Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. desember 2020 Guðlaugur Þór Þórðarson

Útganga Bretlands og íslenskir hagsmunir

Aðlögunartímabilið vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu er senn á enda því um áramótin hættir EES-samningurinn að gilda um Bretland. Frá því að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar í Bretlandi sumarið 2016 varð ljós höfum við átt í miklum, nánum og umfram allt góðum samskiptum við bresk stjórnvöld um samband ríkjanna á nýjum tímum. Árangurinn af því talar sínu máli.

Nýundirritaður bráðabirgðafríverslunarsamningur öðlast gildi um áramótin og tryggir hann óbreytt tollkjör vegna vöruviðskipta við Bretland. Það er mikilvægt að kjarnahagsmunir íslenskra fyrirtækja í viðskiptum við Bretland hafi verið tryggðir með þessum samningi enda er Bretland einn mikilvægasti útflutningsmarkaður íslenskra fyrirtækja.

Jafnframt hafa flugsamgöngur á milli Íslands og Bretlands verið tryggðar með undirritun loftferðasamnings nú skömmu fyrir jól. Samningurinn veitir sömu tvíhliða flugréttindi og löndin hafa í dag. Fluggeirinn skiptir íslenskt efnahagslíf höfuðmáli og þar gegna flugsamgöngur við Bretland lykilhlutverki.

Samningar sem við höfum þegar gert við Bretland tryggja að Íslendingar sem eru búsettir þar fyrir lok árs 2020 halda réttindum til dvalar og búsetu og áfram verður hægt að heimsækja Bretland án vegabréfsáritunar.

Íslensk stjórnvöld hafa lagt áherslu á að styrkja enn frekar og byggja upp sambandið við Bretland eftir útgöngu. Markmið okkar hefur verið að klára víðtækan fríverslunarsamning í samvinnu við Noreg og Liechtenstein og standa viðræður um hann nú yfir og mun ljúka fljótlega á komandi ári.

Á aðfangadag bárust svo þau ánægjulegu tíðindi að Bretar og ESB hefðu samið um sitt framtíðarsamband. Þær lyktir eiga eftir að gagnast okkur á margan hátt og verða um leið gott veganesti í endasprettinum framundan. Fyrirkomulag þjónustuviðskipta ESB og Bretlands verður endurspeglað í fríverslunarsamningi okkar, góð niðurstaða í loftferðamálum kemur íslenskum flugrekendum líka vel og rannsóknarsamstarf Breta við ESB heldur áfram sem skiptir okkur Íslendinga máli.

Við í utanríkisráðuneytinu höfum í samvinnu við viðkomandi ráðuneyti og stofnanir unnið að því hörðum höndum að koma í veg fyrir að hnökrar komi upp í viðskiptum okkar um áramótin, og að upplýsa fyrirtæki og almenning um hvað mun breytast og hvað ekki. Að ýmsu er að hyggja í því sambandi. Sem dæmi má nefna að þeir sem flytja til Bretlands frá og með áramótum þurfa að sækja um dvalarleyfi og uppfylla ákveðin skilyrði samkvæmt nýju innflytjendakerfi Bretlands. Samningaviðræður standa yfir um sérstök tveggja ára dvalarleyfi fyrir ungmenni sem vilja flytjast á milli Íslands og Bretlands og lýkur þeim vonandi fljótlega á nýju ári.

Ég hvet þá sem stunda viðskipti eða hafa tengsl við Bretland til að kynna sér upplýsingar á sérstöku Brexit-vefsvæði á Stjórnarráðsvefnum. (www.stjornarradid.is/verkefni/utanrikismal/brexit). Þar eru einnig tenglar inn á aðrar gagnlegar síður t.d. hjá MAST og Skattinum. Eins má alltaf hafa samband við okkur í síma eða með tölvupósti. Svarað er allan sólahringinn í neyðarsíma ráðuneytisins 545 0112 og sérstakur viðbragðshópur verður á vakt vegna áríðandi fyrirspurna sem tengjast útgöngunni. Þetta er í samræmi við áherslu okkar á aukinn stuðning við atvinnulífið eins og nýstofnuð viðskiptavakt er til marks um.

Áramótin sem eru á næsta leiti marka tímamót að svo mörgu leyti. Þótt að ýmsu sé að hyggja varðandi útgöngu Breta úr ESB hafa lykilhagsmunir Íslands verið tryggðir. Ég er sannfærður um að spennandi tímar séu framundan í sambandi okkar við þessa góðu granna okkar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. desember 2020

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum