Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

22. febrúar 2020 Guðlaugur Þór Þórðarson

Aldarlöng vinátta Eistlands og Íslands

Flestir Eistar vita vel að Ísland var fyrsta landið sem viðurkenndi sjálfstæði Eistlands, Lettlands og Litháens 22. ágúst 1991. Ísland gekk þá á undan með góðu fordæmi og minnti um leið á mikilvægi þess að standa vörð um alþjóðalög og sameiginleg grunngildi. Samstarf ríkjanna og virk þátttaka þeirra í alþjóðlegu samstarfi hefur alla tíð síðan grundvallast á þessum meginreglum. 

Ríkin eru bæði dygg aðildarríki Atlantshafsbandalagsins og leggja sitt af mörkum á alþjóðavettvangi. Eistland situr nú í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna og Ísland var kjörið til setu í mannréttindaráðinu til ársloka 2019. Borgaralegir sérfræðingar frá Íslandi sem starfa hjá Atlantshafsbandalaginu í Eistlandi og Litáen eiga þátt í að efla varnir Eystrasaltsríkjanna. Á móti miðla þau til Íslands mikilvægri þekkingu á netvörnum og hvernig bregðast má við falsfréttum og tryggja upplýsingaöryggi.

Um áramótin tók Eistland við keflinu af Íslandi og leiðir nú samvinnu Norðurlanda og Eystrasaltsríkja (NB8). Samband Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna er náið og tækifærin mörg til að efla samstarfið enn frekar. Ýmis tækifæri liggja á sviði gagnaskipta, rafrænna lausna og netöryggis en reynsla Eistlands af stafrænni stjórnsýslu sýnir hvernig snjallar tæknilegar útfærslur geta örvað hagvöxt og einfaldað viðskipti. Ísland, Finnland og Færeyjar eiga nú þegar í samstarfi við Eistland um þróun gagnaskipta sem með tíð og tíma gætu náð til hinna samstarfsríkjanna. 

Ísland gegnir formennsku í Norðurskautsráðinu um þessar mundir og leggur þar áherslu á lífríki hafsins, loftslag og grænar orkulausnir, og fólk og samfélög norðurslóða. Þá er lögð áhersla á að efla samstarf innan ráðsins sjálfs og út á við enda hefur þróunin á norðurslóðum víðtæk áhrif annars staðar, til dæmis í Eistlandi. Eistland sækist eftir áheyrnaraðild í Norðurskautsráðinu og vill leggja sitt af mörkum til sjálfbærrar þróunar, ekki síst með framlagi til heimskautarannsókna. Öll þessi málefni voru til umræðu á fundi okkar í Tallinn í vikunni. 

Þótt atburðir ársins 1991 séu vel þekktir eru færri meðvitaðir um þá staðreynd að þjóðirnar tvær fengu báðar sjálfstæði árið 1918. Á þessari rúmu öld hefur samband þjóðanna vaxið og dafnað, ekki síst undanfarna þrjá áratugi. Sú vinátta endurspeglast í vaxandi fjölda ferðamanna og kröftugum menningartengslum, sérstaklega á sviði tónlistar. Í ár ætla eistnesk stjórnvöld að veita þeim einstaklingum sem hafa látið að sér kveða í samstarfi Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna viðurkenningu og er unnið að því að setja á fót norræn-baltnesk verðlaun sem stuðli að enn virkara samstarfi.

Þessi sameiginlega grein Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Urmas Reinsalu, utanríkisráðherra Eistlands, birtist í Morgunblaðinu 22. febrúar 2019.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum