Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

06. júní 2020 Guðlaugur Þór Þórðarson

Þekkingarsamfélag norðurslóða á Akureyri

Nýverið heimsótti ég höfuðstað Norðurlands, Akureyri, þar sem ég undirritaði ásamt Eyjólfi Guðmundssyni, rektor Háskólans á Akureyri, þjónustusamning á milli Háskólans og utanríkisráðuneytisins. Þetta var einkar gleðilegt tilefni sem eftir allt sem á undan er gengið síðustu vikurnar fær aukna vigt og vægi.

Með í för var hluti þingmannanefndar allra flokka sem skipuð var nýlega að mínu frumkvæði til að endurskoða norðurslóðastefnu Íslands frá árinu 2011. Tímabært var orðið að Alþingi tæki stefnu Íslands í málefnum norðurslóða til heildrænnar endurskoðunar. Starfshópur sem skoðar nú efnahagsþróun á norðurslóðum var einnig viðstaddur, en greining mögulegra efnahagstækifæra og þar með sóknarfæra á norðurslóðum er okkur mjög mikilvæg, ekki síst nú í kjölfar heimsfaraldursins. Þessum tveimur hópum gafst gott tækifæri til að kynna sér allt það góða starf og þá þekkingarmiðstöð norðurslóðamála sem byggst hefur upp á Akureyri, sem er eina sveitarfélag landsins sem nær alla leið norður fyrir heimskautsbaug.

Háskólinn á Akureyri hefur um langt skeið gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu norðurslóðasamfélagsins sem orðið er til í Eyjafirði. Samningurinn sem undirritaður var við þetta tilefni styður enn frekar við norðurslóðasamvinnu og sérfræðivinnu á meðan Ísland gegnir formennsku í Norðurskautsráðinu, en áhersla verður lögð á lýðheilsumál, málefni ungs fólks og háskólasamstarf á norðurslóðum. Samningurinn felur því í sér öflugan stuðning við málefni norðurslóða á Akureyri.

Tenging háskólasamfélagsins á Akureyri við sjávarútveg og atvinnulíf er gott dæmi um það hvernig samfélög geta nýtt styrkleika sína til að efla þekkingu á umhverfinu og auðlindum, ásamt því að styðja við atvinnu- og efnahagslíf á sjálfbæran máta. Það er reynsla og þekking á borð við þessa sem við höfum kappkostað að taka með okkur inn í formennsku okkar í Norðurskautsráðinu og endurspeglast sérstaklega í tveimur megináherslum formennskunnar: annars vegar málefnum hafsins og hins vegar fólkinu á norðurslóðum. Allt undir merkjum sjálfbærni að sjálfsögðu.

Formennska Íslands í Norðurskautsráðinu er nú hálfnuð en vegna aðstæðna sem óþarfi er að tíunda er ljóst að síðara formennskuárið verður ólíkt því sem lagt var upp með. Ísland átti að vera vettvangur fjölda funda og viðburða sem verða nú færðir yfir á netmiðla. Ég tel að við munum þrátt fyrir óvæntar breytingar geta unnið áfram að langflestum okkar góðu verkefna með aðstoð fjarfundatækni sem Norðurskautsráðið hefur nýtt sér vel um margra ára skeið. Margir segja að seigla, aðlögunarhæfni og þrautseigja, jafnvel þrjóska, einkenni lundarfar okkar sem byggjum norðurslóðir. Óvægin náttúruöfl norðurhjarans hafa meitlað þessa mannkosti okkar og nú er undir okkur komið að nýta þá til að halda áfram öflugu starfi Norðurskautsráðsins.

Þrátt fyrir krefjandi tíma undanfarið lít ég björtum augum til framtíðar og ljóst er að mörg spennandi verkefni og tækifæri bíða okkar það sem eftir lifir af formennskutímabili okkar í Norðurskautsráðinu. Ég trúi því að kastljósið muni halda áfram að skína skært á norðurslóðir næstu misseri þar sem áskoranir og tækifæri verða áfram mörg og margslungin. Sjálfbærni, velmegun og öryggi á norðurslóðum eru mikilvæg fyrir heiminn allan vegna víðtækra hnattrænna áhrifa og enn mikilvægari fyrir Ísland sem liggur eitt ríkja í heild sinni innan norðurslóða.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. júní 2020

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum