Jón Krabbe og Sveinn Björnsson á skrifstofu sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn.

Skipulagningin var snúin og tók margar krappar beygjur. Þann 7. júní 1940 segir til dæmis Pétur Benediktsson, sendifulltrúi í Lundúnum, að breska stjórnin hafi ekki neitt á móti heimflutningsáformunum en aðeins sex dögum síðar kemur í ljós að það vilyrði hafi byggst á misskilningi „samkv. skeyti til hans frá Lord Halifax þá samdægurs.“ Þá hafði hernám Íslands af Breta hálfu sitt að segja og var brottflutningur þýska  og annarra þýska þegna til fyrirstöðu um leyfi Þjóðverja fyrir ferðinni: 

„21. júní kemur skeyti frá sendiráðinu í Khöfn með fyrirspurn frá þýsku stjórninni um:
1. Hvernig sé ástatt um þýzka ríkisborgara sem eru á Íslandi.
2. Hvort nokkrir þeirra séu í hafti (internered) [sic].
3. Hvort þeir af þeim sem þess óski muni fá að fara heim með Esju frá Íslandi um Petsamo.
Ef svarið þyki fullnægjandi muni Esjuferðin leyfð og geti skipið þá máske tekið fólkið í Bergen í stað Kirkenes.

10. maí 1940. Ísland hernumið. Nýskipaður sendiherra Breta, Howard Smith og fulltrúar hans koma úr Stjórnarráðinu, eftir fund með ríkisstjórn Íslands.10. maí 1940. Ísland hernumið. Nýskipaður sendiherra Breta, Howard Smith og fulltrúar hans koma úr Stjórnarráðinu, eftir fund með ríkisstjórn Íslands. Ljósmynd: Ólafur Magnússon / Ljósmyndasafn Reykjavíkur

Ferðin var einnig háð ýmsum óvissuþáttum og óttuðust Bretar, þar á meðal aðalræðismaðurinn Shephard möguleikann á því að þýskir njósnarar yrðu með í för í hópi Íslendinganna.

Nýskipaður sendiherra Breta, Charles Howard Smith talaði einnig „um möguleika að fá símað nöfn allra farþega hingað eða til London til eftirlits um hvort einhverjir væru grunsamir [sic]. Erfiðleikarnir virtust stafa frá hermálaráðuneytinu í London“ og að „heimflutningur muni óframkvæmanlegur. Lýsti ástæðum: Hræðsla við þýska njósnara- eða flugumenn í hópnum“.

Fram í júlí 1940 var Vilhjálmur Finsen við sendiráð Dana í Ósló en síðan stýrði hann nýrri sendiskrifstofu sem þá var opnuð í Stokkhólmi. Hann lék einnig stórt hlutverk við skipulagningu og framkvæmd ferðarinnar; ferðalangar komu þangað á leiðinni til Finnlands og dvöl þeirra varð lengri en til stóð, heil vika í stað einnar nætur. Vilhjálmur varð að sjá um fólkið og skipuleggja ferð þeirra áfram norður til Petsamo.

„6. júlí kemur skeyti sem bendir á að ekki muni standa á leyfi finsku [sic] stjórnarinnar ef áður fáist leyfi Þjóðverja. Vinnur sendiráðið í Khöfn nú að því að fá þetta leyfi Þjóðverja.“

„22. júlí símar sendiráðið í Khöfn að þýzki sendiherrann telji nú gott útlit að málið leysist bráðum.“

„29. júlí spyr sendiráðið í Khöfn hvenær Esja geti verið komin til Petsamo, ef til kemur. Því svarað strax (20.-25.ágúst) og Krabbe og Finsen beðnir að láta alla Íslendinga á Norðurlöndum, sem óska að komast heim með "Esju" vita um ferðina í tæka tíð“.

Leitað allra leiða

Um sumarið, meðan enn hafði ekki tekist að koma ferðinni á, fékk Vilhjálmur Þór, þáverandi ræðismaður í New York, það hlutverk að athuga hjá bandarískum stjórnvöldum hvort Íslendingar gætu komist með bandarískum skipum sem sóttu Bandaríkjamenn til Petsamo.

„29. júlí kemur svohljóðandi skeyti frá Vilhjálmi Þór: „Bandaríkjastjórn sendi héðan skip gærkveldi Petsamo sækja Bandaríkjaborgara viðtalaði Statedepartment [sic] aftur í dag, virðist ómögulegt með koma Íslendingum þar sem fleiri Bandaríkjamenn umbeðið far en með komast reyni samt áfram“.“

Einnig var Finni Jónssyni alþingismanni, sem var strandaglópur í Stokkhólmi falið að taka upp samtal um það við Rússa hvort hægt yrði að sigla til Murmansk í stað Petsamo þegar Finnar höfðu upphaflega sagt nei við beiðni um að leyfa siglinguna. Áður hafði Finnur lagt til að sendiskrifstofa yrði opnuð í Stokkhólmi en Svíþjóð var hlutlaust land.

„24. júní símar Finnur Jónsson að neitað hafi verið um flutning um Murmansk (á Rússlandi)“.

Í London stóð Pétur Benediktsson sendifulltrúi í ströngu gagnvart breskum stjórnvöldum, átti samskipti sem síðan stuðluðu að því að leyfi fékkst á endanum. Á öllum vígstöðvum utanríkisþjónustunnar var unnið að þessu stóra verkefni – að koma íslenskum strandaglópum heim. 

Pétur Benediktsson, sendiherra. Hann hóf störf í utanríkisráðuneyti Dana árið 1930; varð sendifulltrúi Íslands í London 1940 og jafnframt sendifulltrúi gagnvart ríkisstjórn Noregs þar. Pétur varð síðar sendiherra gagnvart þessum sömu ríkjum. Hann varð sendiherra í Moskvu 1944 og jafnframt gagnvart Frakklandi, Póllandi og Belgíu; Tékkóslóvakíu 1946; Ítalíu 1947; Sviss og Portúgal 1949 og Írlandi 1951. Hann varð fyrsti sendiherra Íslands gagnvart öllum þessum ríkjum.Pétur Benediktsson, sendiherra. Hann hóf störf í utanríkisráðuneyti Dana árið 1930 og varð sendifulltrúi Íslands í London 1940.

Heimferð ráðin

Þann 5. september 1940 fékkst leyfi frá breskum stjórnvöldum eftir að gefnar voru upplýsingar um hvern einasta farþega en að óumflýjanlegt var að Esja yrði háð eftirliti Breta. Þessa daga í byrjun septembermánaðar var Esjuferðin skipulögð að öllu leyti, skipið vátryggt, og þá átti Sveinn Björnsson einnig tal við breska sendiherrann um „að fá gefna upp siglingaleið "Esju" til þess að síma hana þýzkum stjórnarvöldum til aukins öryggis um að skipið yrði látið óáreitt af Þjóðverjum.

Ljóst var að undirbúningur Esju kostaði bæði sendiráðið í Kaupmannahöfn og hið nýstofnaða sendiráð í Stokkhólmi mikla vinnu. Í Morgunblaðinu 16. október 1940 segir að starfsfólk sendiráðsins í Kaupmannahöfn, þ.e. þau Jón Krabbe, Tryggvi og Anna, hafi unnið dag og nótt síðustu dagana fyrir brottför.

Anna Stephensen og Tryggvi Sveinbjörnsson sendiráðsritari í afgreiðslusal sendiráðsins 1930.

Þann 20. september lagði Esja af stað frá Íslandi og var Tryggva Sveinbjörnssyni falið að fara með hópinn alla leið frá Kaupmannahöfn til Petsamo. Er skammt var liðið á ferðina og skipið var í um eins sólarhrings siglingu frá Færeyjum sveimuðu tvær þýskar herflugvélar yfir skipinu. Skutu þær af vélbyssum fyrir framan skipið og beindu Esju að sigla inn til Þrándheims.

„28. sept. kemur skeyti sent frá Finsen 25/9 um að Þjóðverjar hafi tekið Esju til Þrándheims. Krabbe sé að vinna að því að losa hana.“

Við gefum Krabbe orðið:Jón Krabbe lögfræðingur (1874-1964). Hann vann að Íslandsmálum í Kaupmannahöfn í 55. ár; veitti sendiráði Íslands forstöðu 1924-1926 og 1940-1945.„[B]arst mér að kveldi símskeyti frá Finsen í Stokkhólmi á þá leið að þýzkt herskip hefði farið með Esju inn til norskrar hafnar. Ég varð tafarlaust að skunda á fund Renthe-Finks (þýska sendiherrans í Kaupmannahöfn) og lofaði hann mér aðstoð í samræmi við leiðarbréfið sem skipinu hafði verið gefið. Þetta komst þó ekki í kring næsta dag, og morguninn þar á eftir var ég enn í sendiráðinu og krafðist þess að tafarlaust væri gefin fyrirskipun um að láta skipið laust, eins og lofað hafði verið. Þetta hreif. Innan 5 mínútna hafði embættismaður sá sem hlut átti að máli náð hraðsímtali við rétt þýzk yfirvöld í Þrándheimi, og tjáði hann mér strax að nú færi Esja af stað til Petsamo. Farþegarnir gætu farið þangað frá Stokkhólmi, en þar hafði Finsen verið þeim til aðstoðar eftir föngum."

„2. okt kemur "Esja" til Petsamo.“

Esja komst heilu og höldnu til Reykjavíkur 15. október 1940 með 258 farþega og 33 skipverja til viðbótar. Öllum að óvörum kom hún fyrr en ætlað var en ástæðan var sú að ekkert hafi orðið af fyrirhuguðu eftirliti í Kirkwall-höfn á Orkneyjum heldur hafi Bretar ákveðið að eftirlitið skyldi fara fram í Reykjavík. Það hófst um leið og Esja lagðist að bryggju og 16. og 17. október hafði öllum farþegum utan sex sem athuga þurfti nánar verið hleypt í land.

Fjöldi Íslendinga kaus að fara ekki um borð í Esju og segir Jón Krabbe í riti sínu að dagleg störf sendiráðsins í Kaupmannahöfn hafi að stórum hluta til snúist „um þessa stóru nýlendu“ , bæði hvað aðstoð til námskostnaðar varðar en einnig síðar, við að útvega atvinnu. Eflaust höfðu fæstir gert sér í hugarlund að ófriðurinn hefði haft það í för með sér að ómögulegt væri að komast heim til Íslands næstu fimm árin.

Heimildir:

ÞÍ. Sendiráðið í Kaupmannahöfn 1988. B/197-6

Jón Krabbe, Frá Hafnarstjórn til lýðveldis (1959), bls. 136 og 143

Sveins Björnssonar, Endurminningar (1957)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum