Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

04. febrúar 2021 Guðlaugur Þór Þórðarson

Alþjóðamálin varða okkur öll

Fyrir fámennt eyríki eins og Ísland eru samskiptin við umheimin sannkölluð lífæð. Súrefnið í hagkerfinu okkar eru þau útflutningsverðmæti sem íslensk fyrirtæki skapa, öryggi landsins og varnir eru tryggð í samvinnu við aðrar þjóðir og í alþjóðasamstarfi við leggjum okkar af mörkum við úrlausn stærstu áskorana sem jarðarbúar standa frammi fyrir.

Í þessu ljósi er það sérstakt umhugsunarefni hve litlar umræður eru um utanríkis- og alþjóðamál í okkar ágæta samfélagi. Rannsóknir benda til að dregið hafi verulega úr erlendri fréttaumfjöllun íslenskra fjölmiðla á undanförnum árum. Fæstir miðlar hafa burði til að kafa djúpt í þessum efnum, hvað þá að hafa fréttaritara erlendis á sínum snærum - það er af sem áður var þegar forsíða þessa dagblaðs var alfarið helguð erlendum fréttum.

Utanríkismál á Alþingi

Þetta á líka við um stjórnmálin, umræður um alþjóðamál á Alþingi eru furðulega litlar miðað við þá hagsmuni eru í húfi fyrir Ísland. Alþjóðastjórnmálafræðingurinn Vilborg Ása Guðjónsdóttir hefur ítrekað vakið athygli á þessari staðreynd í skoðanapistlum sínum. Nýverið benti hún réttilega á að þær „áskoranir sem heimurinn stóð frammi fyrir áður en faraldurinn skall á eru enn stærri og erfiðari viðureignar nú og nýjar áskoranir hafa bæst við. Það á við hvort sem litið er til heilbrigðismála, heimsviðskipta, öryggis- og varnarmála, mannréttinda-, þróunar- og umhverfismála, matvælaöryggis eða lýðræðisþróunar.“ Þetta eru orð í tíma töluð.

Í mínum huga er því fagnaðarefni að í dag eru tveir dagskrárliðir á Alþingi sérstaklega helgaðir utanríkismálum: Annars vegar er sérstök umræða um samskipti Íslands og Bandaríkjanna eftir valdaskiptin í nýliðnum mánuði og hins vegar fæ ég tækifæri til að flytja munnlega skýrslu um utanríkisviðskiptastefnu Íslands.

Samskiptin við Bandaríkin

Bandaríkin eru okkar mikilvægasta viðskiptaland og auk þess eru djúp menningartengsl á milli ríkjanna. Þá er varnarsamingur Íslands og Bandaríkjanna lykilþáttur í vörnum landsins. Ég hef í ráðherratíð minni lagt höfuðáherslu að styrkja tengslin vestur um haf, meðal annars með fundum með æðstu ráðamönnum Bandaríkjanna sem skilað hafa reglubundnu efnahagssamráði á milli landanna svo fátt eitt sé nefnt. Þessi samskipti eru ekki bundinn við einn flokk heldur höfum við átt í góðu samstarfi við fulltrúa bæði demókrata og repúblikana á Bandaríkjaþingi, meðal annars um Íslandsfrumvarpið svonefnda. Því er ég ekki í vafa um að samband ríkjanna haldi áfram að vaxa og dafna með nýjum valdhöfum í Washington.

Tvær tímamótaskýrslur

Hvað utanríkisviðskiptin varðar hlakka ég til að ræða við alþingismenn efni skýrslunnar Áfram gakk! Utanríkisviðskiptastefna Íslands sem við gáfum nýverið út. Óhætt er að segja útkoma hennar marki tímamót þar sem í fyrsta skipti er á einum stað fjallað um alla þá samninga sem tengjast utanríkisviðskiptum Íslendinga, stöðu utanríkisviðskipta, gang mála innan WTO og fríverslunarsamskiptin við ESB og EFTA-ríkin. Fyrr í þessari viku kynnti ég bæði þessa skýrslu og aðra ekki síður merkilega, Samstarf Grænlands og Íslands á nýjum Norðurslóðum, á fjarfundi sem hátt í eitt hundrað fulltrúar erlendra ríkja með fyrirsvar gagnvart Íslandi sóttu. Umræðurnar í kjölfar kynningarinnar voru bæði gefandi og gagnlegar og sýndu um leið áhuga erlendra ríkja á samstarfi við Ísland og áherslum okkar í alþjóðasamstarfi, ekki síst því sem snýr að norðurslóðum.

Utanríkismálin varða okkur því öll, ekki aðeins okkur sem sitja á Alþingi, og því vona ég að sem flestir fylgist með umræðunum síðar í dag og kynni sér jafnframt nýútkomnar skýrslur sem nefndar eru að ofan. Alþjóðamálin eiga alltaf að vera á dagskrá.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. febrúar 2021

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum